Ég veit bara ekkert hvað ég á að segja

Klukkan er tíu og það er söngvakeppni. Ég get ekki sagt að ég sé yfir mig hrifinn en það hefur víst engin áhrif á gang mála hvað mér finnst. Svíinn er búinn að syngja og víst má hann vinna en ég hef stundum verið stoltari af sænsku fulltrúunum en ég er í þetta skipti. Það er eins gott að sænska þjóðin skilur ekki bloggið mitt en satt best að segja mundu þeir líka gefa skít í hvað mér finnst, svo gamaldags sem ég er.

Ég var að vinna í gærkvöldi, nótt og í morgun. Ég svo sem rataði á gamla vinnustaðinn án þess að nota vegakort. Ég vinn líka eftir hádegi á morgun fram á mánudagsmorguninn. Ekki vafðist vinnan mikið fyrir mér en eitt skal ég viðurkenna; ég var latur þegar ég átti að fara að leggja af stað í gær. Annars var bara gaman að þessu þegar á hóminn var komið. En í nótt var stuttur svefntíminn frekar órólegur. Ég hafði aldrei sofið í herberginu þar sem ég svaf, það marraði í rúminu þó að ég væri einn í því og þrír alkohólistar sem eru komnir vel yfir miðjan aldur voru að vafra út og inn um hurð sem var undir herberginu þar sem ég svaf. Hvað voru þeir svo sem að gera þarna út um miðja nótt? Jú, að reykja. Þetta eru fínir kallar en lífið þeirra sé fullt af sorg. Í kvikmynd sem gerð var í Vestmannaeyjum og fjallaði mikið um útgerðarmann sem átti afmæli í myndinni og sá fór út í einhverja eyju þar sem hann faldi sig og drakk sig svolítið fullan minnir mig. Skipstjórinn hans var sendur eftir honum á litlum mótorbát og á leiðinni til baka sagði útgerðarmaðurinn við skipstjóran sinn: Önnur hvor flaska er full af gleði og önnur hver flaska er full af sorg, en allar mínar flöskur hafa verið fullar af gleði. Ef útgerðarmaðurinn hafði rétt fyrir sér, sem ég dreg mjög í efa, þá hafa líklega alkarnir sem voru að reykja út undir berum himni í nótt fengið mikið af flöskunum sem voru fullar af sorg. Allir þessir þrír áttu til dæmis sameiginlegt  að þeir vildu ná sambandi við börnin sín. Að tala um börnin þeirra gerir það að verkum að þeir vilja helst snúa sér undan. Það er erfitt fyrir eldri menn að gráta. Mér þykir vænt um þessa kalla og þeim þykir líka vænt um mig.

Nokkru áður en kaffivélin kom til Akureyrar vorum við Valdís komin á Sólvelli. Þann 14. apríl tók ég mynd af Rósu, Valgerði og Valdísi undir birkikrónu nærri húsinu. Þann 14. maí ætla ég að taka mynd af Valdísi á sama stað og svo ætla ég að leggja þessar myndir inn á bloggið svo að hægt verði að sjá muninn. Þetta var það fyrsta sem ég skoðaði þegar við komum til Sólvalla í dag og eiginlega átti ég von á að munurinn væri meiri. En við sjáum til þann 14. Það hefur rignt og kannski skeður mikið á þessum tveimur dögum. Við hlúðum að ýmsu á Sólvöllum í eina þrjá tíma í dag. Að því búnu fórum við heim og borðuðum lambakjöt í kvöldmat. Hvað við erum rausnarleg að gefa öðrum kost á að vita hvað við borðum á laugardagskvöldi. Nú verðum við að vera mjög dugleg á Sólvöllum þangað til á miðvikudag í næstu viku. Á fimmtudag förum við í þriggja daga hópferð til Stokkhólms og út í Stokkhólms skerjagarð. En sunnudaginn þar á eftir, þ e a s þann 20. maí, verða þáttaskil á Sólvöllum. Þá verður lokið jarðabótum, grisjun, gróðursetningu, eldiviðarvinnu og tiltekt samkvæmt áætlun og samkvæmt áætlun á að byrja að nýju á byggingarvinnu þennan sunnudag.

Hér með er komið að háttatíma hjá mér miðaldra manninum. Meðan ég bursta kem ég til með að sjá fyrstu tölurnar í niðurstöðu söngvakeppninnar. Svo ætla ég að leggja mig. Mig grunar að Valdís vilji sjá lokaniðurstöðu keppninnar áður en hún gengur til náða.

Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer
Valgerður

Hér er loksins farið að grænka líka. Nú er þriðji dásemdardagurinn kominn með sól og heiðríkum himni. Frekar er þó kalt og því gott aðsitja við glugga í svona veðri. Verst hvað virðis rykugt innandyra þegar sólin fer að skína.
Kveðja
Valgerður

2007-05-14 @ 17:52:08


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0