Útsýnisturninn Víðabliki

Sumarið 1996 bjuggum við í Falun. Þá um vorið og sumarið fengum við nokkrar heimsóknir frá Íslandi og sú fyrsta var Páll bróðir og hún Únna mágkona mín. Únna átti stórafmæli í maí og í tilefni af því komu þau einmitt í þeim mánuði. Þau voru full snemma á ferðinni til að sjá það fegursta af sænska vorinu. Oft er það svo að við drögum að fara eitt og annað sem við ætlum að fara en förum það svo þegar við fáum heimsókn frá Íslandi. Svo var það þetta vor, að við létum verða af því að fara það sem við köllum Siljanhringinn. Við fórum upp frá Falun mót Rättvik sem það heitir og er við norðaustanvert vatnið Siljan og þaðan til Mora sem er við norðvestanvert vatnið. Skömmu áður en komið er til Mora er nokkuð sem heitir Nusnes og þar eru tálgaðir til hinir þekktu Dalahestar og þar getur að líta hóp fólks sem tálgar, pússar og málar. Í Mora er Hótel Gösta. Þar var á þessum tíma, og kannski enn í dag, hægt að kaupa hádegisverð á góðu verði og svo gekk maður í nánast ómældu magni af öllum mögulegum mat og borðaði eins og hægt var. Í ferðinni með Páli og Únnu bauð hún upp á matinn á Hótel Gösta í tilefni afmælisins. Eftir góða stund yfir hádegisverðinum héldum við af stað á ný og þá suður með Siljan og síðan austur með áleiðis til Falun. Þessi leið er afburða falleg norðan vatnsins. Sunnan vatnsins eru hins vegar víðáttumiklir barrskógar og ekki svo mikið annað að sjá ef ekki er brugðið af leið. En suðaustan vatnsins er afburða fallegt fjöllótt landbúnaðarhérað þar sem skiptast á víðáttumikil akurlönd og minni fjöll sem eru skógi vaxin upp á efsta topp.

Næst fórum við þetta með Valgerði dóttur okkar, Jónatan tengdasyni og Kristni dóttursyni. Auðvitað höfðum við viðkomu á Hótel Gösta. Síðan brugðum við af leið sunnan vatnsins og fórum í skíðalyftu, um mitt sumarið, upp á hæð eina þar sem bæði var útsýni og veitingastaður. Minnir mig þó að útsýnið hafi verið best úr sjálfri lyftunni.

Þriðju ferðina kringum Siljan fórum við svo með Binnu systur Valdísar. Auðvitað var matur á Hótel Gösta en síðan ókum við sleitulaust leiðina frá Mora, suður fyrir Siljan og austur með að vanda. Þegar við komum að Siljan suðaustanverðu tókum við eftir skilti sem á stóð Vidablick sem við auðvitað köllum hér eftir Víðablik. Við ókum nú veginn móti Víðabliki og hann endaði við hús og turnbyggingu efst á skógi vöxnum kolli sem er 352 m yfir sjávarmáli. Ekki mundi íslenska hálendið fölna mikið yfir þessum fáu metrum, en þegar það er lang hæsti toppurinn á stóru svæði verður útsýnið þaðan víðáttumikið. Svo var það þetta með turninn sem þar stóð.
Útsýnisturninn Víðabliki
Ég brá mér inn í afgreiðslu í lítilli búð og veitingastofu sem þarna er og spurði hvort ég gæti fengið að fara upp í turninn og það var svo velkomið. Mér var sagt að turninn stæði þarna til þess að nota hann. 28 metra hár er hann og það er verulega á fótinn að skrúfa sig upp allar þær tröppur sem þar er að finna. Þær systur, Valdís og Binna, völdu að sitja í sólinni meðan ég fór upp. Móður og með hraðann púls kom ég upp að lokum. Þegar ég leit í kringum mig varð ég yfir mig undrandi. Ég var einn og hafði engan við að tala, enda get ég fullyrt að ég var algerlega orðlaus. Fyrst leit ég norður yfir Siljan sem blasti við í allri sinni víðáttu. Norðan vatnsins tók við víðattumikið hæðótt landslag, allt skógi vaxið og grænt. Til vesturs; sama, hæðótt landslag og skógur skreyttur með minni stöðuvötnum. Útsýnið til suðurs var heldur minna en ekki get ég komið fyrir mig hvort það var vegna skyggnis eða landslags, en þar var einnig sama að sjá, grænt, grænt, skógur, skógur. Ekki all langt til austurs tóku við skógi vaxin fjöll sem ég gat um áður og útsýnið þangað var ekki svo ýkja langt. En hvað um það. Þetta var þriðja sumarið okkar í Svíþjóð og aldrei áður hafði ég séð svo gríðarlega víðáttumikið gróðið svæði, svo ég ekki tali um skógi vaxið svæði. Teygingar af akurlöndum, vötn og kirkjuturnar sem stungu sér upp úr skógarbreiðunum lífguðu upp á hina fögru mynd. Ólýsanlega fögur á þeirri stundu þótti mér, og nú þegar ég skrifa þetta finn ég fyrir þörf fyrir að endurnýja myndina í hugskoti mínu með nýrri heimsókn á Víðablik.

Hér læt ég staðar numið á þessum sunnudegi, en ef vel liggur á mér ætla ég að halda áfram með Víðablik einhvern allra næstu daga.
GB


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0