Afrískar konur


Ég byrja á að birta hér litið breytt blogg frá laugardeginum 15. oktober.

Mér lá dálítið á þegar vinnunni lauk seint í hádeginu og hún Susanna ráðgjafi leysti mig af og verður í vinnunni þangað til um hádegi á morgun. Við Valdís ætluðum nefnilega að vera í Fjugesta klukkan hálf þrjú og það gerðum við. Ég skilaði henni að safnaðarheiminu þar sem kórinn hennar ætlaði að æfa en sjálfur fór ég til að kaupa dísilolíu á bílinn og til að taka út vasapeninga í hraðbanka. Síðan ók ég rólega um Fjugesta svolitla stund til að sjá mig um og svo hélt ég að safnaðarheimilinu þar sem ég gekk inn.

Þegar ég leit inn í samkomusalinn sá ég mikið af rosknu fólki sem gæddi sér á kræsingum af kökuhlaðborði. Þetta kom mér á óvart enda er ekki svo algengt að Svíar bjóði upp á kökuhlaðborð. Ég gekk inn að veisluborðinu og virti fyrir mér kræsingarnar. Þar sem ég er nú einn af Kálfafellsbræðrum leist mér hreint alveg rosalega vel á brúnu súkkulaðiterturnar og bláberjapæið sem var við hliðina á könnunni með vanillusósunni. Ég stakk hundrað króna seðli í tágakörfuna á borðinu eftir að ég hafði talað við konu sem var þarna til þjóðnustu reiðubúinn. Þarna var verið að safna fyrir fátækt fólk í Afríku. Världens barn.

Meðan ég var að borða af fyrri kökudiskinum var kynntur maður úr sveitinni utan við Fjugesta, en hann hafði unnið við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Það kom fram að þessi maður var aldraður augnlæknir og hann sýndi fjöldan allan af skyggnum frá starfinu þar. Hann sýndi bæði börn og fullorðna sem höfðu skaðast á augum og mörg andlitin litu vægast sagt alvarlega út. Hann sýndi augnaðgerðir úti í guðsgrænni náttúrunni, jafnvel á matarborði eins og Esra læknir notaði á Kálfafelli þegar hann fjarlægði af mér litlafingurinn fyrir meira en sextíu árum. Það sem þessi maður sýndi var svo rosalega alvarlegt að ég var kominn á fremsta hlunn með að byrja að gráta. Ég man ekki hvort það var fimmta eða sjötta hver kona sem fæðir barn sem deyr af barnsförum þarna. Það var að vísu ekki litið svo alvarlegum augum vegna þess að það voru konur sem dóu. Það fyllti mælinn endanlega.

Og þarna sat ég og borðaði súkkulaðitertur og var nýbúinn að vera í hraðbankanum til að taka út peninga og að fylla bílinn med olíu utan að svo mikið sem velta fyrir mér hvað það kostaði. Ég fann að ég var byrjaður að svitna af sykrinum, en áður en læknirinn kom að þessu síðasta og svo hrikalega alvarlega, var ég búinn að sækja á annan kökudisk. Þá var ég líka farinn að velta því fyrir mér hvar Valdís eiginlega væri stödd á þessari stundu. Um það leyti sem ég var farinn að finna sykur- og súkkulaðibragðið með allri húðinni lauk þessi góðlátlegi læknir máli sínu, læknir sem hefur mótast af að vinna við hjálparstörf niður í fátækustu Afríku. Þá var það kynnt að "Hafa það gott kórinn" í Fjugesta ætlaði að syngja nokkur lög. Strax þar á eftir lét Valdís veskið sitt detta í kjöltu mína, en hún hafði þekkt mig á baksvipnum konan sú þegar hún kom ásamt kórnum sínum inn í salinn að baki okkur öllum.

Kórinn stillti sér upp og þarna í miðjum kórnum stóð kona ein brosandi og ánægð. Það var fiskimannsdóttirin frá Hrísey sem var svo kvíðin þegar við lögðum af stað frá Sólvöllum til Fjugesta einhverjum klukkutíma fyrr. Ég sá vel að kvíðinn var runninn út í sandinn og eftir var kona sem var laus við allar hömlur og tók lifandi þátt í söngnum. Kórstjórinn og stofnandi kórsins er góðmenni sem býr eina 300 metra hér norðan við okkur, en við þekkjum hann ekkert sem nágranna. Han fer bara hér framhjá öðru hvoru á bláa Renó sendiferðabílnum sínum og hann á stóran hund, svo stóran hund á hann, að hundurinn skellti honum um koll inn í skógi fyrir einhverjum vikum og þess vegna gengur hann við tvær hækjur. En honum þykir vænt um hundinn sinn og hefur því löngu fyrirgefið honum þennan dálítið grófa leik.

Ég verð að nefna mann einn sem stóð næstum lengst fram til hægri í kórnum. Hann er trúlega ellilífeyrisþegi, einir tveir metrar á hæð, breiður yfir herðarnar, vöðvamikill og dálitið þykkur undir belti. Þungur. Mjög sterkan bassa hefur þessi maður og þegar hann beitti bassanum er svo sannarlega hægt að segja að salurinn fylltist af rödd hans. Síðasta lagði sem þau sungu var "Rússnesk vísa", sett saman af fjórum eða fimm vísum. "Hej!" var sungið kröftuglega undir lok hverrar vísu. Þá varð þessi stóri maður svo svifléttur þar sem hann dansaði og það var sem einungis tærnar snertu gólfið fislétt. Söngur getur greinilega gert kraftaverk. Ég sá það bæði á konunni minni og bassamanninum mikla. Þar sem þessi stund í safnaðarheimilinu í Fjugesta spilaði sterklega á tilfinningar mínar kom ég aftur við hjá tágakörfunni á tertuborðinu. Ég setti í hana peninga sem eiga að geta gefið fleiri en einni móður sem fæðir barn niður í fátækustu Afríku hreint vatn til að þvo sér upp úr. Þar með eiga þær meiri möguleika á að halda lífi.

Frásögn læknisins hafði gríðarleg áhrif á mig og varð til þess að ég lagði við eyrun í morgun þegar verið var að kynna eitt og annað varðandi úthlutun nóbelsverðlauna í dag. Það var talað um konurnar þrjár sem deila friðarverðlaununum í ár og kannski mest eina þeirra vegna þess að systir hennar býr í Svíþjóð. Ég fór með Valdísi til Örebro fyrir hádegi þar sem hún borðaði mat ásamt fjórum öðrum konum. Þær hafa svolítinn félagsskap. Ég var ákveðinn í því að horfa á upphaf verðlaunahátíðarinnar í Ósló og gerði það. Niðurstaðan varð þó sú að ég horfði á þessa dagskrá í tvo tíma, ekki bara byrjunina, og ég get fullyrt að aldrei fyrr hef ég horft á sjónvarpsdagskrá svo lengi svo mikið hrærður sem í  dag.

Fyrr á öldum var það meiri háttar verslun að ráðast að landi í Afríku á skipum, ræna þar hraustasta og fallegasta fólkinu og sigla með það yfir heimshafið til að selja það til ánauðar. Það er hægt að lesa sig til um það þegar skipstjórar þessara skipa voru í vondu skapi og þeir sendu háseta sína niður í lest til að sækja fallegustu konuna sem fannst þar. Síðan nauðguðu þeir þessari konu og sendu svo hásetana með hana niður í lest aftur. Ef vandræði urðu um borð hentu þeir fólkinu bara í sjóinn. Síðar lögðu Vesturlönd undir sig lönd Afríku með menn í fararbroddi, rændu þau auði þeirra og menningu sem þau höfðu lifað við frá ómuna tíð. Síðan yfirgáfu Vesturlönd Afríku og skildu fólk eftir, rúið þjóðernisvitund og frjálsri hugsun og skildi þar eftir þá vitneskju að menn geta með valdi lagt fólk að fótum sér. Það var ægilegur menningararfur sem var skilinn eftir hjá ofbeldishneigðum mönnum sem finnast meðal allra landa og þjóða.

Ég ber ómælda virðingu fyrir þessum þremur konum og öllum öðrum konum sem hafa staðið að því að byggja upp öfl sem vinna nú að því að snúa þróuninni við. Athöfnin í Ósló í dag, tal formanns norsku Nóbelnefndarinnar og þessara þriggja kvenna tóku mig krafttaki og mér liggur við að segja að ég er vart sami maður eftir.

Þegar nefndarformaðurinn steig í ræðustól get ég fullyrt að mér datt ekki í hug að hann, hvíti maðurinn sem ég horfði þar á, hreinlega byggi yfir þeim hæfileikum að geta flutt þá kyngimögnuðu ræðu sem hann þó gerði. Að það voru þrjár konur sem voru komnar til að taka á móti verðlaununum hlýtur að hafa haft mikil áhrif á hann. Það var eins og nýtt og áður óþekkt bergmál á öldum ljósvakans birtist í orðum hans. Svo töluðu konurnar allar þrjár og ræður þeirra var sem boðskapur um fæðingu nýs heims þar sem fólk getur búið án þess að stór hluti íbúanna þurfi að gráta sig í svefn á kvöldin. Þær töluðu ekki um rán hvíta mannsins í Afríku.

Þökk sé aldraða augnlækninum sem býr í sveitinni utan við Fjugesta. Án þess að vera undirbúinn af hinu frábæra en sársaukafulla erindi hans á söfnunarsamkomunni fyrir fátæk börn í Afríku, þá hefði ég trúlega ekki náð þessu sterka tilfinningasambandi við það sem fram fór við afhendingu friðarverðlaunanna í Ósló. Á þessari söfnunarsamkomu var auk erindis augnlæknisins gnægð gómsætra veitinga og fín skemmtiatriði. En að baki lá mikil alvara, að safna handa fólki sem vesturlandabúar rændu því besta sem sem til var, hraustasta og fallegasta fólkinu, og að auki öll þau efnislegu verðmæti sem hægt var að komast yfir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0