Að sjá landið líða hjá og hafna svo inni í skógi

Hún Susanne spurði mig hérna um daginn, bara sí svona, hvort ég velti því aldrei fyrir mér að gera eitthvað sérstakt sem mig langar að gera áður en hugsanlega eitthvað skeði sem kæmi í veg fyrir að ég gæti það.
 
Jú, svo sannarlega hef ég oft velt því fyrir mér, nákvæmlega eins og hún spurði, en það fer alltaf á sama veg, ég sýsla við eitthvað hér heima sem mér finnst að mér beri að fullgera áður en eitthvað skeður sem kemur í veg fyrir að ég geti það.
 
Þannig er nú það. Þessi spurning sat í mér og seinna þennan dag sem Susanne spurði mig gekk ég inn og skoðaði lestaráætlanir langt norður í land. Þá var Susanne löngu farin í vinnuna. Eftir dimmumót fyrir nokkrum dögum, eða um það leyti sem ég fékk spurninguna góðu, var ég á leið frá Kumla til Örebro og þar tók lest fram úr mér þar sem sporið er mjög nærri veginum. Vagnarnir voru upplýstir, lestin var hljóðlát og þetta var ein af betri lestum landsins. Þá allt í einu langaði mig í ferðalag með lest. Sitja þar með nestispakka og eitthvað að drekka og bara vera og sjá landið líða hjá. Það er nefnilega alveg frábær ferðamáti og mig hefur oft langað í lestarferð sem tekur marga klukkutíma. Og ef ég færi í lestarferð langt norður í land mundi ferðin taka tvo daga. Hvílíkur lúxus. Ég mundi taka tölvuna með og blogga ef mig langaði til, lesa, tala við Susanne, því að ég mundi gera ráð fyrir að hún væri með í ferð. Svo gæti ég líka bara horft út um gluggann og séð ókunnar slóðir líða hjá.
 
 
 
En bíddu nú við. Í dag var ég staddur út í skógi stuttu fyrir myrkur og leit niður á búninginn sem ég nota þegar ég nota keðjusögina. Hvar eru draumarnir um lestarferðina langt norður í land? Jú, sannleikurinn er sá að mér líður líka afar vel við verkin mín á Sólvöllum en lestarferð með hljóðlátri og góðri lest langt norður í land er ekki lögð á hilluna. Þrátt fyrir útlit mitt þegar ég tók myndina niður á fætur mér leið mér afar vel. Ég hafði líka lofað mér því að þegar ég hætti úti og myrkur skylli á ætlaði ég að fara í sturtu og fá mér svo kaffi og gott með því. Þetta hef ég nú gert.
 
Á árunum um 2000 eyddi ég löngum stundum við tölvuna og skoðaði sumarbústaði sem voru til sölu og hafði gert Valdísi verulega þreytta með því að taka svo langan tíma í þetta. Draumur minn var að eignast bústað undir skógarjaðri sem tilheyrði mér og alveg endilega að ég gæti sinnt þessum skógi sem mínum skógi. Og nú er ég hér og hef árum saman sinnt mínum skógi og reynt að gera hann að mínum draumaskógi. Þegar ég var út í skógi í dag, klæddur eins og ég er á myndinni, horfði ég kringum mig og velti fyrir mér hvernig mér hefði tekist til og ég var mjög ánægður. Ég reyndi að taka myndir af því en tókst ekki.
 
Fyrir nokkrum dögum fékk ég fagmann til að fella "stóru öspina", næst stærsta tréð á Sólvöllum. Hún var stærri en svo að ég léti mér detta í hug að framkvæma það sjálfur. Meira að segja hann Arnold nágranni minn sem var skógarbóndi í áratugi sagði mér að hann myndi ekki hafa gefið sig á þetta tré þó að hann hefði reynsluna.
 
Og þarna stóð ég eina fimm metra frá manninum sem framkvæmdi verkið og það var ekki til baka snúið, verkið var hafið og unnið hratt og af miklu öryggi. Christer heitir hann og býr í nágrannabyggð. Svo féll "stóra öspin" og það var eins og ég missti meðvitund í eina eða tvær sekúndur. Svo féll hún, ein þrjú tonn, með miklum dynk og tók með sér gróður sem ég vildi ekki missa. En það var ekkert val. "Stóra öspin" stóð fyrir þrifum á unggróðrinum í skóginum, tók mikla birtu, vatn og næringu, en í fyrsta lagi birtu. "Stóra öspin" er fallin og með samviskubiti syrgði ég hana mikið þann dag og á þriðja degi eftir fall hennar syrgi ég hana enn, en með dvínandi sorg.
 
Landslagið í Sólvallaskóginum er gerbreytt og í gær og í fyrradag var ég þar með ennislampa að flytja heim í viðargeymslu stórar og þungar sneiðar asparinnar. Þá viltist ég nokkrum sinnum, svo mikil var breytingin.
 
 
 
Neðsta sneiðin er þarna komin í gömlu hjólbörurnar mínar, yfir 60 sm í þvermál. Ég lyfti henni ekki, ég reyndi það og hefði líklega getað það, en þar sem ér er að verða 77 ára hef ég enga löngun til að vera Tarsan. Ég var bara svolítið hugmyndaríkur og verkið lék í höndum mér. Í gær og í dag hef ég komið 25 svona sneiðum inn í viðargeymsluna, allt í hjólbörum.
 
 
 
Símahulstrið mitt liggur þarna á grein frá "stóru öspinni" og ofan við er grein sem óx út frá þeirri grein. Þetta er aðeins um stærðina.
 
 
 
Meira um stærðina. Allar sneiðarnar sem standa upp á endan eru af þessu eina tré, einnig það sem liggur ofan á þeim. Mikið er eftir. Það sem er til vinstri eru kubbar frá öðrum trjám. Þeir eru bara dvergar.
 
Læt ég hér staðar numið með þessa Sólvallaskýrslu en vona að ég komi í verk að skrifa fleiri skýrslur nú á næstunni
 
Með skógarkveðjum frá Sólvöllum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0