Litlujól í Stokkhólmi

Um hádegi á sunnudag lögðum við Valdís af stað til Stokkhólms til að halda þar litlu jól hjá Rósu og fjölskyldu. Að segja frá ferðinni sjálfri er kannski að við það að vera einum of mikið af því góða, en samt. Það er staður um 85 km vestan við Stokkhólm, Hummelsta, sem við Valdís höfum heimsótt oft þegar við höfum verið á þessari leið, ef við ekki heimsækjum stað sem er mun mikið nær Örebro. Eftir að við lögðum af stað ákváðum við að heimsækja staðinn Hummelsta, þann sem er nær Stokkhólmi, og auk þess að fara á snyrtinguna að fá okkur eitthvað í svanginn. Það hefur til dæmis verið hægt að fá þar brauðsneiðar með ekki minna en heilu eggi ofan á og svo upp undir fimm sentimetra lag af rækju þar ofan á ásamt fleiru góðgæti. Ég hlakkaði til.

Þegar við nálguðumst Hummelsta töluðum við um hvernig þar mundi vera útlits, en það var nefnilega búið að leggja hraðbraut þar framhjá, hraðbraut sem við einmitt ókum eftir nú, og svo er afleggjari heim að staðnum. Og nú kom afleggjarinn og við út á hann og svo komum við heim til Hummelsta. En -hvað nú! Það var búið að loka og setja keðjur í báðar innkeyrslurnar og allt leit kalt og myrkt út. Ég sá fyrir mér hvernig við hefðum annars setið þarna í rólegheitum, ég búinn að setja hálfan sykurmola út í kaffið og síðan hefðum við bara setið þarna með brauðsneiðarnar okkar horfandi dreymnum augum langt út í bláinn, á ekki neitt, bara vera til og hafa það gott. Nei! það verður ekki oftar, það var liðin tíð. Söknuður.

Við komum síðan við á stað 20 km síðar og bæði í spreng. Eftir ferðina á snyrtinguna fengum við okkur pylsur því að hér var um gríðarlegan gæðamun að ræða. Ég setti of mikla tómatsósu á mína pylsu og hún lak á borðið og hálf fyllti servíettuna og rann út í hendina á mér. Þetta var ekkert gaman. Svo fékk ég mér kaffi sem leit út fyrir að vera helmingurinn mjólk þangað til það var búið að setja sig. Svo drakk ég það án þess að langa í það og áður en ég var búinn með það var Valdís farin að bíða úti við bíl. Ennþá meiri söknuður. Þeir fluttu Staðarskála þegar vegurinn í Hrútafirði var fluttur niður á eyrarnar. Svo hefur líka verið gert í Svíþjóð. En þeir fluttu ekki Hummelsta.

Þegar við komum á Celsíusgötuna í Stokkhólmi og við sáum fjölskylduna þar og Hannes í fullu fjöri, þá gleymdist Hummelsta og ég hugsaði ekki út í þetta fyrr en núna þegar ég settist við bloggið. Hannes hljóp í kringum okkur og sýndi okkur dótið sitt og við lögðumst á gólfið og lékum okkur með leikföngin hans. Síðast þegar við vorum þar gaf amma hans honum mjúkan hestshaus á skafti. Svo barði hann mig með hestshausnum og við hlógum báðir svo að við vorum við það að pissa á okkur af hlátri.

Núna vildi hann að við færum aftur að hlæja og sótti lítinn harðan leikfangahest og barði mig með honum og vildi auðvitað að við færum að hlæja. En það gegndi svolítið öðru máli. Það var nefnilega ekki svo notalegt að fá mjóan, harðan hestsfót í handlegginn og það varð enginn hlátur af því. En lítill drengur er ekki nógu gamall til að átta sig á svona skrýtnum hlutum. Í staðinn fórum við svo í eldingaleik og hlóum mikið að því. Það er nefnilega hægt að hlaupa í hring þarna heima og þegar afi sneri svo við og mætti nafna sínum, þá var það rosalega hlægilegt. Það er eflaust gott að vera rúmlega tveggja ára, alla vega þegar allt gengur vel.

Í gær var svolítill jóladagur hjá okkur. Ég verð nefnilega að vinna helling á næstunni og vinn til dæmis á aðfangadagskvöld, og nú örugglega í síðasta sinn. Lambakjöt er ekki svo venjulegt í Svíþjóð en Rósa og Pétur höfðu fundið úrbeinað lambalæri einhvers staðar í verslun. Þegar þau voru búin að fara höndum um það og matreiða í ofni -ja, þá varð það afbragðs gott get ég lofað. Það var jólamatur. Svo fengu amma, afi og Hannes að taka upp sinn pakkann hvert. Svo var eltingaleikur á ný svolitla stund og meira dót skoðað og litlujóladagurinn leið fljótt. Já, og ekki má gleyma því að þetta fína jólatré var sett upp og skreytt. Þetta voru engir stórir hlutir en þetta var fínn dagur.

Í morgun byrjaði venjulegur dagur, Rósa og Pétur að vinna og Hannes í leikskóla. Við Valdís smávegis að bauka þarna heima og svo lagði ég af stað upp úr hádegi. Þegar ég lagði af stað fór Valdís ein í bæinn í miljónaborginni til að kaupa stoppnál. Svo verður hún í Stokkhólmi um jólin. Ég heimsótti Rósu og Pétur á vinnustað þeirra á leiðinni í bílinn sem ég geymdi í bílageymslu í nágrenninu og svo hófst þægileg ferð áleiðis til Krekklingesóknar. Áður en ég byrjaði að skrifa þetta las ég svo jólabréfið frá Valgerði.

Ekki tókst mér betur til en svo að myndirnar urðu helmingi minni en ég ætlaði mér. En kvöldið líður hratt og þær verða að vera svona að þessu sinni.


Þessi mynd er nokkurra daga gömul og það eru piparkökur sem þau mæðginin Rósa og Hannes Guðjón eru að sýsla við.


Við nafnarnir eru þarna að skoða dót.


Hannes Guðjón og amma að hafa það notalegt.



Váááá, komin ljós á jólatréð.



Það var mikil og spennandi veisla að komast í þessa jólaskrautskassa og við nafnarnir erum báðir með svuntur svona til tilbreytingar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0