Kálfafell og Hrísey

Í gærkvöldi, all seint, var ég að spjalla við hann Markku á netinu. Þá barst í tal hvaðan ég kæmi og þar nefndi ég Kálfafell og Kirkjubæjarklaustur. Augnabliki síðar fékk ég þessa slóð frá Markku http://bit.ly/9ctSIZ 
og þegar ég klikkaði á slóðina birtist Kiskjubæjarklaustur. Kálfafell fannst ekki en ég fylgdi þjóðvegi 1 austur frá
Kirkjubæjarklaustri og viti menn; Þar birtist allt í einu bæjarnafnið Kálfafell en all langt vestan við sjálfan bæinn. En auðvitað fann ég bæinn líka og síðan Djúpá. Djúpá fylgdi ég inn alla Kálfafellsheiði og inn að jökli. Kálfafell og Kálfafellsheiði er mér hugleikið og fannst mér afar fróðlegt að sjá staðhætti þar frá þessu sjónarhorni. Ég sá meira að segja Lundinn hennar Fríðu systur greinilega. Ég set þetta inn á bloggið til gamans ef einhver skyldi hafa áhuga.

Svo töluðum við Markku líka um Hrísey og Sólvallagötu 3 og stuttu síðar fékk ég þessa slóð frá honum http://bit.ly/9zquZg . Og hvað haldið þið; undir pílunni var Sólvallagata þrjú og gaf þar að líta handverkin mín frá 1972 og 1973 og reyndar einhver ár þar á eftir. Svo er auðvitað hægt að skoða alla Hrísey út frá Sólvallagötu 3 ef einhver vill. Ég er engin tölvufrík en þegar ég er í sambandi við Markku er reyndar gaman að þessu. Ég geri ráð fyrir að hann hafi gaman af því að sjá að ég legg þetta út á bloggið öðrum til gamans. Hann les nefnilega oft bloggið mitt þessi finnskættaði maður sem aldrei hefur lært íslensku en hann hefur fundið leið til þess eigi að síður.

Í dag vorum við Valdís inn í Örebro að tæma útigeymsluna okkar og bílageymsluna. Og alltaf blöskrar okkur. Það er eins og það séu engin takmörk fyrir því hvað hefur safnast upp. Einstaka hlutir eru síðan á Bjargi í Hrísey og margir frá Sólvallagötutímabilinu. Nú gengum við lengra í því að henda eða senda í Mýrurnar en nokkru sinni fyrr. Hlutir sem við höfum lagt til hliðar nokkrum sinnum í 30 til 40 ár án þess að koma að gagni létum við loksins flakka núna. Eins og venjulega vorum við helmingi lengur að þessu en við reiknuðum með, einfaldlega vegna þess að þetta var mikið meira en gátum ímyndað okkur. Það er svo ótrúlegt hvað hægt er að þjappa hlutunum saman á mörgum árum. En nú er það búið, allt húsnæði sem við látum af hendi um mánaðamótin er tómt.

Áður en við fórum til Örebro í morgun fór ég með óhug upp á þak til að moka burtu snjó. En það var ekki undan því komist og þetta er í annað sinn í vetur sem ég moka þakið. Í þetta skiptið mokaði ég einungis af mæninum og þar sem það var frostlaust aldrei slíku vant hafði það þau áhrif að snjórinn neðan við mæninn tók að renna sjálfkrafa af þakinu með miklu brauki og bramli. Eiginlega var eins og það væri komið þrumuveður. Um daginn mokaði ég því sem ég náði til neðan frá og þorði ekki upp á þakið. En nú er þakið mikið léttara og ég fer í vinnu um hádegi á morgun áhyggjulaus af Sólvallaþakinu.



Kommentarer
Rósa

Ég er kannski hendarinn mikli frá Kasmír, en einföld regla er að henda öllu sem maður hefur ekki saknað síðastliðna 6 mánuði...



Kveðja,



Rósa

2010-02-26 @ 22:05:03
Guðjón Björnsson

Ég fer nú að halda að við séum að komast á þetta stig líka dóttir góð.



Kveðja,



pabbi

2010-02-26 @ 23:20:03
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0