Gestakoma

Það verður næstum fjölskyldimót á Sólvöllum á morgun. Valgerður mætir til Svíþjóðar á morgun og svo koma þau öll saman með lest frá Stokklhólmi um miðjan dag, Valgerður, Rósa, Pétur og Hannes Guðjón. Og hvað svo? Jú, Valdís hefur unnið að því að við fáum afmælisveislu í tilefni af sjötugasta afmælisdeginum mínum. Þar sem ég sit hér nú finnst mér sem hún hafi gert allt og ég hafi bara verið áhorfandi. Ég veit að það er ekki alveg rétt en þó einhvern veginn finnst mér þetta.

Vorverkin drógust öll á langinn, eiginlega allt frá því að eldiviður næstkomandi missera var kominn heim að húsi fyrir einum mánuði. Ég ætlaði að vera búinn að gera svo mikið fínt hér í kring og svo ætlaði ég að vera svolítið eins og haninn á haugnum þann 13. apríl og vera harla glaður og stoltur. Ég verð að vísu bæði glaður og stoltur en á annan hátt en til stóð. Í gær kom hérna maður sem býr í sveit eina 25 km héðan. Það er maðurinn sem keyrir um á stórum tankbíl og hreinsar frárennslisþróna einu sinni til tvisvar sinnum á ári. Svo skoðuðum við sandsíubeddann sem vatnið frá þrónni rennur í gegnum til að verða hreint og tært áður en það rennur út í umhverfið á ný. Hann var að gefa mér góð ráð.

Vegna þess að hann tók sér tíma til að gefa mér góð ráð, þá bauð ég honum í kaffi. Hann varð harla glaður og þegar hann var tilbúinn með bílinn kom hann inn í kaffi. Ég veit varla á hverju hann átti von, en þegar hann kom inn fyrir dyrnar inn í dagstofuna stoppaði hann snögglega og sagði: Hafið þið gert þetta svona fínt? Svo gekk hann eins og svolítið á tánum og leit út um gluggann móti vestri, móti sveitinni sinni, og sagði að þetta væri alveg frábær staður. Svo drukkum við kaffi og borðuðum ristað brauð með osti og vorum glaðir. Svo kom Valdís og borðaði morgunverð með okkur.

Þannig er það að Sólvellir er góður staður og þó að vorverkin hafi ekki gengið eftir eins og til stóð, þá höfum við eftir sem áður ávaxtað eignina með miklum sóma. Því má ég, og við bæði, vera stolt þann 13. apríl. Það er ekki bara maðurinn á tankbílnum sem segir þetta. Bæði yngri og eldri minna okkur svo oft á það að við búum vel á Sólvöllum og að staðurinn er svo fallega í sveit settur. Margumtöluð inflúensan bara breytti áætlunum okkar svo mikið en nú erum við hér og nú og þannig á það að vera.

Ég var góður í reikningi í skóla. Ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að reikna út hvað ég yrði gamall árið 2000. Svo reiknaði ég þetta aftur og aftur og þó að ég vissi svarið hélt ég áfram að reikna þetta út ár eftir ár. Fimmtíu og átta ára, vá! Sá sem er 58 ára hlýtur að vera mikið vís maður! Mig minnir að eitthvað á þá leið hafi ég hugsað. En þegar ég var til dæmis átta ára, þá var árið 2000 bara í ljósára fjarlægð. Og þó! Það eru komin tólf ár í viðbót við 58 árin og stundum finnst mér sem ég sé svo langt frá því að vera vís maður. Mér getur fundist ég vera barnalegur þegar minnst varir, klaufi í orðalagi, taka óþroskaðar ákvarðanir, en svo er ég líka oft ánægður með þann sem ég er þó að mér finnist vísi maðurinn kannski ekki vera kominn ennþá. Kannski verð ég vís maður á morgun. Hver veit?

Við hlökkum til heimsóknarinnar á morgun og það verður mikil tilbreyting fyrir okkur og svo sannarlega vona ég að þau sem koma í heimsókn til okkar upplifi það þannig líka. Það verður engin fjölmenn afmælisveisla á morgun, það verðum bara við, þessi fjölskylda sem ég hef þegar nefnt. Ég held næstum að það sé bara í Vornesi sem fólk hér í landi veit að ég verð sjötugur á morgun. Nokkrir Vornesingar ætla að gleðja okkur með nærveru sinni á mánudaginn kemur. Það fer nú vel á því.

Nú rak ég augun í vísdómsorð dagsins í bókinni Kyrrð dagsins. Þar eru orðin í dag fengin úr fornindverskum söguljóðum og þar segir: Hávær orð falla með glymjanda í tómið. Réttu orðin, jafnvel mjög lágvær, geta lýst heiminum.

Ég veit að þegar ég hef sagt eitthvað sem hefur haft jákvæð áhrif á fólk, þá hef ég ekki talað hátt. Hávær rödd og valdmannsleg fer mér afskaplega illa.

Nú fer ég að leggja mig harla glaður. Það er hollt að blogga og alveg sérstaklega þegar það er erfitt að byrja.


Kommentarer
Markku

Gratulerar Gudjon på födelsedagen, idag den 13/4 - tydligt att du fyller en fin och aktningsvärd ålder.

2012-04-13 @ 00:13:13
Bára Halldórsdóttir

Sæll Guðjón

Við mæðgin vitum að þú verður sjötugur í dag enda vorum við líka á Sólvöllum á mánudaginn!!

Við sendum þér innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins og vonum að þú, Valdís og fjölskyldan njótir dagsins sem best.

Þér er alveg óhætt að vera eins og "haninn á haugnum" , og ég get vottað að orð bílstjórans eru svo sannarlega rétt, húsið ykkar er bæði fallegt og vistlegt og þar held ég að öllum líði vel, og ekki eru íbúarnir af verri endanum.

Kveðjur bestar

Bára og Halldór Stefán

2012-04-13 @ 01:06:54
Ingegerd

En liten fågel har viskat i mitt öra så jag vill passa på att säga Stort Grattis på födelsedagen! Hoppas du får en härlig dag med mycket firande med dina nära och kära! Kram

2012-04-13 @ 16:56:26
Þórlaug

Til hamingju með gærdaginn Guðjón. Þó ég hafi ekki komið að Sólvöllum sé ég á myndunum að þú mátt alveg vera eins og haninn á haugnum. Bestu kveðjur til Valdísar og allrar fjölskyldunnar.

Jói biður líka að heilsa ykkur.



Þórlaug

2012-04-14 @ 12:42:36


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0