Vetur vetur

Það var svolítið sérstakt að vakna í morgun. Ég vissi hreinlega að það væri snjókoma, þurfti ekki að líta út til að vita það. En það var annað sem ég varð var við um leið og ég vaknaði til meðvitundar; ég heyrði að það blés vindur úti. Svo eftir að hafa teygt úr mér og velt mér svolítið til og frá í rúminu fór ég fram, og mikið rétt; það var snjókoma og vindur og það blés í skafla. Ég gerði mér grein fyrir því að ég yrði að endurskoða fund minn með honum Anders smið sem við höfðum ákveðið á Sólvöllum strax eftir hádegið.

Næsta mál var að fara með Valdísi á heilsugæsluna þar sem henni er illt í hné og hefir verið í nokkra daga. Þegar þangað kom stoppaði ég beint framan við dyrnar og sleppti henni út. Þegar hún hafði lokað bílhurðinni var kominn strætisvagn frá Mjúku línunni og stoppaði fyrir framan mig og sá ég hvar bílstjórinn fórnaði höndum og virtist ekki sjá fram úr þessu. En Íslendingurinn var ekki í vandræðum með smámál. Ég byrjaði að bakka og um leið og bíllinn byrjaði að skríða aftur á bak sá ég að annar bíll hafið komið fast að afturendanum hjá mér. Þar með ók ég bílnum aðeins út í ruðninginn hægra megin við mig og örvæntingarfulli strætisvagnabílstjórinn komst framhjá. Þá var ekki um annað gera en að tala við bílstjórann sem var aftan við. Dráttarkrókurinn hafði snert hans bíl samkvæmt tilfinningu okkar beggja en það fannst enginn skaði nema ef þá dráttarkrókurinn hafði kannski þrýst inn skrásteningarnúmerinu. Svo skildum við án vandræða.

Ég er búinn að skafa einu sinni í morgun, sagði Mikki snjóruðningsmaður þegar ég hringdi til hans um tíu leytið, en það er allt orðið fullt aftur hélt hann áfram. Hann ráðlagði mér að sleppa Sólvallaferð í dag, það mundi bara leiða til vandræða. Ég afboðaði smiðinn og við ákváðum tíma klukkan 13 á morgun. Enn svo lengi gef ég enga frekari skýrslu um þennan fund okkar Anders smiðs. Ég geri bara eins og Jóhanna, held fundinn og gef svo skýrslu.

Sem sagt, það er ögn íslensknorðlenskt veður hér í dag. Í gær hrundi inn þak á reiðskóla í suður Svíþjóð. Það er kannski ekkert öruggt í málinu en ég held að miklum snjóþunga sé kennt um. Það sem átti sér stað augnablikin áður en þakið féll inn var að hestarnir flúðu allir í eitt horn í hesthúsinu. Kennslustund stóð yfir og nokkrir foreldrar sátu í kaffistofu þar sem hægt er að horfa gegnum glugga inn í sjálfan reiðsalinn. Engin manneskja hafði nokkurn fyrirboða en hestarnir voru greinilega næmari. Engin slys urðu fyrir utan að ein stúlka handleggsbrotnaði og annarri var illt í hálsi. Hins vegar varð að aflífa einn smáhest, ponny, sem er nýr í hestahópnum þarna og sá var eini hesturinn sem ekki uggði að sér. Þetta þykir mér mjög fróðlegt. Það minnir á fílana í Tælandi sem slitu sig lausa og flúðu til hærri svæða áður en flóðbylgjan skall á ströndinni.

Valdís hvílir sig nú og líður strax betur. Hann Folke læknirn tók henni vel og hlúði að henni. Eftir blóðprufur og bráðabyrgða athugun á hnénu fékk hún sprautu í hnéð og svo fékk hún bólgueyðandi töflur og á að fara í töntgen á morgun. Svo er vorið fram undan. í Sólvallaskóginum hvíla beyki, hlynir, eikur, bjarkir, kastanía, lind, og álmur ásamt fleiru og ef ég færi núna og gætti vel að mundi ég væntanlega sjá að brumin hafi þegar breytst frá því í desember.


Kommentarer
Gísli Einarsson

Þetta er nú neira vetraríkið hjá ykkur, hér er auð jörð og aðeins hefur kólnað undanfarna daga og er frostið um 2 stig.

Kveðja Gísli

Hrísey

2010-02-03 @ 16:27:44
URL: http://gisli.123.is/
Guðjón

Já Gísli, það er vetrarríki. Svona veðrátta hefur ekki verið í mörg ár, að minnsta kosti ekki í 23 ár, og tækni sem hefur þróast á þessum árum sýnir sig nú ekki ráða við svona vetrarveður. Á ég þar í fyrsta lagi við járnbrautirnar. Svo sá ég mynd af þér á þorrablóti.



Kveðja,



Guðjón

2010-02-03 @ 16:50:12
URL: http://gudjon.blogg.se/
Gísli

Það getur orðið vandamál þegar veðrið sínir á sér aðra hlið heldur en vanalega, ég er hræddur um að hér gengi á ýmsu ef það kæmi vetur eins og 1989 eða 1995 þar sem allt miðast við að það séu daglegar ferðir.

Ég var í þorrablótsnefnd ásamt fleirru góðu fólki.

Kv.

Gísli

2010-02-03 @ 18:12:58
URL: http://gisli.123.is


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0