Frekar en að gera ekki neitt

Frekar en að gera ekki neitt get ég reynt að blogga í kvöld þó að ég sé svo gersamlega tómur í andanum. Það stendur yfir undirbúningskeppni fyrir val í söngvakeppnina og ég nenni ekki almennilega að hanga yfir því, hef heldur ekki gert það hingað til. Það eru orðin mörg ár síðan Grétar Örvarsson og Sigga Beinteins kepptu fyrir Íslands hönd og mér fannst þau svo fjári góð að ég var alveg á því hreina að þau mundu vinna keppnina. En þau unnu ekki keppnina og jörðin hélt samt áfram að snúast. Að sama skapi vona ég að þeim sem annast sænska lagavalið fyrir keppnina núna takist að ljúka því þó að ég sitji ekki í sófanum.

Það lengsta sem ég hef komist út úr húsi í dag er út í geymslu sem er eina tólf metra frá útihurðinni. Mér datt í hug á tímabili að drattast út í bílskúr líka og var lagður af stað með þar til gerða snjóskóflu til að moka frá bílskúrshurðinni. Þegar ég var kominn hálfa leið þangað, eina 25 metra, sneri ég við og stillti skóflunni aftur við útidyrnar og kom mér til baka inn. Erindið þangað var að raða í bílinn miklu magni af drasli sem við höfum tínt frá í dag til að henda en ég skipti um skoðun á miðri leið. Nú erum við komin svo langt að við erum búin að fara í gegnum allt, bæði hér innan húss og í geymslunni, og það verður ekkert meira að henda í bili.

Þetta kemur oft upp í umræðunni hjá mér um þessar mundir og lítur því ekki út fyrir að ég hafi mikið til að tala um annað en að flytja, henda og gef í Mýrurnar. Það er kannski svo í kvöld að það er ekki svo mikið annað á takteinunum, enda hef ég verið í eitthvað lágri stemmingu í dag. Það er þó venjulegra að ég eigi erfiðara með að halda mér saman. Í dag fundum við eina möppuna til sem er með alls konar efni sem búið er að tína frá á mörgum árum og leggja til hliðar. Svo var þessi mappa gleymd og allt sem í henni var. Nú tókum við möppuna upp úr bananakassa og veltum fyrir okkur hvað væri þarna á ferðinni. Ég fletti af handahófi og fann nokkur atriði frá löngu liðnum árum. Ég fann til dæmis úrklippu úr blaði þar sem ég hafði gert grein fyrir árinu 1992 frá mínum bæjardyrum séð. Og það sem ég hef hef verið mikill heimspekingur á þessu herrans ári, ekkert smá. Mér datt í hug að setja greinina á bloggið. Þessi mappa fær að tilheyra fjölskyldunni áfram.

Frekar en að gera ekki neitt er ég nú búinn að skrifa nokkrar línur. Það er hollt að gera það, sérstaklega ef ég er í lágri stemmingu. Þá næ ég stemmingunni upp. Keppninni er lokið og aðal sigurvegararnir voru fjórar stelpur rétt innan við tvítugt, ósköp fallegar og skemmtilegar og léku á alls oddi. Ég hlýddi Valdísi og mætti í sófann til að sjá þær flytja lagið sitt og svo var bara eftir að skrifa þessi lokaorð.



Kommentarer
Valgerður

ég var ekki heima þegar umrædd keppni fór fram í íslensku sjónvarpi en frétti að Hera Björk hefði unnið. Það var víst heppilegt því annars hefði Bubbi Mortens farið sem fulltrúi Íslands í keppnina þetta ár. Hann hefði þó ekki sungið því það gerði einhver annar en hann átti lagið. Heppilegt að Hera vann.

VG

2010-02-22 @ 11:34:22


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0