Hamfarir á Siljansvæðinu

Við getum gert tilraun. Látum renna nokkurra sentimetra djúpt vatn í eldhúsvaskinn, tökum til dæmis sykurmola eða vínber og látum hann detta úr til dæmis 40 sem hæð niður í vatnið. Það er ekki svo auðvelt með beru auganu einu að sjá hvað skeður, en það virðist sem sykurmolinn þrýsti vatninu fyrst til hliðar og myndi kringlótta holu sem síðan fyllist snöggt af vatni og endar á að mynda strýtu upp úr vatninu nákvæmlega þar sem molinn féll í það. Það eina sem hægt er að greina vel og með vissu er að þessi vatnsstrýta myndast og hverfur svo á smá broti úr sekúndu.

Þegar loftsteinn sem var um fjórir kílómetra í þvermál féll með ægihraða á Siljansvæðið skeði eitthvað svipað þessu Þó að jarðmassinn sé bæði harðari og seigari, gefur hægari hreyfingar og jafnar sig ekki út eins og vatnið gerði í tilrauninni. Eftir að berglögin þrýstust niður og út á við og barmarnir á 50 km breiðum gíg að endingu upp á við, enduðu ósköpin með því að bergmassinn seig til baka af krafti svo miklum að inn í miðju varð landið hærra, en á útjaðri gígsins varð landið lægra en umhverfið. Vötnin Siljan, Orsavatnið, Skattungen, Orevatnið og á austurjaðrinum það sem kallast Bodavötnin mynda hringlaga vatnasvæði á útjaðri gígsins. Á svæðinu innar í gígnum er landslagið hnjúkar og ásar með lægðardrögum á milli. Einmitt á þessu svæði er Boda og Styggfossinn sem um getur í bloggi fyrir fáeinum dögum og er hér lítið neðar og tengist þessu bloggi í dag. Það er hrein upplifun að ferðast um þetta svæði, bæði vegna þess að það er mjög fallegt, og þar að auki ef hugsað er til þessara miklu hamfara sem mótuðu það. Við sprenginguna sem varð við áreksturinn varð hitinn svo mikill að jarðskorpan kraumaði í 100 000 ár, í heil eitthundraðþúsund ár sem er mér algerlega óskiljanlegur tími. Aðrir kanski skilja en ekki ég. Þegar þetta átti sér stað var Siljansvæðið suður undir miðbaug.


Að lokum komst á jafnvægi og ísaldarjöklar skriðu fram og til baka á Siljansvæðinu eins og á öðrum norðlægum slóðum þar til fyrir um 10 000 árum. Skógar og annar gróður byrjuðu að fikra sig uppeftir Svíþjóð og dýralíf og mannfólk fylgdi í kjölfarið. Fólk uppgötvaði mikið kalk á Siljansvæðinu sem og víðar og þess vegna er til nokkuð sem kallast Dalhalla, afrækt kalknáma sem gerð hefur verið að útitónleikasvæði. Það var þar sem Valdís og kórinn hennar æfði fyrir tónleika ásamt mörgum öðrum kórum meðan ég kynnti mér landslag og náttúru Siljansvæðisins fyrir fáeinum árum. Ég ímynda mér, veit ekki, að Styggfossinn og áin hafi hreinsað burtu jökulleirinn og haldið ákveðnu svæði af  bergblokkum, stærri steinum og klöppum hreinum frá gróðri svo að við getum gengið þarna um í dag, skoðað og látið hugann reika.

Hamfarir
Í upphafi láu kalklögin sem sjást á myndinni lárétt en við loftsteinsáreksturinn fór allt á tjá og tundur og þessi stóra blokk var í þessari stellingu þegar yfir lauk. Ekki veit ég hver maðurinn á myndinni er, en hann virðist áhugasamur. Ekki veit ég heldur hvað áin heitir sem rennur við fætur hans en fossinn sem er á næsta leiti heitir alla vega Styggfossinn.
GB


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0