Fjugesta er höfuðstaðurinn

Í dag var það staðfest að svo mikill snjór sem nú er í Örebrosýslu hefur ekki verið síðan 1954. Þetta hef ég eftir grandvörum manni og snjóvini sem hafði lesið það í Örebroblaðinu í morgun. Í gær sagði ég á blogginu að þetta væri mesti snjór í 33 ár en það er gott betur, 66 ár er það ef mér reiknast rétt.

Það kom ekki almennilega fram hjá mér í gær að þá vorum við raunverulega flutt að Sólvöllum og sváfum hér í nótt. Í dag urðum við svo formlega skráð til heimilis í Lekebergshreppi. Þegar flutningamennirnir Ronny og Kalli voru búnir að lesta flutningabílinn heima í Örebro í gær var bara samtíningur eftir sem við ætluðum svo að sækja í dag og ganga endanlega frá. En samtíningurinn varð býsna drjúgur. Við hlóðum í bílinn eins og frekast var unt en það dugði ekki til. Það eru einir tveir eða þrír fólksbílsfarmar eftir ennþá. Við vorum að vísu búin að fá lánaða geymslu hjá húsfélaginu sem við getum haft fram eftir mánuðinum og þar er þetta umframdót núna. En alla vega ég varð alveg undrandi. Það var hreinlega eins og draslið rynni út úr innstungum og loftræstingaropum eða hvaðan eiginlega í ósköpunum kom það. Við ætluðum bara að skreppa og kippa þessu í liðinn, skreppa svo í bæinn og fá okkur kaffi og koma svo til baka klukkan sex og hitta manninn sem veitir húsfélaginu forstöðu. Að því búnu væri mál að fara heim og hvílast. En það varð ekkert kaffið og ekki var glösunum eða bollapörunum til að dreifa svo að við gætum þó drukkið vatnsglas. Það var bara að láta sig hafa það að drekka úr lófa sér og þurrka hendurnar með klósettpappír á eftir.

Skömmu áður en ég fór til Svíþjóðar í febrúar 1994 skrapp ég norður til að tæma Sólvallagötuna endanlega. Það var sama saga þá, það var eins og síðustu hreyturnar væru endalausar. En að lokum var ég búinn að troða öllu í gáminn og fór ég þá inn til að fá mér smá næringu, þá síðustu í því húsi. Nú voru engin borð, sæti eða áhöld til neins. Ég var með brauð, álegg og eitthvað gossull sem ég ætlaði að láta mér nægja. Ég settist á gólfið í eldhúsinu og hallaði mér upp að vegg, tók fram nestið og ætlaði að fá mér fyrstu brauðsneiðina. Þá komst ég að því hvernig það er að vera án allra þæginda. Ég var sem fatlaður og alveg ráðalaus. Að lokum fann ég skrúfjárn sem ég notaði til að reita sundur brauðið með og rífa upp áleggsumbúðirnar og svo hófst borðhaldið. Þetta var með allra frumlegustu máltíðum sem ég hef tekið þátt í. Ég get alveg trúað að þetta skrúfjárn fylgi ennþá Sólvallagötu 3 í Hrísey því ég held að ég muni það rétt að ég hafi skilið það eftir á hillu í geymslunni.

Nú er orðið áliðið kvölds og þessi lokafrágangur sem fór svo fram úr áætlun gerði okkur bæði þreytt. Nú er mál að ég fari að leggja mig. Valdís er þegar komin undir sængina og ég finn fyrir öfund. Að lokum ætla ég að koma hér á framfæri nýju heimilisfangi og þeim símanúmerum sem eru á boðstólum fyrst um sinn.

Västanbäck 5209 D
716 92 Fjugesta

Farsími Valdís   +46 70 5385 631
Farsími Guðjón +46 70 5385 491

Fjugesta er höfuðstaðurinn í Lekebergshreppi

Valdís er búin að raða englunum sínum aftur í skápinn á nýna heimilinu
Valdís er búin að raða englunum skínum í skápinn á ný á nýja heimilinu

Og hér getið þið séð nákvæmlega hvað Sólvellir eru

http://bit.ly/Solvellir
http://bit.ly/Solvellir

Græna pílan bendir beint ofan í svart þakið



Kommentarer
Valgerður

Til hamingju með nýja heimilið bæði tvö. Hér hefur þvílíkt að ekki eru færar götur og flest liggur niðri. ekki oft að slíkt gerist í Eyjum.

kv

Valgerður

2010-02-25 @ 19:14:38
Guðjón Björnsson

Þakka þér fyrir Valgerður. Þetta er mikið að lagast en all mikið er enn ófrágengið en miðað við fyrstu klukkutímana þá er ástandið gott núna.



Og svo snjóar í eyjum. Snjóskóflur á lofti og mikil ófærð. Það kom að því.



Ég ætla að líta á myndirnar hjá Jónatan en um þessar mundir hef ég ekki undan með það sem mér liggur á hjarta.



Kveðja,



pabbi

2010-02-25 @ 20:36:20
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0