Yljandi skógargróður og lítil jólasaga

Ég sagði í bloggi í gær að hin víðáttumiklu grænu svæði hefðu heillað mig frá upphafi veru minnar í Svíþjóð. Það hef ég líka oft sagt áður. Ég hef komið upp á marga útsýnisstsði upp í útsýnisturna, ég sæki beinlínis í það, og þessir útsýnisstaðir eiga það allir sameiginlegt að frá þeim öllum sést einungis grænt landslag. "Eiga það allir sameiginlegt" sagði ég, en það er ekki alveg rétt. Þegar komið upp í miðja Svíþjóð fara að sjást fjallatoppar sem ekki eru grónir og ennþá norðar minni gróður.
 
Einn af þessum útsýnisstöðum er skíðamannvirki í Falun, nefnt Hoppturninn. Sjálfur hoppturninn er 52 metra hár og stendur uppi á lágu fjalli og efsti hluti hans er 303 metra yfir hafi. Við Susanne vorum lengi upp í turninum í dag og ég tók myndir svona nokkurn veginn í höfuðáttirnar fjórar.
 
 
Í hvaða átt sem litið er frá Hoppturninum eru skógi vaxinn landssvæði út að sjóndeildarhring.
 
 
Að vísu er ekki alveg rétt að segja að það séu skógi vaxin landssvæði í hvaða átt sem litið er því að ef litið er til suðurs gefur þar að líta eitt af stærri vötnum Svíþjóðar, vatnið Runn, með öllum sínum skógi vöxnu eyjum og nesjum. Það er talað um að það séu jafn margar eyjar í Runn og dagar ársins eru margir. Það er kannski ekki alveg rétt en margar eru þær. Svæðið er ótrúlega fallegt yfir að líta og ég er ekki fær um að taka af því myndir sem segja sannleikann um fegurð þess.
 
 
Einhver vill kannski segja að hér sjáist ekki landslagið fyrir skóginum en fyrir mér er þessi mynd af skógi klæddu landslagi. Það er hlýtt landslag og ef ekki væri skógur í þessu landi geri ég ráð fyrir að hér væri víða veðrarassgat.
Ekki meira um skóginn annað en það að þegar ég kom í fyrsta skipti á svona útsýnisstað var ég algerlega heillaður. Ég get ímyndað mér að upplifunin það hafi verið eitthvað tengd orðinu frelsun.
 
 
Við Susanne höfum haldið okkur í Falun í dag og dagurinn bara leið að kvöldi fyrr en varði. Enn einu sinni segi ég að mér hefur alltaf liðið vel í Falun og það verkar sem Susanne sé í þeim blóðflokki líka. Því gengum við áðan inn á afgreiðsluna þar sem við gistum og báðum um eina nótt til, það er að segja fram á laugardag. Við fáum að vita það á morgun.
 
 
Við vorum lengi í Kristínarkirkjunni í Falun og þar var gott að vera. Kirkjan býður upp á það og er afar falleg. Okkur fannst ótrúlegt ð hugsa til þess að það var byrjað á þessari kirkju árið 1642 og hún var tilbúin til notkunar árið 1655.
 
 
Marmarinn í altarinu kom frá stað nálægt Norrköping og er ótrúlega fallegur á að líta og fallega unninn. Stundum er ég bra undrandi yfir því sem hægt er að gera af því sem móðir jörð á í fórum sínum.
 
 
Hólmgatan í miðbænum er lík sér sem áður og lífið iðar þar eins og það gerði líka árið 1997 þegar við fluttum héðan.
 
Yfir hluta af Hólmgötunni er þetta veitingahús og það byggðu menn eftir að við Valdís yfirgáfum Falun. Ég kom þangað í fyrsta skipti í dag.
 
 
Þessari skartgripaverslun í miðbænum í Falun fylgir saga. Ég kom þangað einhverra erinda fyrir jólin 1994 eða 1995 og stóð þar bíðandi eftir einhverju. Inn kom maður í mosagrænni vetrarúlpu, nokkuð óframfærinn og var greinilega ekki vanur að versla skartgripi. Ég var kannski ekki svo mikill heimsmaður heldur þannig að ég ætti að tala varlega. En hvað um það, hann bara stóð þarna og virtist ekki vita almennilega hvernig hann ætti að bera sig að. Að lokum gekk fram til hans glaðleg verslunarkona og ávarpaði hann. Maðurinn glaðnaði allur við og það fór vel á með honum og afgreiðslukonunni. Að lokum setti afgreiðslukonan fallegan pakka í plastpoka og rétti manninum. Hann borgaði og gekk fram til dyranna, beinn í baki og mikið glaður. Fyrir mér er þetta svolítil jólasaga og ég á þetta skráð í jólabréfi frá því fyrir meira en tuttugu árum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0