Vetur

Það var orðið dimmt, það var myljandi stórhríð og hvassviðri og ég var á leiðinni heim í Sólvallagötuna í Hrísey. Ég var orðinn sprengmóður eftir að vaða skaflana í mitti og síðast skaflinn frá ofanverðri Sólvallalóðinni og upp að hliðinu hjá Dísu og Ottó. Ég kastaði mæðinni, horfði nokkur augnablik inn um næsta eldhúsglugga og svo lagði ég í síðasta en líka allra hæsta skaflinn, þann sem var við það að byrgja sjónlínuna milli okkar eldhúsglugga og eldhúsgluggans hjá Rósu og Ásgeiri. Þegar ég var efst í skaflinum sökk ég upp undir bringsbalir og byrjaði þar með að vagga mér fram og aftur til að fá svolítið holrúm í kringum mig til þess að ég gæti aðeins lyft öðrum fætinum og svo þrýst hnénu fram og lyfta mér þar með upp um leið. Það voru aðeins fáeinir metrar í útihurðina þvottahúsmegin heima og ég horfði löngunaraugum á þangað.

Þá gerði gríðar hvassa og langa stormhrinu sem aldrei virtist ætla að taka enda. Miskunarlaus snjóiðan barði á mér og ég sá ekki út úr augum og nú varð mér erfitt um andardrátt þar sem ég var svo móður. Ég sá alls ekki í hurðina lengur og allt í einu virtist sem ég ætti gríðar langt eftir heim. Ég man vel enn í dag að þarna var ég í þann veginn að byrja að brjótast um í hálfgerðu æði til að losa um mig og geta svo látið mig velta niður brattan skaflinn og komast sem allra fyrst að hurðinni sem ég vissi að var þarna. Mér fannst sem þessari stormhrinu ætlaði aldrei að ljúka og mér leið illa en ég vissi að nú var um að gera að slappa af og hafa hemil á andardrættinum. Mér tókst það með naumindum og að lokum dró úr vindinum og snjóiðan gaf sig. Allt í einu var útihurðin örskot framundan. Ég náði að losa um mig, lyfta mér upp og svo gat ég látið mig hálf velta niður af skaflinum. Svo stóð ég inn í þvóttahúsi heima.

Ég man ekki á þessari stundu eftir annarri svona örvæntingarbaráttu í sköflunum í Hrísey en ég man eftir að hafa oft orðið þreyttur við að koma mér heim eða hvert það nú var sem ég var að fara. Við Valdís höfum oft eftir að við komum til Svíþjóðar talað um þetta og hvílíkur ógnar munur það er á veðráttu að lenda aldrei í þessum skaflaumbrotum. Þegar ég var að skrifa þetta þá bara fjárakornið var ég kominn í skaflinn í Sólvallagötunni og marga aðra skafla sem þurfti að brjótast í gegnum. Skaflinn við Brynjólfshúsið, Skjöldu og Kelahúsið var oft langur og erfiður á stórhríðar- og ísaárunum á sjöunda áratugnum þegar við áttum heima á Bjargi.

Ég er búinn að blogga áður í dag og nefndi þar að ég hefði farið á haugana. Það var nefnilega þá sem ég rifjaði þetta upp fyrir mér og ég tók líka nokkrar myndir í þeirri ferð sem sýna hvernig snjóalögin setur niður niður hér.


Þetta tré er oxel eða silfurreynir og er örstutt utan við svefnherbergisgluggann okkar. Það næðir ekki mikið á þessu tré þó að það standi stakt og þess vegna getur það líka skartað fögru. Að hugsa sér þá tré sem standa langt inni í skógi hvað þau bera á greinum sínum núna.


Það næðir heldur ekki mikið á þessu klifurhúsi barnanna sem stendur aðeins lengra frá glugganum. Þessi snjór er búinn að hvíla á þaki þess í margar vikur og bætir á alltaf öðru hvoru.


Og tujan utan við útihurðina okkar er þver klippt að ofan. Þar mætti mæla snjódýptina þó að það væri ekki nákvæm úrkomumæling.


Hengibjarkirnar þarna lengst burtu hafa svo fíngert hár að þar getur snjórinn ekki sest að.


Og að lokum. Nálægt ruslagámunum sem ég sorteraði í í dag er gasstöðin í Örebro þar sem dag og nótt, í blíðu og stríðu, sumar sem vetur verður til lífrænt gas sem notað er á alla strætisvagna sem renna um göturnar í Örebro og þar að auki á alla aðra bíla á vegum borgarinnar.



Kommentarer
Valgerður

........og hér erum við nánast í vorveðri, þó svo það hafi aðeins kólnað undanfarna daga og eigi að vera svo næstu daga. Í dag mátti spegla sig í Vestmannaeyjahöfn svo mikið var lognið og stillan.

VG

2010-02-01 @ 22:08:21
Guðjón

Reyndar, á tímabili í dag komst hitinn í 0 stig en það er ekki til frambúðar. Annars er ekki spáð miklum kulda heldur nokkurra stiga frosti.



GB

2010-02-01 @ 22:33:59
URL: http://gudjon.blogg.se/
Rósa

Hvernig ætli veðrið sé á Jan Mayen?



Kveðja,



R

2010-02-02 @ 10:58:46
Guðjón

Já, það var góð spurning þetta með Jan Mayen. Ég fylgdist mikið með veðri þar á árunum í Hrísey vegna þess að það var álit margra að veðrið þar endurspeglaðist síðar í íslenskri veðráttu og hafísmagni við Ísland. Páll Bergþórsson veðurfræðingur vildi meina þetta og hann er ekki verri en það að hann er ör- örlítið skyldur MÉR.



Höfnin í Vestmannaeyjum getur samsvarað spegilsléttu stöðuvatni í Svíþjóð fyrir utan að flest sænsk stöðuvötn eru umgirt skógi. Hins vegar er Vestmannaeyjahöfn umgirt makalausu landslagi þar sem minna en 40 ára gamalt hraun er hluti þess. 40 ára land er afskaplega ungt land.



Kveðja, GB

2010-02-02 @ 13:51:09
URL: http://gudjon.blogg.se/
Markku

Det var en spännande historia. Vädrets makter är inte alltid att "leka med". Antar att precis som du kommenterade på Facebook, så är förutsättningarna på Island sådana, att blir det oväder, så kan naturen vara rätt grym.

2010-02-02 @ 15:07:20


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0