Tré falla

Það var hérna um árið þegar við Valdís vorum að brenna greinar og hrís á lóðinni hjá okkur að við tókum allt í einu eftir því að það var farið að rjúka út úr mikilli holu á stóru björkinni eins og við kölluðum hana. Stóra björkin hafði 70 sm breiðan stofn, en hún var alls ekki há í hlutfalli við gildleikann. Það hefur nú eflaust brotnað ofan af henni fyrir einhverjum áratugum. En aftur að reyknum. Í rúmlega mannhæð var stór hola inn í stofninn þar sem grein hafði brotnað af og svo hafði sárið fúnað. Þessi hola var oft þurr innan og var það þennan ákveðna dag. Það lék enginn vafi á því að það hafði komist neisti úr eldinum hjá okkur inn í holuna og eldur var í þann veginn að kvikna þarna inni.

Þetta varð til þess að við fórum að hugleiða í alvöru hvort það væri í lagi að láta þetta tré standa þótt sterklegt væri. Þó að stofninn væri gildur var holan mjög víð og veikti stofninn og ómögulegt að vita hversu mikið. Arnold bóndi komst í þetta ráðslag hjá okkur og taldi ekki skynsamlegt mað láta björkina standa. Það varð samkomulag um að hann útvegaði mann sem hafði atvinnu af því að fella stór tré í görðum til að aðstoða við verkið. Þessi björk var ekki fyrir leikmenn, það var öllum ljóst. Arnold sagðist líka skyldi koma með dráttarvél með spili til að að stoða.

Ráðagerðir
Hér eru menn svo mættir til leiks. Lengst til vinstri gefur að líta sjálfan Guðjón inn við beinið, þar næst er það Arnold bóndi, maðurinn á bláu peysunni er Jonas sonur Arnolds og vígalegi maðurinn sem við sjáum aftan á er fagmaðurinn sem er þarna að ganga frá sérstakri stífu sem á að meðverka til að tréð falli þangað sem ætlast er til.

Nú hallar undan fæti
Fólk vill ógjarnan fella svona tré en stundum er það nauðsyn. Eiginlega var ég alltaf í svolitlum vafa og ég man vel að þegar tréð var í fallinu að ég hugsaði; nú er of seint að skipta um skoðun. Eftir á að hyggja, þá var nú einfaldlega svolítil hreinsun að þessu. Tréð var allt of stórt til að standa svo nærri húsinu. Það skyggði á nánast hálfan himininn og nágrennið líka. Og ef það hefði fallið á húsið í veðri eins og í nótt hefði mikið gengið á.

Fyrir áratugum voru svona stór tré hér á svæðinu notuð sem leiðsögupunktar að flugvellinum. Sólvallabjörkin hefur varla verið komin í þann stærðarflokk þá, og nú á tímum er það önnur tækni sem lóðsar flugmenn að flugvöllum. Þegar þessu verki var lokið og að saga greinarnar af og safna í haug, bauð Valdís af mikilli rausn upp á kaffi og með því. Jónas var sendur heim til að sækja fjölskyldu sína og svo var margt um manninn og kátt í stofunni hjá Valdísi.

Þessar myndir vistaði ég á blogginu fyrir mörgum vikum en er löngu búinn að gleyma hvað ég ætlaði að gera við þær. Þessi bægslagangur í veðrinu varð svo til þess að ég tók þær í gagnið. Og að sjálfsögðu; ég er búinn að nota þessar myndir áður, fyrir nokkrum árum.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0