Tími fyrir trú, íhugun og alvöru

Það eru tæp fjörutíu ár síðan við við fluttum frá Bjargi í Hrísey í Sólvallagötuna. Á Bjargi lagðist ég alltaf á hnén til að skúra og skrúbba eldhúsgólfið fyrir jólin og hafði bitlítinn hníf við hendina til að komast vel í öll horn svo að ekki hin minnstu óhreinindi skyldu geta orðið eftir þar. Eftir að við komum í Sólvallagötuna held ág að ég fari rétt með að þetta var ekki eins árviss athöfn af minni hálfu fyrir jólin og ekki heldur eftir að við komum hingað út. Ekki það að það hefur verið skúrað fyrir öll jól, en kannski ekki verið eins árvisst að ég gerði það og ekki heldur að það væri gert af sömu, nánast yfirdrifnu natni.

En viti menn! Í dag hef ég skúrað öll gólf! á Sólvöllum af sömu natni og ég skúraði eldhúsgólfið á Bjargi fyrir löngu, löngu síðan. Að vísu eru gólfin á Sólvöllum ekki með jafn mörgum hornum og á Bjargi og gólfdúkurinn í eldhúsinu á Bjargi var fastheldnari á óhreinindin en parkettgólfin á Sólvöllum eru. Skúringaáhöldin eru líka betri og komast betur út í hornin. En stólar og borð og annað það sem stóð á gólfunum hér flutti ég úr stað, utan stærri húsgögn, þannig að nánast enginn blettur komst undan skúringaamstri mínu og hreingerningarlegi. Og svo; -ég var ekki fljótur- en það er búið.

Valdís fylgdist með gegnum síma og þó að hún sé stödd í miljónaborginni veit ég að hún hefur ekki setið auðum höndum heldur. Ég veit að seinni partinn í dag fór hún út í pósthús til að sækja pakka. Hún er dugleg í fjölmenninu hún Valdís þó að hún komi úr fámenni, það verður ekki frá henni tekið.

En aftur að skúringunum. Það er til nóg af diskum með jólalögum hér heima og ég veit líka að það var verið að lesa jólakveðjur á Íslandi sem ég gat hlustað á. Ég hugleiddi þetta svolitla stund en tók svo ákvörðun. Ég ákvað að hlusta á sama lagið allan daginn, lagið Kyrrð, sama lagið og hirðingjarnir á Betlehemnsvöllum hlustuðu á fyrir 2000 árum þar sem þeir í kvöldhúminu gættu hjarðar sinnar í kyrrðinni undir berum himni. Fyrir mér eru jólin tími fyrir hátíð trúar þó að dagurinn sé kannski alls ekki nákvæmlega fæðinardagur Jesú.

Tími til íhugunar -kannski það líka. Ég er alla vega búinn að fara yfir margt í huganum í kyrrðinni hér heima á Sólvöllum í dag. Vegna þess að ég hugsaði út í skúringuna á Bjargi fyrir fjörutíu árum og meira er ég líka búinn að hugsa til þeirrar fjölskyldu sem þar bjó þá. Það kom skarð í hópinn. Í kyrrðinni koma hlutirnir skýrast fram; tillit, svipbrigði, minningar, orð sem betur hefðu verið ósögð, loforð sem betra hefði verið að efna. Það þarf kjark til að hlusta á lagið Kyrrð heilan dag. En það voru líka tímar fyrir samveru, bros, hlátur, gleði og góðar upplifanir sem aldrei gleymast. Loforð voru líka efnd og hlutir gerðir saman.

Ég var á leiðinni heim úr vinnu í hádegismat eins og þá var gert. Þegar ég kom í beygjuna hjá Ölduhúsi sá ég gjarnan þrjú börn koma út um hliðið á Bjargi og tvö þau stærri tóku það minnsta á milli sín. Svo hlupu þau á móti mér svo hratt sem það minnsta leyfði. Mitt hlutverk var að leggjast á annað hnéð og taka svo utan um þau öll í einu þegar við mættumst. Svo vorum við öll glöð. Þegar við komum heim á Bjarg var mamma í eldhúsinu eitthvað að fást við mat. Það var ekki bara á jólunum sem hún gerði það. Hún færði upp á fat alla daga ársins ef svo bar undir.

Tími til íhugunar - tími fyrir alvöru. Ég er sammála öldungnum sem segir að það vanti meiri alvöru í þennan heim. Ef við tækjum sumum hlutum með meiri alvöru, hugsuðum oftar í alvöru og gerðum hluti oftar af alvöru í stað þess að geysast áfram í óhugsuðu algleymi, þá væru skýjabakkarnir við sjóndeildarhringinn oftar bjartir. Ef við hugsuðum af meiri alvöru, hlýju og tillitssemi til þeirra sem eru ólíkir okkur yrði því góða meira ágengt, og -við svæfum betur á nóttunni.

Fyrir mér eru jólin trúarhátíð, tími til íhugunar og tími fyrir alvöru. Ég vona að ég geti staðið undir því. Ég fer í vinnu á morgun og verð með fólki sem farið hefur halloka í lífinu. Það er ekki í fyrsta skipti sem ég vinn með þessu fólki á aðfangadag. Í hádeginu verður matur svo að stóra matarborðið dignar. Mikill og góður matur. Ef að vanda lætur verður þetta fólk afar þakklátt og gengur fram af mikilli hógværð. Eftir matinn fá þau öll jólapakka. Allir pakkarnir líta eins út og það er það sama í þeim öllum.

Þetta fólk, bæði yngra og eldra, tekur varlega við pakkanum sínum, leggur hann á borðið fyrir framan sig og þakkar fyrir sig. Svo opna þau pakkana eitt af öðru og þó að það sé það sama í öllum pökkunum horfa þau hvert á annað og líta á innihaldið hvert hjá öðru. Svo fá þau sér konfekt því að það er konfekt í öllum pökkunum. Eftir einn eða tvo -eða þrjá konfektmola, setja þau lokið á aftur og fara með konfektkassann út á herbergin sín. Svo hringja þau heim, þau sem hafa einhvern að hringja til, og segja frá jólamatnum og jólagjöfinni. Þeir sem hafa verið slegnir nógu oft til jarðar af örlögum lífsins verða gjarnan mjög þakklátir þegar skýjabakkarnir við sjóndeildarhringinn byrja að lýsast upp.

Fyrir mörgum árum þegar ég var að vinna var ungur, írakskur maður nýkominn í húsið. Hann var afar lélegur og ég var að vinna kvöldið. Ég leit oft inn til hans til að vera viss um að allt væri í lagi með hann. Í eitt skiptið þegar ég var að loka hurðinni á herberginu hans kallaði hann á eftir mér; Guðjón, ég elska þig. Ég skildi hann vel. Hann var að segja -á sinn hátt- að hann væri þakklátur fyrir að ég liti eftir honum í öllum þeim ótta og þeirri skelfingu sem hann var að ganga í gegnum.



Myndirnar hér fyrir neðan hef ég notað áður og hér með nota ég þær aftur.

Fjölskyldan á Bjargi í Hrísey líklega frá 1971

Fjölskyldan að Sólvallagötu 3 í Hrísey og húsbóndinn á sokkaleistunum


Sólvallahjónin á góðum degi út í Stokkhólms skerjagarði

Þetta blogg hefði ég gjarnan viljað hafa til lagfæringar í nokkra daga en það er nú bara svo að á morgun eru jól og ég læt það því fara eins og það er. Öllum sem lesa þetta og öllum hinum líka óska ég svo gleðilegara jóla.

Texti dagsins í Kyrrð dagsins segir eftirfarandi:

Hamingjan er að óska þess að í fortíð,
nútíð og framtíð sé allt eins og var,
er og mun alltaf verða-
og biðja ekki um annað.


Úr "Earth Dance Drum"

Ég þarf nú tíma til að sökkva mér niður í þetta ef ég ætla að vera viss um hvað það raunverulega þýðir og líklega lesa mig til um það líka.


Kommentarer
Árný og Gústi.

Elsku mágur og svili.Óskum þér gleðilegra jóla og að þú eigir góða vinnudaga.Guð vaki yfir þér og þínum.Við söknum ykkar og ósk okkar væri að þið væruð nær.En allir ráða sínum næturstað.Heyrumst fljótt kæri mágur og líði þér vel. Var að tala við mína elskulegu systur og var gott hljóð í henni.GLEÐILEG JÓL.Kær kveðja úr Garðabænum.

2011-12-23 @ 22:17:41


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0