Í Örebro og Lekebergshreppi

Hún Auður kommenteraði síðasta bloggið mitt þar sem ég birti myndir frá miðbænum í Örebro og hún segist sakna þessa staðar mikið. Hún sagði líka að hún ætti von á því að verða á ferðinni hér að sumri. Það auðvitað er bara rosalega gaman að eiga von á heimsókn þeirra hjóna, Auðar og Þóris, þar sem það er eiginlega orðinn hluti af sumrinu að fá þau í heimsókn. Þetta gerði það að verkum að ég safnaði saman nokkrum myndum frá Örebro og nágrenni til að freista þeirra ennþá meira og tryggja þar með eins og hægt er að fá þessa árvissu heimsókn að sumri. Og ef mér tækist að freista einhverra annarra þar að auki væri það til mikillar ánægju.

Þessi mynd er ekki frá Örebro, heldur frá Lekebergshreppi í Örebroléni, sveitarfélaginu sem Sólvellir tilheyra. Þessi mynd er dæmigerð fyrir landslag og náttúru í Lekebergshreppi, en sumir kalla þetta landslag draumlínulandslag. Á milli skógareyja og skógarfláka, minni og stærri, eru gríðarleg akurlönd. Ég er ekki meiri snillingur en svo að mér tókst ekki að hafa myndina stærri.

Útsýni til suðurs frá Sveppinum (Svampen) í Örebro. Sveppurinn er 58 metra há svepplaga bygging sem ber uppi 3200 tonn av neysluvatni fyrir Örebro. Aðeins til hægri við miðju sér eftir endilangri Drottninggatan og Storgatan í áttina að Krämaren sem ég bloggaði aðeins um í síðasta bloggi. Tvær kirkjur, Olaus Petri kirkjan og Nikolai kirkjan eru sín hvoru megin við Drottninggatan/Storgatan og í þeim er notalegt að fá sér sæti þegar ekki er of mikil erill í þessum kirkjum. Við Ottó, vor gamli granni frá Hrísey, höfum slappað aðeins af saman í Nikolai kirkjunni sem er kirkjan til hægri.

Í Sveppinum er upplagt að láta taka af sér myndir með barnabörnumum sínum, til dæmis þegar barnabarnið heitir Guðdís Jónatansdóttir og er frá Vestmannaeyjum.

Svo skreppum við bara út í sveit og fáum okkur hressingu á Sólvöllum, 15 km suðvestan við Örebro, og þá höfum við þetta útsýni frá matarborðinu, eða frá borðinu sem stundum stendur undir vesturveggnum.

Eftir hressinguna hjá Valdísi á Sólvöllum förum við til baka inn í Örebro og við stefnum á Borgargarðinn þar (Stadsparken). Við höfum með með okkur kakó á brúsa frá Valdísi og brauðsneiðar í boxi vegna þess að við ætlum að vera lengi. Borgargarðurinn í Örebro fékk nýlega tilnefninguna fallegasti borgargarður í Svíþjóð. Þar er margt að sjá.

Svartáin rennur meðfram Borgargarðinum og eiginlega í gegnum hann að hluta. Göngustígar eru báðu megin árinnar og sums staðar eru eyjar í ánni. Svartáin rennur nánast gegnum miðbæinn í Örebro.

Það er sem sagt margt að sjá í Borgargarðinum í Örebro og snilldarlega farið að því að mynda ólík svæði innan garðsins.

Og áfram, blóm og runnar og tré með veglegar krónur. Það eru næstum endalausar breiður af blómum í hinum ólíku deildum þessa garðs. Það er hægt að rölta um, stoppa, setjast niður og velta heimspekilega vöngum og svo er nestið frá Valdísi búið og kvöldið á næsta leyti.

Þá er bara að fara á Sólvelli aftur og grilla í kvöldsólinni, síðsumarskvöldsólinni sem sjá má á myndinni. Tignarlegar bjarkirnar leggja langa skugga yfir flatirnar móti austri og svo verður það í hina áttina að morgni.

Svo er hægt að tala um liðinn dag í Örebro og alveg rétt, þarna rennur Svartáin framhjá Skäbäck þar sem hún Valdís vann einu sinni. (Þessa mynd setti ég inn eftir að ég uppgötvaði að ég hafði notað mynd frá Svartån í Västerås sem ég hélt að væri frá Svartån í Örebro)

Og svona getur það litið út á lygnum björtum haustdegi við Járntorgið (Järntorget) í Örebro.

En Sólvellir halda áfram að kúra undir skógarjaðrinum og láta sér annt um íbúa sína eins og íbúarnir láta sér annt um húsið sitt.

Húsmóðirin á Sólvöllum sem er Valdís amma fær kærar þakkir fyrir nestið og allar veitingarnar í dag. Líklega losnaði hún við að grilla. Annars er það kannski ekki svo slæmt að Valdís þurfi að þjóna öllum alltaf, en hún er þó tryggðin sjálf sem húsmóðir á Sólvöllum.

En alveg rétt. Gustavsviks golvbana, golfvöllurinn Auðar og Þóris. Honum má ekki gleyma. Handan við golfvöllinn sér í Ladugårdsängen (Fjósengið), en Sörbyängen (Suðurbæjarengið) er þarna aðeins til hægri og sést ekki, bæjarhlutinn þar sem við Valdís bjuggum frá febrúar 1999 til febrúar 2010.

Að lokum. Sumir horfa hátt og hugsa hátt og taka ekki eftir því sem næst er, til dæmis því sem liggur við fætur manns. Litli maðurinn á myndinni sá þarna aragrúa af maurum sem voru óskaplega forvitnilegir. Maurarnir leituðu upp fótleggina á afa og meðan Hannes Guðjón rannsakar maurana slær afi þá ákaft af fótleggjum sínum.

Ps. Nokkrar myndanna eru teknar hingað og þangað af Google og ég sé einu sinni ekki hverjir ljósmyndararnir eru. Ég vona að þeir fyrirgefi mér og allir geti litið á þetta sem svolitla auglýsingu fyrir héraðið.

Några av bilderna har jag tagit från Google och jag vet inte ens vilka fotograferna är. Jag hoppas jag blir förlåten och att man kan se detta som liten annons för trakten.


Kommentarer
Auja

Æi hvað mér þótti vænt um þessa færslu þína. Gaman að ferðast svona um í huganum og þetta skemmtilega blogg kveðjur á hjónakorn.

2011-12-08 @ 15:53:15


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0