Að rifja upp gömul kynni

það var seint um kvöld í janúarlok 1997 sem við Valdís héldum frá Falun og héldum suður á bóginn móti Örebro. Við yfirgáfum Dalina og líf í ókunnu héraði beið okkar. Ég hafð fengi vinnu langt í burtu og það var engin undankoma, það var bara að flytja, og þó að vinnan sem ég fékk hafi verið mér afar mikils virði hefur tengingin við Dalina alltaf lifað með mér. Fyrstu árin var það hrein sorg sem ég upplifði eftir viðskilnaðinn við fólkið hér, landslagið, lífsskilyrðin og almennt þá töfra sem Dalirnir búa yfir. Ég er þar ekki nógu oft en alla vega; ég er í Falun og nágrenni núna. Hér eru nokkrar myndir frá upplifunum dagsins.
 
Hvert sem litið er í þessu landi sunnanverðu er allt grænt utan stöðuvötnin. Það er þetta græna sem hefur heillað mig alla tíð frá því ég kom hingað. Þessi mynd er frá Svartnesi og fururnar sem næst eru á myndinni voru þar líka þegar ég vann þar. Ekki á ég von á að þær muni eftir mér en ég man eftir þeim.
 
 
Það eru rúmlega tuttugu ár síðan ég átti flestar ferðirnar milli Falun og Svärdsjö þar sem vi bjuggum fyrstu þrjú  árin í Svíþjóð. Á þeirri leið voru og eru nokkrir staðir þar sem allt í einu opnast útsýni sem mér þótti alveg sérstaklega fallegt. Hér er einn þessara staða þar sem við fórum um í dag á leiðinni frá Falun og upp í Svartnes, minn fyrsta vinnustað í nýja landinu.
 
Ryssjön, þetta fallega stöðuvatn í kyrrlátum heiðunum milli Sverdsjö og Svartnes hafði ég hlakkað til að sjá. Það var ekki spegilslétt í dag eins og það var svo oft en það minnti þó á löngu liðna morgna þegar ég lagði snemma af stað frá Sverdsjö í vinnuna í Svartnesi. Þessa morgna stoppaði ég oft við vatnið og horfði á spegilmyndina niður í því, skýin langt, langt niðri og skóginn sem speglaðist og myndaði fallega umgjörð um vatnið.
 
 
Mér var mikið í mun að sjá þennan stað hér á myndinni sem er skammt ofan við Svsrtnes. Þarna sjáum við trérennu sem liggur inn í jarðveginn og inn til uppsprettu sem þar er. Vatnið er silfurtært og bragðgott og hægra megin við rennuna er grænt mál fyrir þá sem vilja drekka þetta vatn. Fyrr á árum hékk þarna hvít kanna til að drekka úr og ef ég man rétt var hún vinstra megin við rennuna. En hvað um það; þessu er greinilega við haldið þó að þetta sé á stað þar sem aðeins örfá hús standa og engan mann var þar að sjá í dag. Ég smakkaði á vatninu og það var gott.
 
En nú heim til byggðarinnar í Svartnesi. Þar býr Aasbjörn. Fyrir mér er Aasbjörn ekki hver sem er. Hann er að verða 94 ára og þegar hann var 18 ára árið 1942 flúði hann frá Bodö í Noregi yfir til Svíþjóðar. Hann var þá búinn að ylja þjóðverjum svo undir uggum að honum var ekki lengur vært í Noregi. Aasbjörn settist að í Svartnesi og um það bil ári eftir að hann kom þangað hitti hann Ingrid. Það var árið 1943. Þeirra leiðir skildu ekki fyrr en árið 2002 þegar hún dó úr krabbameini.
 
Aasbjörn þekkti mig ekki strax en sagði svo; já en þú komst hingað lika í fyrra. Ég kem alltaf til hans þegar ég legg leiðir mínar þarna uppeftir og hann bað mig að koma aftur þegar ég ætti leið um. Það fór mjög vel á með honum og Susanne og hann ítrekaði við hana að að við ættum að koma aftur. Við útihurðina hangir skilti og á því stendur; Aasbjörn og Ingrid.
 
Eftir að áfengismeðferð var lögð niður í Svartnesi var reynt að reka þar veiðihótel, snjósleðamiðstöð og eitthvað fleira. En fyrir sex árum var aftur farið að hlú þar að fólki og nú tekur IOGT að sér að hjálpa fólki sem hefur misst tökin á lífi sínu að komast aftur á legg. Þar vinnur Inger Eklund og hefur gert öll þessi sex ár. Þegar hún sá okkur úti á spjalli við annað strfsfólk og vistfólk kom hún út og bauð upp á kaffi og súkkulaðiköku. Þetta er í þriðja skipti sem við Inger hittumst og hún þekkti mig strax og hún bauð okkur velkomin aftur. Mér þykir vænt um að þessi gamli vinnustaður minn hjálpar fólki í vanda.
 
Mér fannst nauðsynlegt að fá mynd af mér tekna inni á mínum gamla vinnustað.
 
Og mynd úti líka.
 
Við enduðum daginn með kvöldverði örstutt utan við Falun þar sem útsýnið er í betri kantinum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0