Daginn eftir hvassviðrið

Í gær bloggaði ég um veðrið og sagði það vera hvassviðri. Þar sem ég er vanur íslenskum veðrum hef ég kannski ekki sama mat á vindi og Svíar. Ég hefði til dæmis ekki kallað veðrið í gær brjálað veður en Svíarnir nota býsna þung orð yfir það. Í Örebro var vindstyrkurinn 22 metrar á sekúndu í hviðunum sem Íslendingum finnst ekkert tiltakanlegt, en ef vindur fer alla jafna ekki yfir 15-17 metra á sekúndu eins og hér, þá eru 22 m virkilega vont veður.

Og þetta er ekki aðeins bundið við fólkið og hvað því finnst. Tré sem hafa ekki orðið fyrir meira en kannski 15 til 17 m á sekúndu í fjölda ára eru ekki búin undir 22 metrana og þá skeður þetta; tré hreinlega velta um koll. Stundum losnar rótin með ákveðinni rótarköku eða þau brotna ofanjarðar.

Lögreglan í Örebro segir að ástandið hafi verið náttúruhamfarir. Það byggir á því að mikið af trjám féll og mörg þeirra ollu skaða eða lokuðu vegum. Tré féllu yfir mjög marga vegi í Örebroléni, féllu einnig yfir margar götur í Örebro og á marga bíla. Tré féllu einnig á raflínur og um þrjú leitið í dag voru ennþá 106 þúsund heimili í Svíþjóð utan rafmagns. Engar lestir hafa gengið upp í Norðurland síðan í gærkvöldi þar sem mikið magn af trjám féll yfir lestarteina og á raflínurnar sem lestirnar fá rafmagnið frá. Upp í hérðunum langt norður frá og uppi í fjallahéruðunum var vindstyrkur yfir 40 m á sekúndu.

Þá kem ég heim til Sólvalla. Ég sagði í blogginu í gær að ég mundi fara í morgunsárið út í skóg til að athuga ástandið. Og þetta gerði ég fyrir morgunverð. Í fyrstu sá ég ekki að neitt hefði skeð, en þegar ég kom í norðvestur hornið á okkar landi sá ég stórt grenitré líggja í skóginum hans Arnolds bónda, nokkru austan við húsið Jonasar sonar hans. Ég gekk þangað og þegar ég nálgaðist sá ég að það var ekki bara eitt stórt greni, það var algjör flækja af trjám sem lágu þar þvers og krus hvert á annað og mér varð hugsað til Arnolds að það yrði ekki létt fyrir hann að ráðast á þennan gríðarlega haug af alls konar trjám.

Það voru grenitré, stórar bjarkir og hellingur af minni og meðalstórum öskum. Þvílík benda. Og þar sem ég nú stóð þarna leit ég heim að okkar skógi og viti menn; þarna lá einn askur. Svo þegar ég kom nær sá ég að það var einn vænn askur sem lá þar á hliðinni og svo nokkrir minni askar. Tveir meðal stórir askar stóðu ennþá, hengdir í stórt sterklegt tré, en brotnir voru þeir niður við rót. Þeir fara ekki lengra í bili þannig að ég geri ekkert í málinu fyrr en á nýju ári þegar ég er hættur að vinna. En stóru grenitrén í skóginum okkar standa, tignarleg eins og ekkert hafi í skorist.

Þannig er það nú hér og það getur talist gott ástand. Ég get ekki talað um neinar náttúruhamfarir þó að ég fullyrði að vindurinn hér fór vel yfir 22 metra á sekúndu. Upp úr hádegi skrapp ég inn í Örebro. Mér fannst sem ég yrði að hitta fleira fólk um jóladagana en alkohólistana í Vornesi og því ákvað ég að skreppa inn í Marieberg, höfuðstöðvar Mammons suðvestan við Örebro. Á miðri leið lá stór fura, og þá segi ég "stór fura", mitt inn á veginn. Einhver hafði verið þar á ferð með mótorsög og sagað burtu toppinn og slatta af greinum þannig að hálfur vegurinn var auður. Mikið af greinum og kvistum lá við allan veginn og á honum og hingað og þangað út í skógunum lágu fallin tré.

Þegar inn í Marieberg kom var þar gríðarlegur mannfjöldi og bílarnir fylltu öll plön. Þá eru þar þúsundir bíla. Ég lagði því Fordinum við Fordumboðið þar sem mér finnst ég eiga skilið að leggja þar, búinn að kaupa af þeim tvo bíla. Þegar inn í stóra verslunarmiðstöð kom var þar þvílíkt magn af fólki að ég hugsaði til Lækjargötunnar í Reykjavík og Lækjartorgsins þann 17. júní. Kannski er það vel í lagt en þó ekki svo langt frá lagi. Útsölurnar byrjuðu í morgun og nú ætlar fólk að plata kaupmanninn og kaupa á lágu útsöluverði. En kaupmennirnir brosa í kampinn og vita að þeir eru þegar búnir að gera það gott og rauði miðinn á vörunum er kannski ekki heldur alveg marktækur. Báðir reyna að plata hinn. Kaupmaður er nú einu sinni kaupmaður og þeir þurfa að finnast líka.

Marieberg var ekki fyrir mig í dag svo að ég dreif mig heim og eftir svo sem klukkutíma ætla ég að elda laxinn sem ég er búinn að taka úr frostinu og fáeinar kartöflur með. Svo fæ ég mér hrökkbrauð líka með góð lagi af smjöri. Svo kem ég til með að borða hollan og góðan mat og fá í mig mikið af Omega-3. Þá get ég haldið því áfram einhver ár í viðbót  að finnast ég vera 35 ára. Aumingja Valdís að búa með svona sérvitringi.

Upp í Lindesberg fékk ég nýja heilsu með nýjum mjaðmalið. Þessi mynd er þaðan og trúlega er húsið afar lítið skemmt. Kannski er þakrennan eitthvað beygluð. Ljósmyndarinn heitir Johan Hall.


Þessi mynd er tekin skammt utan við Örebro. Svo virðist sem tréð hafi ekki náð heim til hússins og því hefur væntalnega farði vel. Ljósmyndarinn heitir William Englund.


Þessi mynd er tekin inn í Örebro. Litli blái díllinn á miðri mynd er bíll og sagan segir að hann sé ekki upp á marga fiska lengur. Trjábolinn má greina til hægri. Ljóasmyndarinn heitir Jonas Eriksson. Myndirnar eru allar teknar úr blöðum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0