Jahérnana hér

Við erum bara búin að vera þrjár vikur á Íslandi. Mér sýnist að það sé logn í dag og þá er það eiginlega annar dagurinn síðan við komum sem það er logn. Ég er búinn að gera allt of mikið af einu í þessari ferð; að sitja of mikið og þá sérstaklega í bíl. Af því verð ég haltur. Svo erum við búin að gera mikið af öðru og það er að hitta fólk. Samt er eins og okkur takist ekki að hitta nógu mikið af fólki, að við komumst ekki alveg yfir það.

Við hittum marga á fermingu Guðdísar í Eyjum þó að við þekktum ekki alla þar. Ég er búinn að tala um ferminguna áður í blogginu og get bara bætt því við að hún hafði sterk áhrif á mig og varð uppspretta til margs konar hugleiðinga. Svo hittumst við í Skógum eftir 50 ár. 50 ár. Að ganga um gamla skólann eftir svo langan tíma, svo lítið breyttan sem raun var á og sérstaklegsa að hitta gömlu skólafélagana. Já, þetta skilur engan eftir ósnortinn. Þegar við höfðum verið svolitla stund saman í rútunni eftir brottför frá umferðarmiðstöðinni, þá voru þetta gömlu góðu krakkarnir. Auðvitað höfðum við þroskast af visku og vexti og lífsins skóla en þetta voru samt gömlu krakkarnir.

Að koma í sveitina, hún var sjálfri sér lík. En þar hafði líka lífsins skóli tekið á fólki á ákveðinn hátt. Lífsbaráttan virtist harðari þarna í sveitinni undir Vatnajökli en annars staðar þar sem ég hafði komið áður í þessari Íslandferð okkar Valdísar. Þegar ég fór þaðan fannst mér sem ég ætti margt ósagt en tíminn sem varð fyrir valinu til að koma þangað var ekki réttur. Aðrir þættir í heimsókn okkar til Íslands að þessu sinni réðu tímavalinu. Að heimsækja sveitina á miðjum sauðburði ber að forðast.

Nú er ég á höfuðborgarsvæðinu og hér hafa allir tekið okkur afburða vel. Hún mágkona mín og svili sem við völdum að gista hjá hafa stjanað við okkur. Eftir einhvern ákveðinn tíma fór mér að finnast svolítið að ég væri sníkjudýr. Ég veit samt að hún Árný mágkona mín mundi skamma mig fyrir að segja þetta ef hún læsi jafnóðum það sem ég skrifa. Þeim kemur mikið vel saman systrunum, henni mágkonu minni og konunni minni. Svo á konan mín aðra systur í Reykjavík, og þeim kemur líka vel saman, en þar er fullt af öðrum gestum.

Um tvöleytið í dag leggjum við af stað norður til Hríseyjar með fyrrverandi hríseyingum, þeim Þórlaugu og Jóhanni. Það var feisbókin sem gerði þá ferð mögulega. Þórlaug sá þar að við vorum villuráfandi varðandi Hríseyjarferðina og bauð upp á þetta. Þakka ykkur kærlega fyrir Þórlaug og Jóhann. Í Hrísey eigum við ómetanlega góða gamla nágranna. Það er ekki hægt annað en nefna nágrannanna við Sólvallagötuna. Við vorum þrjár fjölskyldur sem byrjuðum að byggja vorið 1972 og fluttum inn vorið 1973. Þetta voru okkar nánustu nágrannar til 20 ára og þau hafa heimsótt okkur til Svíþjóðar. Það verður gaman að hitta þetta fólk ásamt mörgum öðrum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0