Þreyttur var ég og sofnaði fyrir framan sjónvarpið

Þegar ég kom heim undir kvöldið eftir tvær ferðir með búslóð á Sólvelli var ég hund þreyttur. Það tók í fyrir "miðaldra" manninn að bera búslóð þessa 40 metra sem voru frá kerrunni og inn í bústaðinn eftir snjógöngunum sem ég gróf í fyrradag. Þegar ég skilaði kerrunni á bensínstöðina spurði ungur stimamjúkur maður hvort ég hefði ekki haft góðan dag með kerruna og ég hélt það nú. Annars hefði ekki verið mikið gert ef þeir hefðu ekki verið með í fyrri ferðinni þeir Magnús og Tryggvi Þór sem eru íslendingar í Örebro. Það er gjarnan við svona tilfelli sem Íslendingarnir hér hittast.

Annars var hér samkoma, jólaborð, hjá Norræna félaginu í Örebro í byrjun desember. Þar hittum við í fyrsta skipti íslenska konu sem við höfum oft heyrt talað um, hana Önnu, en hún hefur unnið í áratugi við háskólann í Örebro. Með henni voru dóttir hennar og sænskur tengdasonur. Þessi sænski tengdasonur Önnu er fyrsti Svíinn sem ég hef heyrt segja að harðfiskur sé góður. Það byggðist á því að hann þorði að smakka á honum en dæmdi hann ekki vondan eftir lyktinni.

En nú er það svo að ég tala allt of mikið og ég kemst ekki að efninu. Ég var þreyttur sagði ég og ég var ákveðinn í því að slappa vel af framan við sjónvarpið eftir sturtu og vel ofnsteikt lambakjöt sem Valdís bauð upp á í kvöld. Ég var ákveðinn í því að gefa skít í hvaða efni væri á skjánum. Svo byrjaði undankeppni í vali á lagi í Söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Fyrst komu þrír stjórnendur fram á sviðið og sögðu brandara og svo byrjaði Óli að syngja sitt framlag. Undir því miðju sofnaði ég. Eftir um það bil hálftíma vaknaði ég aftur og þá var Jessika að syngja. Ég var nú allur annar maður og hafði orð á því að Jessika væri fallega klædd. Ja! þú hefðir átt að sjá þær sem voru að skemmta í byrjun, sagði Valdís, og þær voru berar upp í pjötlu held ég. Æ, ég er svo gamaldagas að mér finnst fólk bara fallegra í fötum. Jessika er mjög falleg og hún var stórglæsileg í fallegu fötunum sínum.

En nú er klukkan að verða ellefu og þetta kvöld hefur liðið með leiftur hraði. Kannski ég hafi sofið meira en ég hélt. En ég veit þó að Valdís talaði við Rósu Kára okkar gamla granna í Hrísey í síma og svo fengum við okkur mjög góðan eftirrétt. Það var Tyrkjajógúrt með granatepli, pínulitlum púðursykri og smá skvett af rjóma og svo mjólk til að þynna blönduna. Hrærðum svo vel og borðuðum síðan. Íslenskt skyr væri örugglega mjög gott í þetta líka. Tyrkjajógúrt líkist góðu skyri en þó held ég bara að jógúrtin sé betri. Ef einhver skyldi prufa þessa uppskrift með skyri væri gaman að heyra hvernig það smakkast.

Það verður í nógu að snúast á morgun en núna eru í vændum góðar stundir með Óla lokbrá.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0