Aftur á Sólvöllum

Merkilegt, það var engin mynd tekin af sumarskrúðanum á Sólvöllum í dag. Það var mikið spennandi að koma þangað aðeins fyrir hádegi í dag. Þvílíkt grænt haf um allt og meðal annars á Sólvöllum. Ég ætlaði auðvitað að smíða í dag en það var ekki hægt að láta hjá líða að fara könnunarferð um skóginn. Skógurinn allur er er einn stór kunningi en svo eru viss tré, trúlega milli fimmtíu og eitthundrað, sem eru meira persónulegir kunningjar og vinir. Strax við innkeyrsluna er eik sem við fluttum út úr skóginum í hitteðfyrra og viti menn -hún er á fullri ferð, frískleg og fín. Hlynirnir sem líka voru fluttir úr skóginum í hitteðfyrra og gróðursettir við lóðarmörkin að vestan eru á fullri ferð og eru farnir að stækka fyrir alvöru, allt að 30 sm nú þann 23. maí. Rétt á bakvið húsið eru tveir hlynir sem eiga ekkert að vera þar og eru þegar búnir að vaxa um 45 sm. Þið skiljið að tommustokkurinn var með í ferð. Og beykið, þessi 20 tré sem við höfum flutt á Sólvelli síðustu þrjú árin, þau eru öll komin af stað og hafa vaxið meira en áður, nefnilega allir þrír árgangarnir. Nú tel ég bara sannað að beyki geti vaxið á Sólvöllum. Þetta var mikilvægasta uppgötvun mín í Sólvallaskóginum í dag en það voru gerðar margar góðar uppgötvanir þar í dag. Lengst niðri eru tvær myndir af beyki niður á Skáni sem teknar voru í ferðalagi sem við fórum þangað fyrir þremur árum. Þegar við fórum í það ferðalag vorum við nýbúin að gróðursetja fyrstu beykitrén á Sólvöllum. Laufgun er ekki lokið ennþá. Askur laufgast seinast allra lauftrjáa og hann er varla hálf laufgaður ennþá. Sum eikartré eru heldur ekki fulllaufguð. Ég ímynda mér að það séu mismunandi kvæmi þarna sem laufgast á misjöfnum tíma.

Næst verð ég að segja frá Valdísi. Hún byrjaði að draga út sláttuvélina, setja á hana bensín og svo hitaði hún kaffi. Að því loknu fór hún að slá og er búin að slá 2000 fermetra í dag. Minna má nú gagn gera. Það er heil mikil gönguferð sem liggur að baki því að slá þennan flöt.

Nú kemur að smíðunum sem hófust nokkru eftir hádegi. Það væri kannski ljúfast að segja ekkert um smíðar í dag en það er samt best að vera ekki að dylja neitt. Ég byrjaði á því að mæla áfellur á einn lítinn glugga sem er hátt uppi eða 2,7 metra frá gólfi. Ég sneið áfellurnar af minni alkunnu nákvæmni, skrúfaði og límdi saman og þar með kalla ég þetta gluggakistu. Svo mátaði ég. Þessi gluggakista sem ég hafði bæði skrúfað og límt saman af minni alkunnu nákvæmni reyndist einum sentimeter of há. Hvað gerir Guðjón þá? Jú, ég skrúfaði sundur og náði að slíta endana úr límingunni sem var jú mjög nýleg. Svo stytti ég viðeigandi stykki um einn sentimeter og skrúfaði bara, límdi ekki því að ég vildi máta fyrst. Þá kom í ljós að festingar fyrir gluggakistuna sem ég hafði gengið frá í apríl stemmdu ekki og þar var ekki hægt að bjarga sér með neinum "reddingum". Þá kom í ljós að ég hefði ekki þurft að skrúfa sundur og stytta, heldur hefði nægt að færa festingarnar. En ég færði svo þessdar festingar með all nokkrum stunum og andvörpum og tókst að reiðast ekki. Það gilda nefnilega viss Sólvallalög sem segja að ef smiðnum rennur í skap, þá hættir hann að smíða og fær sér kaffi eða gengur út í skóg eða hreinlega hættir þann daginn. Nú er það svo að um ókomin ár verður ákveðið smíðafeil á Sólvöllum sem aðeins flugurnar og ef til vill fuglar geta séð. Undirstykkið á gluggakistunni kemur ekki að glugganum eins og til stóð, en það er aðeins að neðan og vegna hæðar á glugganum sést það ekki neðan frá. Annars hefði ég smíðað nýja gluggakistu.

Sjáið þið bara, það er þegar komin ein fluga til að sjá að kanturinn að neðan er ekki eins og kanturinn til hliðanna og að ofan. Ég komst nú vel út úr klúðri mínu í dag. Hér fyrir neðan eru svo tvær beykimyndir.




Ef að er gáð má greina Valdísi milli stofnanna þar sem þeir greinast sundur



Kommentarer
Rósa

Hahaha, duglegur þú að fara ekki í fýlu. Svo held ég að það verði alveg hægt að sofa í herberginu (og skrifa doktorsritgerð) þó svo að það sé þarna smíðafeill.



Kveðja,



R

2009-05-24 @ 10:55:29
Guðjón

Það besta var að ég tók ákvörðun, ég gat smíðað nýja gluggakistu en "ákvað" að gera það ekki. Þá hefði ég líka þurft að kaupa heila plötu fyrir stykki sem er á stærð við tölvuskjá, svo naumt var það.

2009-05-24 @ 11:10:34
URL: http://gudjon.blogg.se/
Þórlaug

Það er alltaf sami dugnaðurinn í ykkur, varla búin að taka upp úr töskunum þegar þið eruð byrjuð á fullu :-)))

2009-05-24 @ 21:30:46
Guðjón

Ja, ég veit varla, dugnaður, eiginlega ekki alveg kominn í gang ennþá og stirður var ég þegar byrjaði að brölta í stiganum í gær. Og í dag fór mér ekkert fram en vona bara það besta.

Kveðja,

Guðjón

2009-05-24 @ 21:51:13
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0