Stór dagur!

Ég má til með að fara að skrifa um föstudaginn í síðustu viku, nefnilega þann 13. apríl. Hér fyrir neðan eru tvær myndir og nú verð ég að útskýra þessar myndir. Af tilviljun var Valgerður á ferð um Arlandaflugvöll fimmtudaginn 12. apríl og hún ákvað að nota tækifærið og koma í heimsókn. Daginn eftir komunu Valgerðar til Svíþjóðar kom hún og Rósa til Örebro, einmitt daginn sem ég átti 65 ára afmæli. Merkilegt hvað þetta stemmdi vel allt saman. Fyrir mér var ekkert merkilegt að eiga afmæli, en þetta afmæli var merkilegt að því leyti að þá varð ég raunverulega sænskur ellilífeyrisþegi. Það eru nefnilega engin smá tímamót að verða ellilífeyrisþegi hef ég komist að. Það er margt og mikið verið kringum þessi tímámót fyrir mína parta alla vega, en ég ætla ekki að eyða orðum að því frekar að þessu sinni. Heimsókn þeirra systra er það mikilvæga. Þegar þær stigu út úr lestinni á járnbrautarstöðinni í Örebro voru þær með sínar töskur eins og ferðafólk gerir jafnan. En þær höfðu fleira með í farteskinu. Það var meira en mannhæðarhátt kirsuberjatré, hindberjarunni og amerískur bláberjarunni. Þessi ameríski á að gefa af sér einhver gríðarstór bláber. Gaman verður að sjá hvað þessar plöntur gefa af sér allar saman. Allt þetta var afmælisgjöf til ellilífeyrisþegans og ég veit ekki hvað hefði getað verið betri afmælisgjöf. Og gjöfin minnti okkur á að það er mikilvægt að koma af stað ávaxtarækt á Sólvöllum. Við höfðum eitt plómutré á lóðinni þar sem gefur af sér óhemju af plómum á ári hverju, en auðvitað eigum við að notfæra okkur aðstöðuna sem er fyrir hendi er á Sólvöllum. Við höfðum bara gleymt því á ákafanum við að byggja við stuguna. Og eitt enn við komu þeirra til Örebro; ég held að ég geti fullyrt að ég hef aldri fyrr séð fólk koma með skóg út úr járnbrautarlest.

Í framhaldi af þessu fórum við á Sólvelli og þangað kom Valgerður í fyrsta skipti þennan dag. Frá Sólvöllum fórum við svo í svolítið ferðalag austurn í Södermanland til smá þorps sem heitir Leppe. Þangað fórum við nefnilega öll fjögur til að borða kvöldmat. Leppe liggur við vatnið Hjälmaren, fjórða stærsta stöðuvatn í Svíþjóð. Auðvitað hefði verið fallegra að koma þarna eins og þremur vikum seinna þegar allt hefði verið komið í virkilegan vorskrúða, en það var gott að koma þarna samt. Húsið var opnað fyrr þennan dag til að taka á móti okkur og það var nú ekkert smá atriði. Svo fengum við úrvals góðan mat og borð út við glugga þar sem útsýni var út yfir Hjälmaren, til annesja og eyja sem þar er að finna.

Ef ég væri klárari bloggari mundi ég gera þessa síðu lifandi með myndum þar sem mikið var tekið af myndum þennan dag. En nú einfaldlega kann ég það ekki svo að myndirnar verð ég að birta á annan hátt og hér fyrir neðan eru þegar komna tvær myndir. Barnabörnin mín hljóta nú að hlæja að þessu, að geta ekki sett mynd inn á síðuna. En svona er það að hafa ekki fæðst inn á tölvuöld.

Á morgun förum við Valdís í sólarhrings siglingu með stórri ferju til Álands. Útgerðin gaf mér þessa ferð af tilefni ellilífeyrisaldursins. Þeir halda líklega að ég verði sólginn í svona ferðir, ánetjist þeim og verði góður gestur á barina þar með galopið veski. Þar verða þeir fyrir vonbrigðum. En einu getið þið treyst; ég er allt of nískur til þess og svo er heldur ekkert gaman að því.

Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0