Að kveðja Eyjar

Það er að bresta á miðnætti og þar með byrjar síðasti dagurinn í Eyjum að þessu sinni. Það fylgir því tregi að kveðja. Þannig var það á Kálfafelli á árum áður þegar þau voru þar þrjú, mamma, pabbi og Stefán. Eftir að hafa verið þar í viku eða svo og finna að heimsóknin hafði verið upplífgun í fámenninu, þá fann ég fyrir trega þegar kveðjustund nálgaðist. Að ljúka heimsókn hjá dótturinni með fjölskyldu hér í Eyjum veldur einnig trega en þó af öðrum toga. Það er langt á milli og það eru barnabörn. Það fer heldur ekki milli mála að staðan í þjóðfélaginu hefur áhrif á kveðjustundina að þessu sinni. Þó að bæði Valgerður og Jónatan hafi vinnu sem er örugg frá mínum bæjardyrum séð, þá er Ísland í dag ekki það Ísland sem ég heimsótti árið 2005.

Við förum héðan með góðar minningar. Það var ferming, fermingarveisla, spjallstundir hér heima, stundir með góðu fólki, gönguferð á Eldfell, bílferð með Jónatan um eyna þar sem ég kynntist áhugamáli hans sem ég vissi ekki um og fleira mætti telja. Vestmannaeyjar er á margan hátt makalaus staður. Útsýnið héðan frá húsi Valgerðar og Jónatans er með ólíkindum stórfenglegt og fallegt. Ég vil hafa með mér héðan allt það jákvæða sem ég hef upplifað. Ég hreinlega æfi að gera svo. Ef ekki mundi ég fara héðan með vind og næðing sem förunaut og sjá Vestmannaeyjar sem illviðrisbæli. Mér bara dettur ekki í hug að gera það og því mun ég minnast Vestmannaeyja eins og sagt er ofar: "Vestmannaeyjar er á margan hátt makalaus staður" og fjölskyldan sem við höfum dvalið hjá er hluti af fjölskyldu okkar.

Klukkan er að ganga eitt og ég er grútsyfjaður. Þess vegna ætla ég ekki að birta þetta fyrr en á morgun þegar ég hef lesið það yfir með vökulu auga. Þangað til ætla ég að leita félagsskapar með Óla lokbrá í draumalandinu.

Það er kominn nýr dagur og ég er búinn að lesa yfir það sem ég skrifaði um miðnætti. Ég breyti ekki stafkrók. Ég skrapp á klóið um sjö leytið og þegar ég kom til baka var tíkin Salka komin í plássið mitt í rúminu. Ég fékk hana ekki framúr, ég varð að taka hana framúr. Þetta hefur ekki skeð áður. Vissi hún virkilega að við værum að fara? Við því fæ ég ekki svar. Við Valdís þökkum fyrir okkur Valgerður og fjölskylda og Vestmannaeyjar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0