Að láta sér detta í hug að gera það ómögulega

Að stinga upp tré og færa á nýjan stað er nauðsynlegt að gera á vorin áður en lauf- og blómhnappar fara að bæra á sér, eða þá að hausti til þegar lauf eru fallin. En á Sólvöllum gengur þetta ekki svona til. Það hafði verið vestan vindur í fimm daga um síðustu mánaðamót og við urðum leið á þessu. Hjá nágrönnunum sunnan við okkur var blæja logn bakvið all háan trjágróður og svo hafa þau stórt svæði til að vera á í logninu og sólinni þegar vestanvindurinn næðir hjá okkur. Ekki svo sem að þessi vestanvindur næði mjög marga daga á ári hjá okkur en okkur þykir sem það fari vaxandi. Þeir eru því líka sammála bændurnir Mikki og Arnold og við hlustum mikið á hvað þeir segja. En í lok þessara vestanvinda um mánaðamótin féll hugmynd af himni ofan bara alveg fyrirvaralaust. Við gróðursetjum tré við lóðarmörkin að vestan en vestan við húsin sjálft gróðursetjum við sírenu sem hægt er að klippa og halda í skefjum svo að við höldum útsýninu til fjallana lágu í vestri, Kilsbergen Eftir nokkur ár verðum við svo komin með sama skjól og nágrannarnir áðurnefndu. Hugmyndin samstundis samþykkt og staðfest með handabandi. Ég hringdi í Mikka og spurði hvort hann gæti hugsað sér að grafa skurð fyrir runnana og holur fyrir níu tré. Mikki var óvenju tregur og sagði eiginlega ekki neitt um þetta. Svoleiðis lauk samtalinu. Fyrir hádegi daginn eftir rann í hlað svartur jeppi með palli, nýlegur og glansandi. Þar komu Mikki og Patrik vinnumaður hans. Þegar Mikki sá hvað þetta fjallaði um var það ekkert mál. Hann sótti gamlan traktor með gröfuútbúnaði og svo gróf hann þetta á  -ja, túlega um það bil hálftíma. Svo komu þeir félagar í kaffi og pönnukökur. Patrik grunaði að Valdís lumaði á einhverju gómsætu svo að hann lullaði framhjá á hjóli meðan við vorum í kaffinu og Mikki kallaði á hann og sagði honum að hann fengi sjálfsagt pönnukökkur líka. Og þær fékk hann.

Þegar þeir félagar fóru horfðum við Valdís yfir alveg voðalega útleikinn vetvanginn. Mold, möl, rætur, grjót og þökur lágu í svo voðalegu óreiðu að það var eitthvað það versta sem sést hefur á Sólvöllum. En hvað um það, við settum í gang af þvílíkum krafti að við erum hissa á því enn í dag. Tvær kerrur af skít voru sóttar í hrossaskítshauginn hans Mikka og moldarkerra var sótt til Örebro og svo önnur moldarkerra. Skóflurnar gengu ótt og títt, grjóthnullungarnir flugu upp í hjólbörurnar og hjólbörurnar þutu í burtu með grjótið. Mold, skítur, og mátuleg blanda af möl runnu eins og flóð niður í holurnar og skurðinn. 50 sírenur og ein hengibjörk voru sótt til hans Ingimars í Örebro (hann var á Íslandi í fyrra). Smá leiðbeiningar voru meðteknar og svo var farið hratt til baka á Sólvelli og gróðursett með sama hraði. Þegar innkaupin hjá Ingimar voru komin á sinn stað vantaði níu trjáplöntur sem kona í gróðrarstöð (ekki hjá Ingimar) ráðlagði okkur að sækja út í skóg. Hún mátti ekki ráðleggja svona en sagði að það væri bara svo mikið, mikið ódýrara fyrst við hefðum skóg. Svo sóttum við átta hlyni og núna komum við að því sem ekki er hægt. Hlynirnir voru full laufgaðir og í miklum vexti. Einn hafði vaxið 52 sm. Nú vantaði eina plöntu til og fyrir valinu varð eik rúmlega tveggja metra há. En viti menn; við náðum ekki upp eikinni. Við völdum aðra minni, mun minni og mjórri og gróðursettum hana. Síðan tók Valdís vatnsslönguna og vökvaði og sprautaði miklu vatni á molduga jörðina kringum athafnasvæðið. Að kvöldi þess dags var varla hægt að merkja að þarna hefði verið svo mikill gauragangur sem þó hafði verið. Hvað var gert á hvaða degi og hvenær var matur og kvöld og svefntími er ekki í neinu samhengi, en verkið tók rúmlega tvo daga. Allar plöntur voru  lifandi enn í gær rúmum hálfum mánuði seinna en eikarplantan þó sýnu lélegust, renguleg og óásjáleg og mátti vara sig á að ganga ekki á hana.
Að láta sér detta í hug að gera það ómögulega
Í gær var ég að snudda út í skógi og kom að eikinni sem okkur tókst ekki að ná upp. Hún var þá nánast lögst á hliðina en var vel lifandi. Heim fór ég og gaf skýrslu og við urðum sammála um að fara nokkuð seint á kvöldinu og ná henni upp hvað sem það kostaði og skipta um eik. Svo gerðum við og vonuðum að enginn skildi hvað við værum að gera því að þetta er sá alrangasti tími til að flytja tré sem hugsast getur. Á myndinni sést ekin þegar við vorum komin með hana heim á lóð. Síðan var hún gróðursett með góðu hugarfari og gengið betur frá henni en nokkru öðru tré sem við fluttum í þessari atrennu. Svo sjáum við hvað setur og vonum það besta.
GB


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0