Veðurhljóð

Ég kom heim eftir drjúga vinnutörn á meðferðarheimilinu frá klukkan ellefu fyrir hádegi í gær til klukkan tvö í dag með fimm tíma svefni í nótt. Allt samkvæmt venju, en margir í húsinu og því varla augnabliks næði. Ég ætlaði mér þegar ég kæmi heim að skrifa svolítið sem mér hefur legið á hjarta um skeið, en þegar ég kom heim var ég bara ekki fær um að gera það. Ég settist við tölvuna nokkrum sinnum en það bara kom ekki það sem ég vildi segja. Ég eigraði dálítið um, lagði kapal, fékk mér að borða og hitaði mér kaffi en ekkert gerðist. Svo hringdi Valgerður mitt í þessu og ekkert fór í gang við það heldur. Svo lagði ég skriftir á hilluna og hugsaði mér að sofa mikið í nótt og kanna svo í fyrramálið hvort andinn vildi koma yfir mig.

Meðan á þessu stóð sótti Kári í sig veðrið og veðurhljóðið jókst jafnt og þétt á húsinu. Þegar kvöld var gengið í garð fór rafmagnið um stund. Þá kveikti ég á kertum og bætti nokkrum kubbum í kamínuna. Svo kom rafmagnið á ný og ég ákvað að bursta nú og pissa og leggja mig svo. Á leiðinni fram á bað opnaði ég þvottahúshurðina og leit út í myrkrið. Þá skeði eitthvað. Veðurgnýrinn í skógarjaðrinum var gríðarlegur, svo mikill að ég gat alls ekki verið ósnortinn þar sem ég stóð í útidyrunum að húsabaki og nokkuð í hléi við hvassviðrið. Við þetta lifnaði eitthvað í mér en alls ekki það sem snerti fyrirhugaðar skriftir mínar.

Þegar ég lokaði útihurðinni sá ég fyrir mér grenitré. Þetta grenitré stóð eina 25 metra suðsuðaustan við Sólvallahúsið þegar við keyptum það. Það var með sterk grænum slútandi greinum alveg frá toppi og niður í jörð, hreinlega eitthvað fallegasta grenitré sem við höfðum augum litið, milli tíu og tuttugu metra hátt. Við kölluðum það Kápu þar sem greinahafið myndaði svo samfellda kræna kápu sem huldi stofninn að fullu og öllu. Einhvern tíma hafði brotnað ofan af Kápu en hún var þó þráðbein að sjá tilsýndar. Stofninn var mjög gildur miðað við hæðina og greinarnar mjög langar. Já, við vorum stolt af Kápu okkar.

Ég fór í vinnu morguninn eftir að stormurinn Guðrún geysaði í suður Svíþjóð. Ég var ekki alveg rólegur þann dag og þegar vinnu lauk flýtti ég mér á Sólvelli. Þegar ég ók inn um opið á grjótgarðinum sem liggur meðfram veginum, opið sem vísaði beint inn til Kápu þegar ekið var inn um það, þá sá ég mikla og ljóta rótarköku æpa framan í mig. Sterklegar tætur stóðu út úr þessari rótarköku, rætur sem höfðu slitnað í átökunum nóttina áður. Kápa var öll, tignarlega tréð okkar. Fyrst stóð ég afar þögull á lóðinni og horfði á þetta og ég fann fyrir sorg. Svo tók ég upp símann og hringdi heim til Valdísar og ætlaði að segja henni að Kápa væri fallin. Þegar ég ætlaði að segja það varð ég að taka smá hlé þar sem ég fékk kökk í hálsinn og átti erfitt um mál. Svo stundi ég upp; Kápa er fallin. Og Valdís svaraði; neieieiei. Jú, svo var nú það.

Svo gekk ég út í skóginn okkar og taldi trén sem höfðu fallið þar. Ekki man ég hvað þau voru mörg en mér varð ljóst að ég mundi ekki ráða við að taka höndum um þau öll í tíma. Við urðum því sammála um að bjóða honum Lars eldri nágranna okkar að hirða þau til eldiviðar. Hann tók því með þökkum, og hann, vanur skógarmaður, var ekki lengi að annast þetta. Á morgun þegar birtir mun ég ganga út í skóg og athuga hvernig vinum okkar þar hefur reitt af. Ég vil meina að það sé hvassviðri hér við húsið en uppi í þessum trjákrónum er greinilega mikið meiri veðurhæð. Það væri merkilegt ef trén standa öll af sér það veður, ekki síst vegna þess að við höfum grisjað á síðustu árum og þá verða alltaf einhverjir einstaklingar veikari fyrir.

Þá er ég búinn að segja það. Þetta veður er ekkert miðað við það sem ég hef lesið um að hafi verið á Íslandi, en ef ekki væri skóginum til að dreifa væri líka mikið hvassara. Ég er tilbúinn í háttinn en áður enég legg mig mun ég opna útihurðina bakdyramegin og leggja við hlustir. Kannski geng ég aðeins bakvið húsið þar til útiljósið móti skóginum kviknar og kanna hvað ég sé í geislanum. Sólvallahúsið er gott hús og það hriktir ekki einu sinni í því. Ég á von á að sofa mikið lengi í nótt.


Kommentarer
Guðmundur Ragnarsson

Kæru Guðjón og Valdís.

Það er alltaf gaman að lesa pistlana um lífið ykkar í Svíþjóð. Og vegna þess hve dugleg þið eruð að setja inn myndir, finnst manni maður orðið þekkja nokkuð vel til á Sólvöllum. Vonandi verður ekki meiri skaði á ræktuninni ykkar, en þetta er þó það sem náttúran stjórnar og við höfum ekki um að segja og verðum að beygja okkur undir. Gleðileg jól bæði tvö, þið fáið margar hlýjar hugsanir frá Íslandi.

Bestu kveðjur,

Mummi

Mummi.

2011-12-26 @ 13:40:39
Valgerður

Mummi þú þarft bara að leggja land undir fót og heimsækja þau, það er fallegt þarna í kring.

Valgerður

2011-12-29 @ 11:17:22
Guðjón

Já Mummi, það yrði tekið vel á móti þér.



Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2012-01-02 @ 00:03:02
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0