Að rata heim

Það var og hefur verið latidagur hjá mér í dag. Þegar einn sem er 75 ára og ekki er veikur fer ekki á fætur fyrr en i klukkan ellefu, þá er lífið rólegt. Þannig gerði ég í dag. Gærdagurinn var ekki jafn rólegur, gærdagurinn var hörku vinnudagur. Nágranninn sagði nefnilega um daginn; heyrðu Guðjón, getur þú bara ekki tekið það sem er eftir af moldinni sem við keyptum? Ég er bara ekki tilbúinn að taka meira í bili. Jú, það gat ég svo sannarlega.
 
Við keyptum eitt bílhlass saman eða þannig að hann ætlaði að kaupa fyrsta hlassið og svo átti ég að kaupa það næsta og svo gat hvor tekið svo mikið sem hann vildi af moldinni. Þannig er góð grannsemja. Nú er nágranninn í sumarfríi niður á Kanaríeyjum en síðustu daga hef ég verið sveittur við að sækja í þennan moldarhaug sem stóð inn á hans landi.
 
Hvað geri ég svo við gróðrarmold þessa dagana? Jú, ég þurfti tl dæmis að fylla vel að brómberjarunnum á tveimur stöðum og ég þurfti að fylla í svolítið hér og þar, gera fínna og gera auðveldara við að hirða landið og slá. Ég verð ekki yngri og ég geri lagfæringar með það í huga.
 
Í fyrradag tók ég svo þriggja metra háa eik með sterklegum stofni, eik sem óx undir krónu á annarri eik og átti enga framtíð þar sem hún var. Samkvæmt því sem ég les á þetta að vera nokkurn veginn vonlaust að framkvæma með árangri. En ég hef gert það áður og það tókst. Tíminn í júlímánuði á líka samkvæmt fræðunum að vera versti tíminn og það get ég vel skilið. Samt var það þá sem ég flutti álíka stóra eik og hún er nú staðarbrýði við innkeyrsluna heim að Sólvöllum.
 
Þegar ég vaknaði í morgun var ég lurkum laminn. Ég vaknaði snemma og fannst ég vera eins og timbraður. Ég læddist út á litlum klæðum og vökvaði eikina mína frá toppi til táar og merkti jafnframt að hún hefur orðið fyrir áfalli við gerðir mínar. Svo lagði ég mig aftur og sofnaði á ný. Ákvörðun var tekin um að halda hvíldardaginn heilagan. Skaparinn sendi mér regn þannig að ég hef ekki þurft að standa með garðslönguna við eikina til að halda henni rakri.
 
Að borða morgunverð klukkan ellefu og horfa svo á sunnudagsandakt í sjónvarpi, það var reglulega gott. Þessi andakt var tekin upp á Costa Del Sol og var undir yfirskriftinni "Ferðast burt, rata heim". Yngri sænsk kona sem heitir Sara og býr á Costa Del Sol kom fram snemma i andaktinni og sagði að þegar hún hefði flutt þangað hefði hún fundið hamingjuna. Hún útskýrði það ekki frekar en með því að segja að "kannski þurfum við stundum að ferðast burt til að rata heim". Svo skildi hún mig eftir með vangaveltur mínar og ég fæ að fylla í eyðurnar.
 
Þessi síðustu orð ýttu svo undarlega við mér og og þannig hélt andaktin áfram, það var svo markt sem var vert að hugleiða. Þessa andakt mun ég horfa á aftur einn góðan rigningrdag þegar það er svo gott að vera inni heima hjá sér.
 
Ég hef lag á því að gera smá ferðalög sem ég er þátttkandi í að stórferðalögum. Svo ferðast aðrir umhverfis jörðina og fáir vita. Ferðin sem við Susanne fórum hérna um daginn upp í Dali var fyrir mig að sumu leyti að koma heim. Árin þrjú upp í dölum voru ekki alltaf blíðviðri og sólarstundir og ferðin þangað um daginn minnti mig á hvort tveggja. Aðgöngumiðinn að þessu landi var ekki alveg ókeypis en verður gjaldsins. Þegar ég sit hér nú og skrifa eru það blíðviðris og sólarstundirnar sem eru ráðandi. Dagarnir í Falun um daginn hefðu gjarnan mátt vera fleiri því að þar var gott og þroskandi að vera.
 
 
Fyrir miðri mynd er eikin sem ég misþyrmdi í fyrradag og nú er komið kvöld og ég hef samviskubit sem ég fékk þegr ég hafði lesið mig til í dag um flutning á eikum. Ég vona þrátt fyrir allt að þessi eik verði langlíf og auki á fegurð Sólvalla. Að staðsetja hana þarna var að vel hugsuðu máli allt frá fyrra ári.
 
 
Hér fyrir miðri mynd er nokkuð sem heitir hengibjörk, ómótstæðilega fallegt tré. Mig langar í tvö svona tré til viðbótar og í huga mér finnast góðir staðir fyrir þau bæði. Ég kem þá til með að taka tré sem eru kannski um þrír metrar á hæð. Þau kosta en maður á mínum aldri á ekki að kaupa neina smá dverga. Ég gróðursetti þetta tré 2007.
 
 
Gróðurinn á Sólvöllum er ekki bara utan dyra. Hér er nokkuð fallegt sem þrífst vel bakvið gluggana en þar er ég ekki mikið að verki. Þetta blóm þrífst alldeilis vel í svefnherberginu. Susanne talar við blómin en ég við trén.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0