Halló, halló, ég er vaknaður

Það er ekkert lag á þessu að hafa ekki bloggað í einhvern óratíma en nú er bara að setja í gang. Vorið hefur verið svolítið út og inn síðustu tvo dagana eða svo en nú er þó ellefu stiga hiti. Við erum ekki á Sólvöllum og það er nú bara hálf skrýtið. Ég er kannski búinn að blogga um það áður að ég varð lélegur í bakinu síðasta vinnudaginn minn í Vornesi. Því var það kærkomið að sýsla við léttari störf á Sólvöllum, að taka til eftir að byggingarsvæðið kom undan snjó, fara með á haugana og brenna miklu magni af greinum. Eitthvað lætur þetta kunnuglega þegar ég nefni greinar svo að það er best að endurtaka ekkert meira um það. Hún Rósa dóttir mín segir að það fari að verða þreytandi þegar ég segi frá sama hlutnum í fimmta skiptið. En þetta með bakið verð ég að tala aðeins meira um. Ég sem var búinn að hæla svo mikið áhrifum glukósamíns á liði mína. En hvað um það; ég gef mig ekki með það að glukósamínið er gott fyrir mig og ég ætla líka að verða betri í hryggnum en lengi. Síðast þegar ég átti í erfiðleikum með bakið var árið 1972 þegar við vorum að byggja Sólvallagötuna í Hrísey. Þá auðvitað setur fólk það í samhengi að ég fái alltaf í bakið þegar ég vinni við að byggja í eigin þágu. En þegar ég fékk í bakið núna var ég búinn að vera í svo sem sex vikna fríi frá Sólvallabyggingunni. Hins vegar grunar mig að þetta með að hætta að vinna hafi verið ástæðan fyrir því að ég fékk í bakið í þetta skiptið. Síðast vinnudagurinn var líka stór og áhrifamikill dagur.

Nú vík ég að lækningaráðum Valdísar. Notaðu hitapoka, notaðu hitapoka, endurtók hún og gaf sig ekki. Mér hefur alltaf þótt óþægilegt að liggja á svo heitu og að láta svo heitt liggja á mér, eða ég hef haldið það alla vega. Ég hef alltaf haldið að það væri eins og að pissa í bleyju. En svo gaf ég mig og prufaði þetta og viti menn; ég fann samstundis að verkurinn í bakinu og stirðleikinn gaf sig. Nú fékk ég algera dellu. Það komst ekkert að hjá mér í tvo daga annað en að hafa grjónapoka í rúminu hjá mér sem var hitaður í örbylgjuofninum ótt og títt og jafnóðum sem grjónapokinn kólnaði. Svo bara hresstist ég og hresstist dag frá degi og þessar þrjár ipren verkjatöflur sem ég hafði stoppað í mig í viku eða svo hætti ég að éta. Nú mæli ég ákaft með bæði glukósamíni og heitum grjónapoka til að ná verkjum úr líkamanum.

Nú er ástralska lambakjötið soðið og mál að borða. Ég er kominn af stað með bloggið á ný og hver veit nema ég setjist aftur við að blogga eftir matinn.

Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer
Rosa

ja, það var loksins að maður fékk eitthvað nýtt að lesa. vonandi gengur vel hjá ykkur á sólvöllum í dag. kveðja, r

2007-04-05 @ 09:17:32
Valgerður

ÞAð er mikið að við verðum vör við lífsmark þarna frá Örebro. Hér er föstudagurinn langi eins og annars staðar og við í fríi.
Kv
Valgerður

2007-04-06 @ 16:21:30


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0