Boda og Styggfossinn

Bloggið í gær, það næsta hér fyrir neðan, fjallaði um útsýnisturninn á Víðabliki. Þegar ég kom niður úr þessari turnferð minni tyllti ég mér niður hjá þeim systrum, Valdísi og Binnu, og sagði frá upplifun minni. Þá fór maður við næsta borð að veita okkur athygli og byrjaði þar með spjall okkar á milli. Þegar ég talaði um hið víðfeðma útsýni úr turninum sagði hann frá því að þaðan sæist upp til Elvdalsins sem væri í 60 km fjarlægð til norðvesturs. Hann sagðist vita hvað hann talaði um því að konan hans, sú sem sat við hliðina á honum, væri þaðan, og hann væri vel kunnugur þar. Þá gerði ég mér meiri grein fyrir víðáttunni sem ég hafði litið augum, þessari iðjagrænu víðáttu sem er að stórum hluta klædd 20 metra djúpri gróðrarkápu, skóginum. Það er líka rétt að Elvdalurinn er í 60 km fjarlægð frá Víðabliki. Það hef ég athugað.

Hún kom frá Elvdalnum konan hans. Þar er töluð mállýska svo ólík sænsku að það er ómögulegt fyrir venjulegt sænskutalandi fólk að skilja hana. Elvdalurinn var um aldir afskekkt hérað, afgirt af afar víðáttumiklum djúpum skógum og veglaust frá umheiminum. Sum orð í Elvdalsmállýskunni eru mjög íslensk en það er samt ómögulegt fyrir íslending að skilja hana. Þessi orð koma fram á stangli og verða án samhengis. Þeir skrifa til dæmis "fara heim" alveg eins og á íslensku og íslenskir bókstafir sem ekki finnast í sænsku eru notaðir í elvdælsku. Elvdælingar kunna auðvitað sænsku líka í dag en ég hef heyrt elvdælskuna talaða og séð elvdælskan texta og skil ekkert fyrir utan orð og orð á stangli sem virðast íslensk.

Hér með er Víðabliks umfjöllunni lokið fyrir utan það að við þurfum að koma okkur þaðan. Með það fyrir augum vil ég fara aftur efst upp í Víðabliksturninn og horfa til norðausturs til smábæjarins Boda sem þar er í 30 km fjarlægð. Mitt á milli í beinni stefnu á Boda er bærinn Rättvik sem liggur við norðaustanvert Siljan. Rétt hjá Boda er fossinn Styggfossinn. Fyrir nokkrum árum fór ég með Valdísi og fleira kórfólk upp til Boda. Þetta kórfólk tók þátt í hljómleikum í djúpri kalknámu sem heitir Dalhalla og liggur nokkra kílómetra norðan við vatnið Siljan, mitt á milli Boda og Siljan. Einn og hálfan dag í hvort skipti fyrir tónleikana æfði þetta kórfólk í Dalhalla og þar sem það er best að ég haldi mig í hæfilegri fjarlægð frá kóræfingum, rannsakaði ég mjög vel umhverfið á stóru svæði kringum Boda.

Af ákveðnu tilefni var ég ákveðinn í að athuga vel svæðið kringum Styggfossinn. Þar er nefnilega hægt að skoða með eigin augum og þreifa á með berum höndum afleiðingar ólýsanlegra náttúruhamfara þegar gríðarlegur loftsteinn slóst inn í jörðina fyrir um 360 miljónum ára. Við þennan atburð endurmótaðist stórt svæði þar sem Siljan liggur á suðurmörkunum. Myndin hér fyrir neðan er frá Styggfossinum og sýnir þverhnýptan klett til
Styggfossinn
vinstri, en til hægri eru mjög há grenitré sem hylja annan klettavegg sem þar er einnig að finna. Það er nokkuð undarleg tilfinning að vera þarna, halla sér upp að kletti sem þessar löngu liðnu hamfarir brutu lausan frá berggrunninum, þeyttu til og frá eins og spýtubút og sem á öllum þessum miljónum ára hefur fundið sér það bjargfasta jafnvægi sem hann hefur í dag.

Það væri gaman að vera í góðu skapi seinna í vikunni og fjalla aðeins meira um þetta og það sem Valdís aðhafðist í Dalhalla meðan ég ók í rólegheitum um sveitirnar sem brotnuðu í spón fyrir 360 miljónum ára en urðu síðar að einum fegurstu sveitum í Svíþóð. Á morgun og miðvikudag verð ég í vinnu.
GB


Kommentarer
Rosa

Jahérnahér! Bara hver ritgerðin á fætur annarri. Gaman að lesa um Svíþjóð. Kveðja frá Stokkhólmi, R

2008-01-14 @ 23:20:55
Guðjón

Já Rósa, takk fyrir kveðjuna. Ég verð fróðari á því að velta fyrir mér stöðum sem ég hef komið á, heyrt um, lesið um og setja það á blað. Um leið og ég skrifa get ég lesið svolítið meira eða spurt einhvern. Það er ekki svo galið.

Kveðja, pabbi

2008-01-17 @ 10:48:29
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0