Langt norður á bóginn

Hér um daginn talaði ég um að við ættum mikið eftir að sjá af Norður-Svíþjóð og gaf einhver dæmi um fjarlægðir í því sambandi. Svo hélt ég norður á bóginn í bloggum mínum en staldraði lengi við á Siljansvæðinu í Dölunum. Að vera kominn þangað frá Örebro er bara að vera rétt lagður af stað. Vinnufélagi minn og vinur, Kjell, hefur oft verið lengst þarna norðurfrá og þá er ég að tala um 600 til 800 km norðan við Örebro og í sumum tilfellum enn lengra. Eitt sinn sem oftar fékk ég sms frá honum þegar hann var með barnabarni sínu að veiða í einni Norðurlandsánna. Barnabarnið, þá tólf ára strákur, stóð við ána með stöngina en Kjell sat álengdar og virti hann fyrir sér þar sem hann stóð við lygna, bugðótta ána í órofa kyrrð. Kjell varð svo frá sér numinn af augnablikinu að hann sendi mér sms og reyndi að segja frá því sem hann upplifði. Honum er mikið til listar lagt og í stuttu smsi tókst honum virkilega að koma hrifningu sinni á framfæri.

Eins og ég hef áður talað um höfum við Valdís ótal sinnum talað um að skoða okkur um þarna norðurfrá. Svo þegar við vorum að ræða þetta hér um daginn kom í fréttum að kóngurinn vildi byggja þrjú sumarhús handa börnunum sínum á einhverjum frábærum stað þarna, og þá er ég að tala um mjög langt fyrir norðan. Og af hverju vill kóngurinn velja stað þar fyrir sumarhús? Jú, það hlýtur að vera vegna þess að það er mikið í umhverfið varið. Nú nefni ég Kjell rétt einu sinni enn. Ég hringdi í hann og talaði um þetta við hann. Kjell sagði að það væri svo fallegt þarna víða "að maður bara fer að gráta" eins og hann orðaði það. Örstuttu eftir þetta rak Valdís augun í fréttina um Stórelginn í dagblaði, hringdi í mig á Sólvelli til að segja mér frá þessu.
Langt norður á bóginn
Þessi mynd er tekin af fjallinu Hvíti hatturinn (Vithatten) sem er 511 metra yfir hafinu. Hugmyndin er að byggja 45 metra háan elg þarna uppi og pallurinn og handriðið sem við sjáum á myndinni er sett inn á myndina og táknar útsýnispall efst á hornunum á elgnum sem þá verða 45 metrum ofar. Í elgnum eiga svo að vera veitingahús, tónleikasalur, ráðstefnusalir og bara allt mögulegt. Upp í elginn á að fara með lyftu sem byggja á innan í risafuru sem byggja á úr límtré. Þegar upp er komi á svo að ganga inn um kjaftinn á elgnum og er þá hægt að ganga inn í öll þau rými sem finnast þarna uppi og efst uppi er sem sagt útsýnispallurin.

Aðal hugmyndafræðingurinn að þessu fór í þyrlu upp í 45 m hæð yfir Hvíta hattinum til að kanna útsýnið og segir að sem dæmi um það sem sést frá hinni ímynduðu krónu sé: nokkrir kirkjuturnar, fjallahringurinn, hafið, bærinn, skógurinn, vatnið, áin, mýrin, já, listinn gæti verið hversu langur sem helst, segir hann. Meira segja kirkjuturn í bænum Skellefteå sést í kíki þaðan, en sá bær er í 85 km fjarlægð frá Hvíta hattinum. Útsýnið á myndinni er ekki ólíkt því sem sést frá því sem heitir Grönklitt sem liggur 10 til 15 km norðan við bæinn Orsa í Dölunum (og þá er ég aftur kominn í Dalina). Um Orsa þarf ég að blogga síðar. Allt þetta tal um elginn kemur til vegna þess að ég fann nokkrar myndir á netinu tengdar efninu. Þessar myndir eru dæmi um þau landssvæði sem við eigum eftir að kanna.

Nú er Valdís komin heim af kóræfingunni og þá læt ég staðar numið í kvöld, en Hvíta hattinn á ég eftir að blogga meira um þó að það sé ekki sérstaklega tengt Stórelgnum.
GB


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0