Að vera . . .

Fyrir einhverjum vikum bloggaði ég undir fyrirsögninni Heiðarleiki. Ég sagði þar að framhalds væri að vænta og ég hef oft verið með hugann bundinn við þetta framhald. Ekki vegna neinnar þvingunnar, heldur vegna þess að málið er mér hreinlega hugleikið. Ég held líka að það sé mikil hjálp við það sem ég er að velta fyrir mér að setja það á blað og í mínu tilfelli er tölvan nú orðið oftast blaðið. Hitt er svo annað mál hvort ég þarf að birta það öðru fólki eins og ég geri svo oft, en það er líka æfing að þora að sleppa öðrum í það sem ég hugsa og punkta niður. Ég á nokkur óbirt blogg en ég trúi að einhvern daginn leiti ég þau uppi og sleppi þeim frjálsum út á netið. Við Valdís erum undanfarið búin að fara í gegnum þvílík ósköp af skúffum, möppum og pappakössum og ég hef fundið þvílíkan helling af ýmsu sem ég hef skrifað niður og sumt er mjög gamalt. Ég hef aðeins kíkt á þessi blöð mín og ég hef sjálfur undrast það að ég hafi skrifað svona fyrir svo og svo mörgum árum. Ég hef því lagt þetta undan og les það kannski þegar ég verð fullorðinn. Svo safnast í einn pappakassann af öðrum og allt of margir pappakassar þurfa að komast í geymslu, það fáum við Valdís að reyna um þessar mundir.

En aftur um heiðarleikann. Í morgun þegar ég var milli svefns og vöku kom það upp í huga mér að ég væri ekki farinn að skrifa nokkuð framhald. Valdís fór fram á undan mér því að hún ætlaði í kirkju. Ég vorkenndi mér hins vegar pínu lítið eftir amstur gærdagsins og fannst sem ég ætti það skilið að hvíla mig aðeins lengur. Ég var líka ákveðinn í að horfa á sjónvarpsmessuna. En framhaldsbloggið um heiðarleikann sótti að mér og ég velti þessum hlutum fyrir mér fram og til baka. Svo allt í einu og snaggaralega setti ég vinstri fótinn út á gólfið  og á eftir fylgdi allur ég. Valdís var þá að hlusta á þátt um faglega kosningabaráttu, en á leiðinni fram í baðherbergið kveikti ég á tölvunni. Þegar ég hafði snurfusað mig svolítið til og reynt að strjúka úr dýpstu svefnhrukkunum gekk ég fram og sá þá útundan mér skjámyndina á tölvunni. Þar blasti við hann nafni minn, barnabarnið, í umsjá ömmu sinnar.

Á þessari mynd liggur hann á maganum upp á borði og amma hans styður við hann til alls öryggis. Framan við hann liggur dagbók ömmu hans og penni. Með vinstri hendi heldur hann utan um mjóan, bláan borða með mynd af íslenska fánanum með jöfnu millibili og nafninu Iceland, einnig með jöfnu millibili. Sjáum nú til, hún amma hans er bara farin að treysta honum fyrir símanum sínum. Hún hefur þennan borða nefnilega festan við farsímann sinn til að geta brugðið honum um hálsinn á sér þegar þannig stendur á. Á myndinni reisir hann sig upp og horfir sínum fallegu barnsaugum móti myndavélinni. Ef ekki þessi mynd af barnabarni mínu lokkaði mig til umhugsunar um það sem ég hafði verið að hugsa um milli svefns og vöku, þetta; að vera heiðarlegur og góður maður.

Svo gekk ég inn að sjónvarpinu þar sem einhver orð þaðan vöktu athygli mína og þar sátum við svolitla stund hlið við hlið og hlustuðum á vísdóm klókra manna og kvenna. Þar var til dæmis talað um slagorð og hvernig þau væru notuð með viðeigandi líkamshreyfingu, rödd, tónfalli, augnaráði, brosi og fleiru og fleiru. Svo undarlegt sem það nú var, þá var þetta einnig framhald af því sem ég hafði verið að grufla yfir síðustu hálftímana.

Valdís lagði af stað í kirkjuna og sagði bless um það leyti sem ég var tilbúinn með morgunverðinn og var að flytja hann að stólnum mínum fyrir framan sjónvarpið. Ég ætlaði nefnilega að hafa morgunverð með sjónvarpsmessu þennan sunnudagsmorgun. Svo hófst messan frá kirkju í Sigtuna sem er annar elsti bæjarkjarni í Svíþjóð. Allir sem koma til Arlandaflugvallar og fara þaðan inn til Stokkhólms sjá skiltið Sigtuna á þeirri leið. En aftur til messunnar. Hvað var það ekki sem presturinn talaði um? Jú, hann talaði meðal annars um það sem við manneskjurnar skilum til næstu kynslóðar. Nú varð ég alveg stein hissa. Eitt atriðið af öðru var í beinu framhaldi af því sem ég hafði verið að grufla undir sænginni áður en ég setti vinstri fótinn fram á gólfið. Enn einu sinni varð ég svo hissa þegar ég las rétt áðan bloggið hans Per Ekström, www.per.blog.is en Per er maður frá Álandseyjum sem býr með íslenskri konu sinni í Seljunum í Reykjavík.

Framhalds er að vænta.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0