Frá sjötugs afmæli

Ég er nú svo aldeilis hissa. Ég hef ekki komið nálægt bloggnu í sex daga. Samt hefur heilmikið verið að ske og auðvitað er það þess vagna sem ég hef ekki bloggað. Það væri heldur ekki svo skemmtilegt að koma í heimsókn á Sólvöllum ef heimilisfaðirinn lægi þegjandi í tölvunni og skrifaði. En nú eru allir gesti farnir og þögn ríkir yfir heimilinu. Valdís er í hádegismat inn í Örebro með fjórum vinkonum sínum og nú sit ég einn heima og byrja að skrifa við nokkrar valdar myndir. Það er margt sem ég gæti snúið mér að á þessari stundu en ég ætla að eigna blogginu tímann núna.

En aftur um Valdísi. Hún fékk kvef um daginn og virtist verða góð af því aftur mjög fljótt, en nú er hún kvefuð og með leiðinda hósta. Væntanlega hefur hún fengið inflúensuna sem angrar svo marga núna og hefur gert um skeið og margir eru svo lengi að ná sér eftir inflúensuna. Valdís fékk þó ekki hita eins og ég en það er nóg samt. Bæði vorum við bólusett móti inflúensunni sem og margir aðrir sem hafa fengið hana. En nóg um inflúensu núna. Þrátt fyrir þetta hélt Valdís mér afmælisveislu og eitthvað snúllaði ég í kringum hana til aðstoðar, en það var Valdís sem stóð fyrir þessu, þar get ég ekki stært mig af neinu. "Sannleikurinn mun gera yður frjálsa" eru orð að sönnu.

Þegar við komum heim af járnbrautarstöðinni í Kumla upp úr klukkan fjögur þann 13. apríl, Rósa og fjölskylda og Valgerður, þá rétti Valdís okkur kaffikönnuna og kökudunk og sagði okkur að það yrði ekkert meira fyrr en um kvöldmat. Það fór vel á því. Hann nafni minn sem var hér síðast í ágúst í fyrra kannaðist greinilega við sig og hann vissi að undir ákveðnu rúmi var kassi með hluta af leikföngunum hans. Hann dró fram þennan kassa og svo kom hann að borðinu til okkar. Svo voru allir sem heima.

Ég vildi auðvitað mína athygli eins og venjulega og ég náði fólki með mér út í skóg. Samkvæmt myndinni hefur mér tekist að ná þessari athygli og ég hef sjálfsagt verið búinn að blaðra einhver ósköp þegar Rósa tók þessa mynd. Hún var með myndavélina okkar þar sem ég var í frásagnarham. Eftir myndinni að dæma hef ég verið ánægður með lífið á þessari stundu, enda orðinn sjötugur fyrir einhverjum klukkutímum.

Út í skóginum bakvið okkar skóg er einhver stærsta mauraþúfa sem ég hef augum litið, aflöng og mikilfengleg. Eitthvað hafði ég um þúfuna að segja, alla vega að hundur virtist hafa hlaupið eftir henni endilangri. Ef við rýndum í þúfuna mátti vel greina að lífið er komið í gang í henni og í kringum hana. Hún er að byrja að iða.

Prjónaskapur var í gangi og það leystist úr einhverju flóknu prjónamunstri þegar Valgerður lagðist á eitt með mömmu sinni við að leysa þann hnút. Það var fyrir löngu sem Valdís lagðist yfir þessa gátu og nú allt í einu þegar þær lögðust á eitt með sína langvinu prjónareynslu, þá leystist hnúturinn.

Nú hefur Rósa ekki sést á þessum myndum en hún var hér þó allan tímann, en það var bara hún sem tók flestar myndirnar. Þetta var uppstillingarmynd með Kilsbergen í baksýnm þó að þau sjáist nánast ekki. En það virðist alla vega vera gaman og það var fyrir öllu. Svoleiðs eiga afmæli að vera.

Svo kom Stína nágranni til að taka myndir af fjölskyldunni sem kom saman í tilefni af sjötugsafmælinu mínu þannig að allri gætu verið með. Fyrst var það hrein uppstilling og Pétur hélt þá á honum nafna mínum. Mér fannst ég vera bjálfalegur á þeirri mynd og á þeirrri næstu var nafni minn kominn í einhvern hnút þar sem honum leiddist að vera í uppstillingu. En einmitt þá fór þetta að vera svolítið eðlilegt. Hannes er þarna að sýsla við sitt í vagni frá nágrönnunum, Valgerður frænka er honum til aðstoðar og Rósa mamma fylgist með. Við erum því bara þrjú sem erum eftir í uppstillingu. Svo er eitt; mér sýnist maðurinn þarna lengst til vinstri vera eitthvað í líkingu við að vera óléttur. Einhverja kúlu er hann alla vega með á maganum.

Svo kemur að kveðjustundum og þeim fylgir gjarnan tregi. Valgerður fór fyrst. Hér standa þær mæðgur á járnbrautarstöðinni í Kumla. Þær eru svo sem ekkert tregablandnar á svip stelpurnar, en þær virðast ánægðar og yfirvegaðar. Valgerður fór á þriðja í afmæli.

Stína nágranni verður að vera með í þessu afmælisuppgjöri. Hún kom til að taka myndir og hún var mætt með dætur sínar þegar fyrir hádegi á afmælisdaginn minn til að óska mér til hamingju. Alma situr á hné hennar og Siw fylgist með einhverju sem er í gangi frammi við útidyrnar.

Þarna situr Valdís svo með góðum hópi. Fimm fulltrúar starfsfólksins í Vornesi kom nefnilega á mánudeginum eftir afmælið mitt, eiginlega á fjórða í afmæli. Vænt þótti mér um að fólkið mitt kom og ég verð líka að segja að mér þótti vænt um að þetta fólk kom. Ég ætla ekki að fara að telja upp afmælisgjafir en get þó ekki látið vera að segja að Vornesfólkið færði mér tvö eplatré og tvo brómberjarunna. Valdís mátti virkilega vera stolt yfir því sem hún bar á borð fyrir þetta fólk. Næst Valdísi á myndinni situr hún Annelie hjúkrunarfræðingur í Vornesi, við hlið hennar Birgitta forstöðumaður fyrir stóru heilbrigðisapparati í Södermanland og við gluggann situr svo Erik staðarhaldari í Vornesi. Hægra megin og við gluggann situr Ove prógramstjóri, sá sem tók við af mér, og svo situr hún þarna hún María ráðgjafi.

Nú! Var þetta allt! og það var sjötugsafmæli. Já, á vissan hátt má segja að þetta var allt. Það var ekkert stórbrotið, engin hótel eða dýr veitingahús. Það var einfaldur afmælisdagur og eiginlega fleiri en einn dagur en ekkert stórbrotið eða magnað. Og þó. Fólkið á myndunum virðist vera í góðum málum og á flestum myndunum virðist beinlínis glatt á hjalla. Málið er nefnilega fyrir mína parta þannig að þetta var gott afmæli. Ég þakka öllum fyrir sem komu, einnig þeim sem sendu einhvern glaðning eða kveðjur.

En hvar eiginlega er hann nafni minn? Jú, ég er búinn að vista nokkrar myndir inn á annað blogg sem er í vinnslu og það blogg er tileinkað honum nafna mínum og brottför hans. Þau fóru ekki fyrr en á fimmta í afmæli.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0