15. mai.

Í dag er 15. mai. Ég lá í rúminu mínu í morgun eftir að hafa vaknað snemma og eftir að hafa vaknað frá undarlegum draumi sem ég hef fyrir sjálfan mig. Þegar ég vaknaði voru dyrnar frá herberginu opnar þannig að ég horfði beint fram á gaflinn í stofunni og á mynd sem þar er og á að vera í framtíðinni eða svo lengi sem ég get ákveðið. Önnur mynd er við hliðina á þessari mynd, en ég sá hana ekki frá rúminu þar sem ég lá. Sú mynd á líka að vera á sínum stað í framtíðinni.
 
Fyrir mörgum eru vissir dagar mikilvægir, vekja tilfinningar meira en aðrir dagar. Þannig er það ekki endilega fyrir mér. Allir dagar geta boðið upp á þetta fyrirvaralaust hvað mig áhrærir en oft gera þessir vissu dagar það líka. Í dag hefði hann Vilhjálmur Kristinn sonur minn orðið fimmtíu og eins árs gamall. Það er hvítasunnudagur í dag og ég ákvað í morgun að þennan dag skyldi ég taka rólega því að ég hefði margt að hugleiða.
 
 
Minningar um Vilhjálm Kristinn geta komið upp hvenær sem er og hvar sem er, alls ekki endilega neina vissa daga. Myndin sem oftast kemur upp er frá því hann var að koma úr sveitinni frá ömmu sinni og afa, ég tel að hann hafi þá verið níu ára gamall. Mamma hans fór niður á bryggju í Hrísey til að taka á móti honum og væntanlega Rósa og Valgerður, önnur eða báðar, voru líka með við móttökuna. Frá bryggjunni hljóp hann umsvifalaust heim til að heilsa mér þar sem ég var að snyrta lóðina eftir bggingarframkvæmdir síðustu tveggja ára.
 
Þegar hann kom hlaupandi fyrir húshornið, móður og lifandi eftir hlaupin, voru hans fyrstu orð: "Hvað ertu nú að bardúsa pabbi minn?" Þetta var kannski ekki svo sérstakt eða merkilegt en þetta er sú mynd sem ég sé oftast fyrir mér af honum. Hún getur komið upp hvaða dag ársins sem er, hvenær sem er, að nóttu eða degi. Ég hef sjaldan, jafnvel aldrei upplifað að ég hafi misst son minn. Það sem ég hef upplifað og upplifi enn í dag er að hann fékk ekki að vera með lengur. Einmitt þegar hann var að verða forvitinn um lífið var hann kvaddur burt. Þar liggur sorgin sem enn þann dag í dag skýtur upp kollinum. En minningin um heimkomu hans úr sveitinni þegar hann kom hlaupandi til mín er ekki sorgarminning. Það er falleg minning.
 
Þessi mynd af Vilhjálmi Kristni er lík þeim dreng som kom hlaupandi frá bryggjunni í Hrísey til að
vita hvað pabbi væri að "bardúsa", líklega árið 1974
 
 
 
 
En aftur að myndunum á stofugaflinum. Krtistinn dó 22. mars en Valdís þann 16. apríl, þannig að í dag eru þau mjög samofin í huga mér. Myndin til vinstri er jú af Hrísey, tekin af Kaldbak við austanverðan Eyjafjörð. Þessi mynd er fyrir mörgum sem sjá hana köld mynd en fyrir Valdísi var þetta mynd af Hrísey. Hún kom þaðan og hún vildi líka enda þar að lokum og þá ósk fékk hún uppfyllta. Blómamyndin hægra megin við Hríseyjarmyndina var Valdísi alltaf mikilvæg. Hún átti alltaf að vera í sviðsljósinu. Útsaumurinn lengst til hægri er nokkuð sem Valdís saumaði sjálf sem ung kona. Sú mynd verður líka þar sem hún er.
 
Englunum hennar hefur hins vegar fækkað. Ég vissi vel að ég þyrfti að fækka þeim en ég bara gat það ekki. Valdís safnaði englum og það var henni einfaldlega hjartans áhugamál. Dag einn spurði Susanne hvort hún mætti gera það svo ég væri laus. Og svo gerði hún og það tókst henni að gera með mikilli prýði. Englarnir sem hún tók burt eru í kassa út í bílskúr. Í fleiri kössum þar er margt fleira sem Valdís hafði uppi. Einhvern dag, eftir daga, vikur eða mánuði vil ég fara í gegnum þá kassa og trúlega taka eitthvað til baka. Þó að ég viti að það sé ekki tilfingamál fyrir Valdísi lengur er það tilfinningamál fyrir mig. Það snýst líka um virðingu fyrir manneskju sem var við hlið mér í fimmtíu og þrjú ár. Væri sú virðing ekki fyrir hendi væri ég ekki manneskja.
 
 
Ég minnist þess þegar ég kom með Valdísi heim af sjúkrahúsinu í síðasta skiptið. Rósa og fjölskylda voru í heimsókn. Ég opnaði fyrir henni bílhurðina þegar heim kom og hún leit til hliðar á Hannes sem þar var og beið eftir henni. Það var óræður svipur. Ég hef oft velt fyrir mér hvað hún hugsaði þá þegar hún horfði á hann og ég hef oft horft á þessa mynd og velt fyrir mér hvað hún hugsaði. En hvað Hannes áhrærði, þá var eins og einhvers staðar inni vissi hann að hverju stefndi.
 
Nisse, viltu jarða mig þegar ég dey? sagði Valdís aldeilis yfirveguð og æðrulaus þar sem hún og presturinn Nisse sátu saman við matarborðið hér heima. Og svo gerði hann nokkrum mánuðum seinna. Valgerður var komin í heimsókn og mig langaði að ná sæmilega glaðlegri mynd af þeim. Valdís reyndi að vera glaðleg en það tókst ekki. Það sé ég ennþá á myndinni sem ég tók, en hún kvartaði ekki.
 
En það eru margar glaðlegar minningar. Minningar frá yngri árum og minningar af árunum upp í sænsku Dölunum, frá Svärdsjö og Falun. Ef ég opna viss myndaalbúm sé ég það svo vel. Það var Valdís sem safnaði myndunum í þessi albúm. Ég er ekki viss um að hún hafi nokkru sinni í lífinu hlegið eins mikið og hún gerði á árunum upp í Dölum.
 
Ein minning er mér ljóslifandi þó að ég væri ekki viðstaddur sjálfur. Pétur er góður að segja frá því og ég hef séð þetta á mynd. Ég var á sjúkrahúsi norðan við Örebro eftir skipti á mjaðmarlið en Valdís var í heimsókn í Stokkhólmi að hitta Hannes í fyrsta sin. Þá var hann tveggja vikna gamall. Honum hafði ekki gengið allt of vel að sofa en þegar amma hans tók hann í fangið og settist með hann, þá sofnaði hann. Þannig sat hún með hann í einhverja klukkutíma og hann bara svaf. Það kom ekki til greina að hann yrði tekinn frá henni, það mátti ekki raska svefnró hans. Ég á erfitt á þessu augnabliki með að sjá nokkra minningu sem gæti verið fallegri en þessi.
 
 
Þessi mynd tilheyrir ekki blogginu en hún sýnir að það voru ekki allar stundir erfiðar.
 
 
Áðan horfði ég á sjónvarpsmessu í tilefni hvítasunnu. Þar voru fulltrúar frá mörgum trúarbrögðum og beðið var fyrir friði í heiminum. Múslimapresturinn sagði meðal annars: Án fæðu deyjum við og án friðar verður lífið tilgangslaust.
 
Lífið hefur ekki verið átakalaust og oft kemur upp spurningin innra með mér um tilganginn og ekki síður hvernig ég var sem maður gagnvart þeim sem eru endanlega farnir þangað heim sem engum sleppir til baka. Listamaðurinn hnoðar leirinn og mótar listaverk á þann hátt sem við hin vitum ekki fyrir. Hvað meistarinn sem formar leirinn "mig" ætlar að ná fram veit ég ekki fyrr en ég stend augliti til auglitis við hann. En ég veit að þeir sem eru farnir heim á undan mér hafa haft mikil áhrif á þessa mótun. Líklega erum við öll notuð til að hjálpa til við að móta hvert annað. Einhvern veginn þannig lít ég á lífið. Ég vona að ég hafi verið og verði líka til hjálpar við góða mótun einhvers í þessu lífi.
 
Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
 
 
 
 
Englarnir voru Valdísi mikils virði og hún safnaði þeim aldeilis fram á það síðasta.
 
 
Valdís og Valgerður í Hrísey 1963, árið sem við fluttum þangað.
 
 


Kommentarer
Anonym

Kær kveðja til Sólvalla.Guð þakki Valdísi systur og Kidda mínum fyrir allar stundirnar með þeim.Blessuð sé minning þeyrra.

Svar: Þakka þér fyrir mágkona. Með bestu kveðju frá Sólvöllum.
Gudjon

2016-05-15 @ 14:30:24
Svanhvit

Fallega skrifað Guðjon.Góðar minningar.Veit að bóndinn hefur mikið að gera en farðu að láta heyra frá þér.

Svar: Ég mun láta heyra heyra frá mér. Með bestu kveðju.
Gudjon

2016-05-15 @ 16:49:26
Eva

Þetta er fallegur og einlægur texti. Þú og Valdís hafa verið mér afskaplega góð. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér kæri vinur. Þú ert góð fyrirmynd. Takk fyrir vinskapinn! Velkominn með Susanne til Roslagen.

Svar: Þakka þér fyrir Eva mín, falleg orð. Þú mátt vera alveg viss um að við Susanne látum sjá okkur. Með bestu kveðju.
Gudjon

2016-05-16 @ 06:28:26


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0