Sumt ber mér að forðast

Það lágu pakkar hingað og þangað hér heima í morgun og eftir morgunverð sagði ég að nú færum við með pakkana í póst. Þurfum við noookkuð að gera það núna, sagði Valdís. Af því að hún dró seiminn vissi ég að hún vildi nú helst af öllu gera það "núna". Svo fórum við með pakkana út í bíl og svo til verslunarinnar Colorama í Fjugesta sem sér um pósthúsið þar. Það er svolítið vafstur að senda nokkra pakka til útlanda en svo var það búið og við bæði ánægð.

Þegar við komum heim fórum við beint í að setja ljósalengju upp í hestkastaníutréð sunnan við húsið, ljósalengju sem við keyptun einmitt í Colorama á fimmtudaginn var. Við keyptum tíu m langa ljósalengju og viðeigandi rafbúnað til að geta sett hana upp. Við héldum að tíu metrar væri heil mikið. Svo jókst rigningin sem hafði byrjað áður en við lögðum af stað til Fjugesta og við urðum mátulega blaut. Það var í þetta skiptið eins og venjulega þegar eitthvað verk er tilbúið hér á bæ; að ganga nokkur skref aftur á bak og líta á árangurinn. En það var ekki mikið að líta á, það var bara hallærislegt. Tíu metrar var ekki neitt, neitt. Við meigum nú kaupa tíu metra til viðbótar ef við viljum verða Íslandi til sóma hér í austurbyggð.

Svo dreif ég í því að bera inn nokkra tugi kílóvatta af viði til að nota til upphitunar næstu dagana. Viðurinn sem ég bar inn í dag var að mestu leyti viður úr gamla gólfinu sem við hentum út í snjóinn í byrjun febrúar síðastliðinn. Svo var ekki eftir neinu að bíða. Ég þurfti að setja lausan rofa á lampasnúru, en allt sem viðvíkur rafmagni finnst mér vera fyrir rafvirkja. Samt sem áður sneri ég mér galvaskur að þessu verki og gerði það snyrtilega og svo ég tali nú ekki um að ég gerði það vandlega. Valdís var að strauja þvott og ég bað hana að vera við búna, ég ætlaði að prufa. Svo stakk ég klónni í tengilinn og það kom blossi og ljósin dóu.

Ekkert öryggi hafði slegið út í nýju töflunni okkar svo að ég fór með vasaljós og 16 ampera öryggi út að staur eins og við segjum. Ég skipti um eitt af öryggjunum þar og þar með var rafmagnið komið á. Ég ætlaði að finna tvö krónutengi eins og ég held að þau hafi verið kölluð í gamla daga og tengja endana svo saman án rofa. Samt leit ég vandlega inn í rofann áður en ég byrjaði á því og viti menn. Ég var alveg hand viss um að ég hafði gert rétt en mér sýndist sem svo að smá málmtengi sem hékk við rofann hefði snert tvo póla. Svartur blettur gaf það til kynna.

Valdís, vertu viðbúinn sagði ég öðru sinni og stakk klónni aftur í tengilinn og passaði að þetta tengi yrði ekki til neins skaða að þessu sinni. Og viti menn; það varð ljós en ekki bara blossi. Samt er það nú svo að viss verk eru fyrir rafvirkja en ég á ekki að sýsla við það sem mér fer ekki vel úr hendi. Það er auðmýkt og góður siður að viðurkenna takmarkanir sínar. Sumt fer mér vel úr hendi og annað síður eða illa.

Ég virði það oft fyrir mér hvernig ég bregst við vissum hlutum. Meðan ég var að skipta um öryggið í staurnum hugsaði ég út í það að mér féll ekki einu sinni blótsyrði af vörum þegar rafmagnið fór. Hefði þetta verið fyrir 25 árum hefði ég væntanlega gert það og fundið út að einhverju eða einhverjum væri um að kenna. Ég nennti því ekki í dag. Það er auðvitað ekki þess virði að fara í fýlu út af einu gamaldags öryggi því að þá sýni ég bara að ég hef aldrei orðið fullorðinn. En svo var það nú að ég gat farið í fýlu út af svona hlutum fyrir aldarfjórðungi vegna þess að ég hafði ekki orðið fullorðinn á vissum sviðum. Það var ástæða fyrir því. Ég er vel meðvitaður um það.

Að vísu finnst mér að svo einfaldir hlutir sem venjulegir rofar séu alls ekki eins einfaldir dag og þegar ég var að gera við rafmagnsleiðslu 1954. Þá gat ég líka lent í smá klípu eins og ég lenti í í dag. Ég var tólf ára en vissi þó afskaplega vel að maður klippir ekki tvær leiðslur í sundur samtímis þegar rafmagnið er á. En það var einmitt það sem ég gerði þegar ég var að gera við rafmagnið í hænsnakofann á Kálfafelli 1954. Það kom ægilegur blossi, blossi sem mér fannst líkjast sól á heiðskýrum himni. Mér féllust hendur og varð alveg stein hissa á því að ég skyldi hafa klippt á báðar leiðslurnar samtímis. Kannski var ég samt betri rafvirki þegar ég var tólf ára.

Svo gekk ég inn í bæ. Þá hafði nágrannabóndinn verið að hringja og var undrandi yfir því að rafmagnið hefði horfið eitt andartak, augnabliki áður en hann hringdi. Ég setti upp sakleysissvipinn, ráfaði rólega um húsið og sagði alls ekki frá því að ég hefði verið að gera við rafmagnsleiðslu. Mér var órótt um stund, kannski daglangt. Svo kláraði ég viðgerðina án þess að nokkur veitti athöfnum mínum athygli. Ég var alls ekki óvanur að gera svona smá viðgerðir á og í útihúsum í þá daga, en þá var heimilisrafstöð í notkun á Kálfafelli og tveimur öðrum bæjum.

Það varð einn lítill eftirmáli í framhaldi af þessu. Á þessum árum vann Sveinn bróðir á rafvélaverkstæðinu Volta á Norðurstíg í Reykjavík. Hann átti nokkur verkfæri sem hann geymdi upp á lofti heima og notaði gjarnan þegar hann var á ferð. Þar á meðal var mjög fín og ábyggilega vönduð töng, töng sem ég notaði við áðurnefnda viðgerð. Það brann stórt skarð í töngina þegar ég klippti á leiðslurnar. Svo var Sveinn á ferðinni og var að laga eitthvað varðandi rafmagnið innan húss. Viltu sækja fyrir mig töngina með langa kjaftinum, sagði Sveinn við mig. Ég kólnaði upp. Svo rétti ég honum töngina, hálf stjarfur, en lét ekki á neinu bera. Þegar hann tók við tönginni sagði hann rólega: það hefur einhver verið að rafsjóða. Svo sagði hann ekki meir. Þá þótti mér afar vænt um Svein.

Það var sjálfsagt einum 20 árum seinna sem við Valdís og börn vorum í heimsókn á Kálfafelli. Pabbi bað mig að hjálpa sér eitthvað upp á lofti og við baukuðum eitthvað sem hann langaði að koma í verk. Hann lék á alls oddi og hafði ábyggilega gaman af að við skyldum vera þarna saman að sýsla. Þá datt mér í hug að segja honum frá þesu með töngina sem ég og gerði. Pabbi hló svo mikið að þessu að ég held að ég hafi sjaldan séð hann hlæja svo mikið og innilega. Sérstaklega fannst homum hlægilegt þetta með nágrannabóndann, að hann hafði hringt og hvernig ég hafði reynt að sýna rósemi svo að enginn grunaði mig um græsku.

Ja, hérnana hér. Áður en ég lauk við að skrifa þetta bauð hún Valdís upp á svo góðar lambakótilettur. Lyktin var búin að gera mig svangan þannig að þær urðu ennþá betri fyrir vikið. Annað kvöld förum við á jólaborð og revíu í Fjugesta. Það eru smá viðburðir í sveitinni líka.








Það eru tæpar þrjár vikur fram að vetrarsólstöðum. Litlu síðar fer að birta á ný og svo vorar með lífi og nýjum ævintýrum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0