Nýr kapituli í lífinu

Frá því í fyrravor hefur lífið gengið út á að byggja, vinna talsverða launavinnu og aftur að byggja í flestum fríum. Þannig gekk það þangað til í byrjun september í haust að þá jókst þessi talsverða vinna í fulla vinnu. Stuttu áður hafði ég gert lista yfir verkefni sem var mikilvægt að ljúka hér heima áður en vetur gengi í garð. Þetta voru sjö verkefni og það minnsta var tvö dagsverk, dagsverk á minn mælikvarða. Svo var vinna eins og við eldiviðinn mörg dagsverk og þar var Valdís stórþátttakandi. Hvað skeði svo fyrir rúmlega hálfum mánuði? Jú, ég dró strik yfir síðasta verkefnið á sjöverkefnalistanum. Mikið var ég feginn.

Mikil ósköp hvað ég tala um þessa vinnu -eða þá byggingarframkvæmdirnar á Sólvöllum.

Svo er nú málið þannig að ég er ennþá ekki alveg farinn að kunna við mig þegar ekki bíða mín lengur margra dagsverka verkefni hér heima. Ég eigra dálítið fram og til baka og á svolítið erfitt með að bara dingla mér eins og gamall nágranni í Hrísey sagði svo oft. Ég ætlaði að taka mér bækur í hönd, lesa og leggja svolítið stund á sænskukunnáttu mína, en ég bara er ekki kominn þangað ennþá. Ég byrjaði þó aðeins í haust en svo rann það út í sandinn. Svo settist ég við tölvuna fyrir stundu til að byrja á þessu bloggi og hafði þá mér mér einn munnbita af súkkulaði sem ég keypti fyrir einum hálfum mánuði. Ég tók bara einn munnbita vegna þess að ég vissi að ef ég tæki fjögur mundi ég borða þau á jafn löngum tíma og eitt.

Svo er ég búinn að rölta fjórum sinnum fram aftur til að ná mér í einn og einn munnbita af súkkulaði og eigra svolítinn hring á gólfinu frammi um leið, setjast niður hjá Valdísi við sjónvarpið og leggja einn og einn kapal. Svo inn að tölvu aftur með einn munnbita af súkkulaði sem hverfur á einu andartaki. Það var eins með súkkulaðið fyrsta hálfa árið sem ég vann í Vornesi og bjó í Falun. Venjulega fór ég leið til og frá vinnu sem liggur gegnum Örebro og á leiðinni heim kom ég við á litlu kaffihúsi í norðanverðri Örebro. Þar fékk ég mér kaffibolla. Um leið keypti ég 100 gramma súkkulaðistykki sem ég ætlað að láta endast alla leið upp til Falun, 180 km leið. Eftir fyrstu 40 km var súkkuklaðistykkið alltaf búið og eftir svo sem hálft ár hætti ég að kaupa það. Það var vegna þess að ég sá í hverri einustu ferð að ég réði ekki við að gera eins og ég hafði ákveðið. Þá var bara að hætta. Súkkulaði er gott í hæfilegu magni.

En aftur hingað heim. Eftir áramót þegar ég hætti þessu margumtalaða fulla starfi mínu byrjar æfingatímabil. Ég þarf að vinna ýmsar fínsmíðar hér heima en það er bara gamanmál. Með þessum fínsmíðum ætla ég nefnilega að taka í alvöru fram bækurnar sem ég var aðeins farinn að líta í í haust, byrja á þessu mýkra lífi sem ég hef talað svo lengi um og hef dreymt um jafn lengi. Að gera aðra hluti á eftirmiðdegi lífsins, hluti sem gera líf mitt að nýjum kapítula. Svo er margt annað á þessum draumalista sem ég segi ekki meira frá að sinni. Þetta er sameiginlegur draumalisti sem við  tölum oft um hér heima. Það finnst mikið úrval möguleika fyrir ellilífeyrisþega.

Seinni partinn í sumar vorum við Valdís á leið til Stokkhólms. Þá, eins og oft þegar við förum þessa leið, fengum við okkur hressingu á stað sem við að gmani okkar köllum Staðarskála og liggur 40 km austan við Örebro. Rétt þegar við vorum komim þar inn bar að ellilifeyrisþega í tveimur rútum sem virtust vera á sömu leið og við. Við veittum því strax athygli að þetta fólk hafði mjög glaðlegt yfirbragð. Konurnar voru með nýlagt hár, vel snyrtar og klæddar og mátulega málaðar. Karlarnir voru glerfínir og svolítið sperrtir og ánægðir með lífið. Kannski var þetta fólk á leið í skerjagarðsferð með gistingu á hóteli í Stokkhólmi. Kannski var það á leiðinni til að taka þátt í fjöldasöng á Skansinum, hver veit. En eitt virtist liggja í loftinu; "það var svolítill fiðringur í fólkinu". Við Valdís ættum nú að drifa okkur í fáeinar svona ferðir á næsta ári.

Nú er ég búinn að fara hverja ferðina á fætur annarri fram til Valdísar og líta aðeins á það sem hún er að horfa á í sjónvarpinu. Það var verið að tala við forsætisráðherrann áðan í skemmtiþætti í sjónvarpinu og það á léttari nótunum. Einmitt núna þegar ég er að skrifa þessar línur er hins vegar verið að tala við hann um Evrópusamstarfið. Ég er búinn að láta súkkulaðið vera alla vega síðasta klukkutímann. Ég ætla að fara að bursta og pissa og svo ætlum við að skríða undir ullarfeldina okkar. Ætli ég sofi ekki eina níu tíma í nótt eins og ég geri svo oft þegar ég er búinn að vinna kvöld í Vornesi.

Stór hluti glundroðans
í lífinu stafar af því
hve lítið við þurfum.
Nú lifi ég fábrotnara lífi
og nýt meiri friðar.

Richard Evelyn Byrd (1888 - 1957)

Úr Kyrrð dagsins

Ég vil vera á leiðinni þangað og lifa fábrotnu lífi við þær aðstæður sem við erum langt komin með að skapa okkur.


Richard Evelyn Byrd


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0