Hún Málfríður móðursystir mín

Í tilefni af því að hún Málfríður Pálsdóttir móðursystir mín verður jarðsett á Kálfafelli í dag þá birti ég hér blogg sem ég skrifaði og birti þann 1. apríl 2011.
 
*          *          *
 
Ég heimsótti hana Málfríði frænku mína á Sólvang og hún er einmitt að austan þessi móðursystir mín. Sú heimsókn vakti margar hugsanir sem enn búa með mér fjórum dögum seinna. Hún lifir ein eftir af fimmtán alstystkinum og einum hálfbróður þessi bráðum níutíu og þriggja ára gamla kona. Hvernig er að hugsa út í það spurði ég hana og hún strauk á sér handarbakið og svaraði á þá leið að það væri nú bara svona. Svo var ekkert meira með það.

Þegar ég kom inn á herbergið til hennar var hún að þræða saumnál en gleraugun lágu á borðinu. Saumnálina þræddi hún en þegar ég spurði hana eftir gleraugunum sagðist hún sjá betur með þeim og svo setti hún þau upp. Hún sýndi mér líka saumaskapinn sinn og mér var óskiljanlegt hvernig hún fór að því að sauma svo haglega sem hún gerði. Hún var gersamlega afslöppuð og virtist í sátt við lífið. Manstu þegar þið Snorri genguð heim frá Seljalandi í norðaustan hvassviðrinu spurði hún.

Já, ég mundi vel eftir því. Ég veit hvorki um vindstyrk eða hitastig en ég veit að það var rokhvasst norðaustan, beint í fangið, og mikið frost. Líklega var þetta á gamlársdag og ég gæti trúað því að ég hafi verið tólf ára og Snorri tíu ára. Við gengum frá Seljalandi í Fljótshverfi þar sem við höfðum verið gestir einhverja daga og heim til okkar að Kálfafelli, eina sjö kílómetra gæti ég trúað. Helgi bróðir hennar fylgdi okkur hálfa leiðina en svo sáum við um okkur sjálfir seinni hlutann. Öll vötn voru gaddfreðin. Stundum reyndum við að ganga aftur á bak til að hlífa framhlutanum því að fötin náðu engan veginn að halda á okkur hita. Það var eins og það gæti ekki annað en blásið inn á kroppinn þar sem buxur og úlpa mættust. Annars vorum við klæddir eins og best var á kosið á þeim tíma.

Hún móðursystir mín sagði svo að mikið lifandis ósköp hefði hún verið fegin þegar mamma hringdi til hennar og sagði að við værum komnir á leiðarenda. Ekki get ég skilið hvað lá á að láta ykkur fara út í þetta voðalega veður hélt hún áfram. Varla hefur verið svo nauðsynlegt að fá ykkur heim að það þyrfti að gera það sagði hún ennfremur. Svo endurtók hún nokkrum sinnum hvað hún hefði orðið fegin þegar mamma hringdi til hennar og sagði henni að við værum komnir heim. Svo sýndi hún mér saumaskapinn aftur.

Hún fór ofan í skúffu og sótti passísálmana og sagði að þeir væru lesnir frammi í setustofu á hverjum degi. Mér finnst voða gott hjá þeim að gera þetta sagði hún og það koma margir til að hlusta. Hefurðu lesið passíusálmana spurði hún og var nú búin að fletta upp á passíusálmi númer eitt. Ég sagðist ekki hafa lesið þá skipulega en gripið niður í bókinni hingað og þangað og svo að ég hefði ekki komist hjá því að heyra þá þegar þeir voru lesnir í útvarpinu gegnum árin.

Svo byrjaði hún að syngja passíusálm númer eitt. Ég horfði á hana svona afslappaða eins og hún var og velti fyrir mér lífshlaupi hennar. Hún giftist aldrei og eignaðist engin börn en mörg börn gistu samt heimilið hennar á Seljalandi. Það virtist mikið ljóst að hún leið ekki af neinum leyndarmálum sem fylgdu henni inn í ellina. Hún virtist í fullkomnum samhljómi við það sem hún var að gera, að syngja fyrir mig passíusálm númer eitt, og hún gerði það greinilega af mikið góðum vilja. Hún vildi honum frænda sínum vel, þeim sem bjó nú í Svíþjóð og hafði gengið heim til sín frá henni í illviðri fyrir einum 56 árum. Hún gat ekki þekkt mig með nafni þegar ég kom inn til hennar en þegar hún heyrði nafnið sagði hún að ég byggi víst ennþá í Svíþjóð. Jú ég gerði það og hún reiknaði með að það færi vel um mig þar.

Ég var orðinn hissa á hvað passíusálmur númer eitt var langur en það var allt í lagi þar sem þessi góði ásetningur hennar að syngja fyrir mig vakti margar hugsanir. Þessar hugsanir fylgja mér enn fjórum dögum seinna og eru þegar hluti af því að gera mig að svolítið fullorðnari manni. Að lokum söng hún síðasta versið og lagði svo aftur bókina með virðingu, lagði hana niður í skúffu og sagði svo: Ég söng sum versin oftar en einu sinni en mér fannst það allt í lagi þar sem þú mundir ekkert setja þig á móti því. Það er bara gott að heyra þetta sagði hún og ég var henni alveg sammála, og í raun og sannleika var ég henni alveg sammála.

Ég hlustaði á útvarpið hérna heima hjá henni systur minni áðan. Sú systir mín heitir í höfuðið á henni Málfríði móðursystur minni á vistehimilnu Sólvangi í Hanfarfirði, þessu eina systkini sem eftir er af 16 systkinum. Það var sagt frá því í útvarpinu að sólin okkar væri þúsund sinnum efnismeiri en allt annað sem fyrirfynndist í sólkerfinu okkar og að hún mundi endast í fimm miljarða ára héðan í frá. Mér fannst þetta vissulega athyglisvert og talaði ítillega um það við hann Sigurð mág minn áður en hann fór í vinnuna.

Svo var ég einn eftir og ég borðaði morgunverð og hlustaði á útvarpið. Það var umræða um þjóðmál og allir vissu allt um hvað var gert vitlaust og hvað þyrfti að gera. Mér þótti merkilegt að þetta spaka fólk skyldi ekki vera löngu búið að leysa Gordíonshnútana þar sem viskan var ótæmandi. Ég varð þreyttur á þessu og slökkti á útvarpinu. Mér fannst tímanum betur varið við að skrifa um hana Málfríði móðursystur mína sem söng fyrsta passíusálminn fyrir mig á mánudaginn var.

Nú ætla ég út að hitta konuna mína og annað fólk. Ég gisti hjá systur minni og konan mín gisti hjá systur sinni. Ég vona að allir verði góðir við alla í dag og að margir syngi fyrsta passíusálminn fyrir einhverja sem þeim þykir vænt um og auðvita fyrir alla hina líka.
 
 
Svo bæti ég einni mynd við þetta gamla blogg mitt.
 
Þessi mynd er tekin í 95 ára afmæli Málfríðar Pálsdóttur. Í minningunni frá heimsóknum mínum til hennar á Sólvang, þá var hún brosleit eins og á myndinni. Hún sat gjarnan í rúmi sínu eða á rúmkantinum og hafði sængina yfir sér upp að mitti. Svo þegar hún sagði eitthvað mikilvægt, þá strauk hún sængina alúðlega. Henni leið vel í rúminu þó að hún gengi líka um ganga á Sólvangi og bauð gjarnan upp á kaffi og jafnvel mat þegar svo bar undir. Þannig var nú það og nú heyrir það sögunni til.
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0