Maídagar og heimsókn á Sólvelli

Eftir mikil hlýindi í apríl breyttist veður allt í einu, hitinn minnkaði og sólin dró sig talsvert í hlé. Minningarnar frá síðasta sumri gerðu það að verkum að mér fannst þetta svo sem allt í lagi. Það komu einar einar þrjár nætur þar sem hitamælirinn fór niður í eins stigs frost. Það rigndi svolítið en ekki meira en svo. Vorverk með alls konar ívafi héldu áfram á Sólvöllum, það nálgaðist próf hjá Susanne og hún var frekar óróleg þess vegna. Hún var eins mikið í Katrineholm og hún gat og las þar í næði og án afskiptasemi af minni hálfu. Svo fékk ég að vita að heimsóknar var von.
 
 
 
 
Laugardaginn 11. maí rann bíll í hlað, afi fór út og opnaði bílskúrshurðina og bauð Hannesi inn. Meira að segja afar geta verið svolítið ánægðir með sig þegar verkefni sem hefur beðið í fleiri misseri er allt í einu lokið og alveg þokkalega unnið. Út úr bílskúrnum dró Hannes kerruna sína og í henni voru kartöflurnar sem átti að setja niður daginn eftir. Kerran hafði fengið nýjan botn og hliðar og leit bara vel út.
 
 
 
 
Eftur að hafa heilsast og tekið út lagfæringuna á kerrunni héldum við út í skóg. Það lá hreinlega í loftinu að fara strax út á svæðið þar sem skógur hefur verið að vaxa í hundrað ár en fékk svo að lúta í lægra haldi fyrir gríðarlega sterkri vél á örstuttum tíma. Þar er nú bara sviðin jörð og stórglæsilega mauraþúfan fékk að lúta í lægra haldi fyrir vélaraflinu og þeirri vafasömu aðgerð að leggja 14 væna og þunga grenistokka ofan á þúfuna. Þar með jafnaðist hún nánast við jörðu og í dag, þó nokkrum vikum eftir spellvirkið, er vinna hafin að því er virðist við að byggja nýtt náttúruundur úr rústunum.
 
Hann Mikki bóndi og nágranni gekk með mér út í skóginn nokkru eftir að þetta var gert og honum varð að orði: Fólk sem vinnur í skógi bara gerir ekki svona. Það var gott að heyra að það er frekar undantekning að svona sé farið að. Það var eins og það birti aðeins í lofti við þessi orð.
 
 
 
 
En svo héldum við frá auðninni og til baka inn í Sólvallaskóginn og það var eins og við manninn mælt; allt breyttist til betri vegar. Rósa, sem tók myndina, hefur séð að sólin átti greiðari leið inn í þann skóg núna og því verður ekki neitað að sólarljósið lýsir upp allt niður í botninn í Sólvallaskóginum. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvaða breytingum hann tekur. Eiginlega fannst okkur að þetta hefði þegar haft góð áhrif á bláberjalyngið og ég reikna með að Sólvallaskógurinn taki stórum framförum næstu áratugina og verði þakklátur fyrir ljós og yl. Síðan vex nýr skógur að baki honum og jafnvægi skapast á ný.
 
 
 
 
Það er langt síðan nokkur hefur komið með mér inn í skóginn og nú vorum við þar allt í einu fjögur. Ég lét dæluna ganga og það var ekki fyrr en nóttina eftir sem það rann upp fyrir mér að ég hafði vart hleypt nokkrum öðrum að. "Sjitt!"
 
 
 
 
Karlpeningurinn lét konuna í hópnum vera bak við myndavélina og það er ekki í fyrsta skipti. Það er með þetta eins og blaðrið í mér að það er kannski fyrr en nóttina eftir sem ég átta mig á að ég hefði getað sýnt svolitla tillitssemi og tekið myndir þar sem hún var líka með. En þetta eplatré hreinlega heillar, hvílíkir blómaklasar. Ég er nokkuð viss um að það er hænsnaskítur frá fyrra ári sem á þátt í þessum mikla blómaklasa. Á nstunni skal meiri skítur á fleiri epla- og ávaxtatré.
 
 
 
 
Ég var greinilega elstur í hópnum sem kom fram í því að hreyfingar mínar voru hægari en hinna. Lengra frá eru Rósa og Pétur að kljúfa við en við hjólbörurnar er Hannes sem er að kasta moltu yfir seinni helminginn af laukbeðinu áður en hann hjálpar mér við að setja niður laukinn þar. Fyrr um daginn höfðum við sett niður í þann helminginn sem nær er.
 
 
 
 
Nú er konan sem var bak við myndavélina daginn áður komin í forgrunn. Hún tók við af Hannesi við lauksáminguna þar sem hann hafði gengið til annarra starfa. Í yrra setti ég lauk niður í svo þurra jörð að ég bara stakk lauknum niður með hendi en nú var jörðin svo rök að við þurftum að stinga rás eins og við kartöfluniðursetningu.
 
 
 
 
Það var komið að ferðalokum og þá var myndataka við eplatréð með þéttu blómaklösunum. Nokkrum mínútum seinna óku þau úr hlaði.
 
 
 
 
Hljóður viðarhaugurinn bíður svo eftir að Sólvallakallinn raði honum snyrtilega í stæður. Gestirnir mínir vildu ekki fara fyrr en garðhúsgögnin væru komin út en þar sem það féll til aldeilis óvenju mikill viður í vetur og vor var ég búinn að kasta honum undir þak framan við húsgögnin. Því brettu þau upp ermarnar og réðust í að kljúfa.
 
Ég þakka kærlega fyrir heimsóknina, félagsskapinn og hjálpina.
 
Það er kominn þriðjudagur og nú er ég búinn að lesa yfir það sem ég skrifaði í gær. Í kvöld kemur Susanne heim eftir prófið sem hún tekur um miðjan dag í dag. Ég ætla nú að setjast yfir morgunverð og huga um leið að verkefnum þessa dags.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0