Ég spyr mig hvort þetta geti staðist

Ég bloggaði um það í gær þegar ég var að gera við raflögn á hænsnakofanum á Kálfafelli. Ekki man ég hvort það yfir höfuð var ljós í kofanum, en það var alla vega staur á gaflinum á þessu húsi sem var hlaðið úr torfi og grjóti en framgaflinn var klæddur með viði eða bárujárni. Ekki man ég hvort heldur var. Á staurnum var útiljós. Svona staurar voru á framgöflunum á fleiri húsum sem stóðu þarna í röð og á milli þeirra var tvíþætt snúin leiðsla í einangruðum kápum. Þannig leit það út á Kálfafelli fyrir 60 árum síðan og meira. Mig grunar að það hafi verið eins gott að það var jafnstraumur sem heimilisrafstöðvarnar framleiddu á þessum árum. Að fá í sig straum var ekki svo rosalega alvarlegt en víst tók maður gríðarlegt viðbragð ef maður var of nærgöngull við vafasamna staði og þóttist svo maður að meiri á eftir.

Eftir að ég lagði mig í gærkvöldi var ég að velta þessu fyrir mér. Var það mögulegt að ég hefði verið að sýsla við svona hluti þegar ég var tólf ára. Alla vega var ég ekki eldri en þrettán ára og miða ég þá við það þegar ég byrjaði í Skógum. Þetta var fyrir þann tíma. En þegar við erum ung tökum við ótrúlega vel eftir. Ég man eftir því að strákapollar stálu strætisvagni á Rauðasandi í Reykjavík og óku um á honum. Þeir höfðu stundað það að horfa á strætisvagnabílstjóra í akstri og lærðu þannig að framkvæma þetta prakkarastrik. Sigfús á Geirlandi kom öðru hvoru til að vinna í rafmagni heima. Ég man eftir að ég var rosalega forvitinn og horfði mikið á hann vinna.

Einhvern tíma var hann að vinna við súgþurrkunina á Kálfafelli og þar bograði hann sveittur yfir mótornum að ég held. Svo sáum við flugu skríða á skallanum á honum og þar sem við systkinin voru vön að slá til þeirra, þá spáðum við í að slá til flugunnar sem dundaði sér á hnakkanum á Sigfúsi. Ekki man ég hver var með mér í þessum hugleiðingum sem voru kannski ekki hugsaðar í alvöru, heldur sem eitthvað sniðugt. Flugan fékk að lifa áfram og við gerðum Sigfúsi ekki bilt við.

En sannleikurinn er sá að það er ótrúlegt hvað börn geta lært ef þau eru í návígi við raunveruleikann, eins og til dæmis strákarnir sem tóku strætisvagn og fóru á rúntinn. Eitt sinn bilaði díselolíudælan í fyrstu dráttarvélinni á Kálfafelli. Þeir komu frá Hruna, Elías og Baldvin, og rifu það sem rífa þurfti til að komast að dælunni og lagfæra á henni ákveðna stillingu. Við Stefán bróðir vorum áhorfendur að þessu og ég veit varla hvort mitt nef eða nef þeirra Elíasar og Baldvins komu nær þessu hjarta dráttarvélarinnar meðan verkið stóð yfir. Svo var vélin sett saman á ný og gekk svo eins og klukka.

Einhverjum mánuðum síðar gaf dælan sig aftur. Þá ræddum við Stefán um það hvort við gætum gert þetta sjálfir og svo gerðum við það sjálfir. Það voru margar skrúfur og rær að leggja til hliðar og margir smá hlutir sem þurfti að losa. Svo lagfærðum við stillinguna og settum saman á ný. Dráttarvélin gekk svo eins og klukka. Ég held að ég fari rétt með að þetta gerðum við tvisvar sinnum. Núna get ég skipt milli vetrar- og sumarhjóla undir bílnum, bætt vökva á rúðupissið og hugað að mótorolíunni. Svo er það upptalið.

Fyrir nokkrum árum áttum við Renó laguna. Ég hélt um tíma að þetta gæti orðið bíll sem við ættum lengi. Svo var eins og ýmislegt væri farið að gefa sig samtímis og ég varð mjög óöruggur. Ég fór því á Volvóverkstæðið í Örebro og sagði við bílasalann Carl-Henrik að ég væri í vandræðum með bílinn. Við vorum þá orðnir svolítið kunnugir. Við látum Leif líta á bílinn sagði Carl-Henrik og litlu síðar fór Leif með bílinn inn á lyftu og skoðaði hann nákvæmlega. Leif þessi var mjög traustvekjandi maður og þó að hann ynni jú fyrir Volvó taldi ég að ég gæti ekki annað en treyst honum. Svo settist ég í mjúka skinnklædda stóla sem eru gerðir fyrir þá sem bíða.

Eftir einhvern klukkutíma gekk Leif ákveðnum skrefum þvert yfir gólfið í bílasalnum og stefndi á skrifstofu Carls-Henriks. Ég gekk röskum skrefum í veg fyrir hann og spurði hvernig honum hefði litist á bílinn. Leif stoppaði þarna mitt á gólfinu, horfði á mig ofan frá og niður og svo upp aftur. Svo sagði hann stillilega en ákveðið: Ég sé að þú ert enginn maður sem liggur á bílskúrsgólfinu og gerir við bíla. Losaðu þig við bílinn strax og láttu einhverja stráka um að halda honum gangandi. Þeir hafa gaman af því og hafa ekki efni á að kaupa nýrri bíla. Þann dag ákváðum við í samráði við Carl-Henrik að kaupa okkar fyrsta nýja bíl.

Nýr yfirmaður í Vornesi sagði frá því um daginn að hann hefði verið búinn að kaupa nýjan farsíma. Hann settist niður heima til að stilla símann eins og hann vildi hafa hann, dagsetning, letur og hitt og þetta annað. Hann byrjaði að lesa leiðbeiningabókina og pikka þess á milli á símann með vísifingri. Pabbi, sagði tólf ára gömul dóttir hans, láttu mig hafa símann aðeins. Svo tók hún símann og framkvæmdi allar stillingarnar fyrir pabba sinn með þumalfingri, án þess að lesa eitt einasta orð taldi hann. Svo rétti hún pabba sínum símann og sagði: Gerðu svo vel, hann er tilbúinn.

Og tveggja ára barnabarnið Hannes Guðjón er farinn að velja sjálfur barnamyndir á I-Pad. Það eru líka margir mánuðir síðan hann tók ryksugusnúruna þegar ryksugan fór ekki í gang og gekk með hana að næsta tengli. Það verður ekki langt í að hann fari að draga okkur afa og ömmu að landi þegar við ströndum með tölvuna okkar.

Það ef margt sem ég gerði áður sem mér finnst ég alls ekki kunna í dag. Hins vegar geri ég líka hluti í dag sem ég var alls ekki fær um áður og mér finnst ég gera afar mikilvæga hluti í dag sem voru mér algerlega huldir áður. Eitt sinn hitti ég enskan miðil og sú kona sagði mér furðulega hluti. Kannski ég ætti að blogga um það áður en ég verð gamall maður.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0