Um hátíðarnar

Þetta eru nú búin að vera meiri jólin, við gömlu hjónin búin að vera sitt á hvoru landshorni næstum. Ef ég er búinn að taka eitthvað að mér vil ég taka fulla ábrygð á því, og þá getur það farið svo að ég þurfi að vinna um jólin. Þannig kom vinnuskemað mitt út núna í árslok. Ég áttaði mig að vísu ekki á því fyrir fimm mánuðum eða svo að ég þyrfti að vinna aðfangadagskvöld, en svoleiðis var það bara og ég hefði gert það hvort sem ég hefði tekið eftir því í upphafi eða ekki. Svo samdi ég um að flytja eina tvo daga mér í hag og líka að fá frí tvo daga milli jóla og nýárs. Jú, allt í lagi, það gekk vel. En í staðinn komst ég ekki hjá því að vinna gamlárskvöld og fram á nýársdag. Það varð gjaldið fyrir hina dagana.

Nokkrum dögum fyrir jól fórum við Valdís til Stokkhólms þar sem hún ætlaði að eyða jólunum með Rósu og fjölskyldu. Eftir að hafa haldið litlu jól hélt ég heim á leið og svo vorum við viðskila í átta daga eins og ég væri sjómaður í útilegu.


Meðan ég var einbúi sást Valdís kona mín á rölti framan við NK húsið í Stokkhólmi. Auðvitað varð hún að gera eitthvað gott við tímann fyrst ég, kallinn hennar, tolldi ekki heima.


Hún var að vísu ekki ein á labbi. Þarna eru þau tengdamæðgin, Valdís og Pétur, að horfa í búðarglugga og aftur er það NK húsið í Stokkhólmi.


Svo komu jól og þeir feðgar, Pétur og Hannes Guðjón, eru þafna að lesa sundur jólapóst. Eða ég get ekki betur séð en hann nafni minn sé að lesa þarna í alvöru. Þegar þessar þrjár efstu myndir voru teknar var ég ekki viðstaddur.


En milli jóla og nýárs skrapp ég til Stokkhólms, einmitt þá tvo daga sem ég samdu um, og þar hitti ég líflegan mann, hann nafna minn. Ég var búinn að sikta hann svo vel inn á myndavélina og þegar ég smellti af var hann nánast horfinn. Neðarlega til hægri á myndinni má sjá í annan fótinn á honum þar sem hann fer á fullri ferð til annarra verka.


Hannes Guðjón fékk bæði skykkju og kórónu í jólagjöf frá pabba og mömmu. En þar sem hann mátti ekki vera að því að klæðast þessu tók mamma hans það bara að sér að.


Konan þarna á móti okkur fór sér ekki alveg eins hratt og barnabarnið. Rósa og Pétur héldu okkur þessa fínu matarveislu í gær, daginn fyrir gullbrúðkaupsdaginn, þar sem við urðum að fara heim í dag vegna vinnu minnar. Það er kannski hálfgert mont af minni hálfu, en þarna er hún að sýna Pétri hálsmen sem ég gaf henni sem mína bestu viðurkenningu fyrir árin 50.


Svo brá fjölskyldan á leik og tíminn í Stokkhólmi leið hratt. Hannes Guðjón nýtur athygli og öryggis heima hjá pabba og mömmu og hann launar það með glaðværð sinni. Það er alls ekkert æði á honum, en hann er atorkusamur og glaðvær.


Svo var komið að kveðjustund í Celsíusgötunni á Kungsholmen í Stokkhólmi. Valdís tók þessa mynd af mér með fjölskyldunni og svo tók ég mynd af henni með fjölskyldunni en sú mynd varð hreyfð þannig að ég gat ekki notað hana.

Ég hefði viljað blogga um þetta og ýmislegt annað af meiri innlifun, en nú verða aðrir hlutir að ganga fyrir. Til dæmis að hvílast fyrir vinnu morgundagsins. En eftir áramótin þegar ég á allan tíma sem fyrirfinnst í tilverunni, þá er aldrei að vita hvað skeður.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0