I dag læðist ég svolítið á tánum

Valdís hefur verið slæm í bakinu í nokkra daga eða þannig að næturnar hafa verið erfiðar. Meðan hún hefur verið á rölti hefur hún ekki kvartað svo mikið, en ég hef heyrt stunur og óróleika á nóttunni sem hefur verið til vitnis um að ekki er allt sem skyldi. En í dag vona ég að það verði þáttaskil. Hún var nefnilega hjá honum Magnus Eliason naprapat, eða hnykki, eða hvað það nú heitir. Magnus er galdramaður og hann nuddar sjálfur eða lætur nudda fyrir sig og svo hnykkir hann og teygir á og það brakar í liðum og kannski stynur fólk, en þegar fólk stynur er Magnus þegar búinn að framkvæma galdrabrögð sín þannig að það eiginlega tekur ekki að byrja á því að stynja. Hins vegar þegar hann fer með fingur inn á milli vöðva er það kannski ekki svo sérstaklega notalegt en það virðist borga sig að taka þátt í þessu. Það skilar árangri.

Við byrjuðum á því að fara með bílinn í þjónustu hjá Ford inn í Marieberg. Þaðan fórum við á einnhverri svo ótrúlega pínulítilli Ford pútu sem verkstæðið lánaði okkur og þaðan inn í kjallarann í Krämaren sem er eiginlega hjartað í miðbænum í Örebro. Upp á jarðhæðinni þar fékk Valdís sér kaffibolla en ég hringdi í hann Hans sem á heima á næst efstu hæðinni í Krämaren. Hans er ellilífeyrisþegi eins og sumir aðrir og býr einsamall í íbúð þarna uppi. Ég bauð honum að koma niður á jarðhæðina og sitja yfir kaffibolla meðan Valdís væri hjá galdramanninum. Innan tíðar var Hans kominn niður á jarðhæðina og við fengum okkur girnilegar rækjubrauðsneiðar en Valdís fór yfir eina götu og eitt torg og var þá komin yfir til hnykkjarans.

Þarna sátum við Hans í góðu yfirlæti og töluðum um aksturslag fólks, hættur sem finnast á vegunum, bíla, húsbyggingar, fallega staðsetningu Sólvalla, stórkostlega náttúru og svo töluðum við heimspekilega um lífið sem við fengum að gjöf. Stanslaus straumur af fólki var þarna á ferðinni kringum okkur, fólki sem var á ferðinni milli ólíkra verslana sem nóg er af í Krämaren. Þetta fólk fór sér rólega, virtist ekki ana að neinu og það var bara notalegt að sitja þarna og vera mitt í erli dagsins. Hefðum við Hans mátt velja hefðum við slökkt á tónlistinni sem án afláts hélt áfram í einhverjum ósýnilegum hátölurum. Þó að hún væri alls ekki hátt stillt var hún frekar farin að þreyta okkur þegar setan þarna var farin að halla á annan klukkutíma.

Svo kom Valdís. Hún var frekar föl og virtist ekki hafa slappað eins vel af og við Hans. Það var vont! sagði hún. Svo kvöddum við Hans og héldum heim á litlu Ford pútunni. Þegar heim kom fékk Valdís sér súpudisk og lagði sig svo. Það var þess vegna sem ég hef læðst um á tánum því að nú lá hún hreyfingarlaus og ég heyrði aðeins hægan jafnan andardrátt. Það er eins og ég segi; hann Magnus Eliason er æði mikill galdramaður. Hann er líka vaxtarræktarmaður og ósköp þægilegur sem slíkur.

En í gær vorum við á revíu í Fjugesta eins og fram kom í gær. Við urðum býsna hugfangin af því sem þar fór fram. Að vísu var ekki hlaðborð með revíunni eins og ég sagði í gær, heldur voru bornir fram matardiskar í tveimur áföngum, fyrst með köldum réttum og svo með heitum réttum, og kaffi í þriðja áfanganum. En þar á milli voru flutt sekmmtiatriði án afláts. Þessi skemmtiatriði voru allt frá gríni upp í andlegheit, blönduð saman á undravert fínan hátt þannig að skiptin þar á milli voru eins og mjúk undiralda á hafi úti þar sem alls ekki hvítnar í báru. Við byrjuðum að borða af fyrri matardiskinum tíu mínútur fyrir klukkan sjö og síðasta skemmtiatriðinu lauk tíu mínútur fyrir ellefu.

Það var vel haldið á spöðunum þar. Þarna komu einungis fram heimafundnir hæfileikar sem starfa þarna fyrir ánægjuna eina, svona rétt eins og fólk gerir hjá leikfélögunum íslensku. Samt kom þarna fram fólk sem dansaði fallega dansa, flutti grínþætti, talaði saman um andleg málefni og söng með afbrigðum vel Amazing grace, Helga nótt, Ave Maria ásamt mörgu, mörgu öðru. Ég held að ég geti lofað því að Valdís kvartaði ekki undan lélegu baki þá fjóra tíma sem þessi atriði stóðu yfir. Þegar við lögðum af stað heim á leið sagði hún: Við þurfum að gera þetta oftar. Já, sem ellilífeyrisþegar eigum við að geta látið eftir okkur að gera svona oftar.


Að lokum er að finna hér fyrir neðan svolítið um Krämaren í Örebro, gert sérstaklega fyrir þá sem verða hér á ferðinni á næstunni.


Krämaren er tvær 16 hæða háar íbúðablokkir og undir þeim er mörg hundruð fermetra stórt verslunarhúsnæði á tveimur hæðum. Ofan á verslunarhúsnæðinu, umhverfis og milli íbúðarblokkanna er stór, ótrúlega fallegur skrúðgarður sem engum getur dottið í hug að þar sé að finna. Það er einungis Hans að þakka að við vitum um þetta og að við höfum komið þangað.



Kremarinn séður frá öðru sjónarhorni og áhersla lögð á að þar er verslanir að finna.


Verslunargluggi á jarðhæðinni eins og hann getur litið út í jólamánuðinum.
Ég er enginn tölvusnillingur eins og ég hef oft sagt. Þessar myndir bera keim af því. Fyrst ég gat ekki haft þær stærri hefði ég gjarnan viljað skrifa til hægri við þær en það gat ég ekki heldur.

Nú er klukkan á sjöunda tímanum og ég er búinn að sækja bílinn. Eftir að hafa ekið litlu Ford pútunni fann ég vel hversu góðan bíl við eigum. Þegar ég kom heim var hér eldhress kona á stjái og hún gat ekki annað en dáðst að hinni góðu heilsu sinni og hversu mikill munur þetta væri. Hann Magnus er alger snillingur talaði hún um. Já, það er mikil gæfa að það er hægt að finna svona galdramenn.

Þegar sem best var í sumar virtist veturinn víðs, víðs fjarri. Nú er hann kominn með sínum skammdegisdögum og nú örlar á snjókomu. En svo skrýtið sem það nú er, þá einhvern veginn er það allt í lagi. Helsti annmarkinn er að þurfa að aka til og frá vinnu og að þurfa að skilja Valdísi eina eftir heima. Fyrir mitt leyti get ég ekki sagt að ég sé farinn að hlakka til sumarsins en ég veit að sú tilhlökkun mun gera vart við sig innan fárra vikna. Ég veit líka af gamalli reynslu að þegar snjór verður yfir öllu og frostið hrímar í trjánum, þá mun ég hugsa með mér; hvort er fallegra þetta eða góðir, grænir sumardagar. Það er alveg spurning, en eitt er víst; sumardagarnir eru svo yndislega notalegir.


Kommentarer
Auja

Ó hvað ég sakna þessa staðar mikið, vonandi kíkir maður á næsta ári kveðjur á ykkur hjón

2011-12-06 @ 13:03:53


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0