Hannes Guðjón

Ég bloggaði almennt um einfaldan afmælisdag í gær en geymdi bloggið um heimsóknina hans Hannesar Guðjóns vegna þess að ég ætlaði að gera því því sérstök skil með nokkrum myndum sem bara tilheyrðu heimsókn hans eins.

Þegar þeir stigu ut úr lestinni í Kumla feðgarnir Pétur og Hannes Guðjón var sem Hannes væri feiminn eitt augnablik. Svo leit hann á mig og teygði hendurnar á móti mér. Hann vildi koma til mín og þar með var afmælisdagur minn orðinn helmingi verðmætari en ella. Svo fékk ég að halda á honum alla leið að bílnum og hann virtist svo glaður að vera kominn í heimsókn. Valgerður og Rósa eru í hvarfi þarna bakvið þá feðga. Við nafni spjölluðum glaðir saman en þau hin fengu að brasa með farangurinn.

Þegar við komum á Sólvelli gekk Hannes beint inn og það var ekki spurning að hann kannaðist vel við sig frá því í fyrra. Hann gekk beint að rúminu í herberginu þar sem þau sváfu fyrir níu mánuðum og lagðist á hnén til að draga kassa með leikföngum undan rúminu. Athafnasemi hans á Sólvöllum var þegar komin í gang. Ég skal viðurkenna að ég hefði getað verið með honum þarna í mölinni og hjálpað honum að leggja veg en það virtist vera mörgu að sinna á sjötugsafmælinu.

Á skógargöngu. Það er sem hann spyrji hvort við ætlum ekki að koma okkur áfram, hvort hann þurfi virkilega að bíða lengi eftir okkur. Þetta hlýtur að vera gott umhverfi fyrir lítinn mann að heimsækja.


Eftir fjóra daga á Sólvöllum var komið að brottför. Þarna er Hannes kominn með bakpokann sinn og gengur rösklega út að bílnum. Ennþá er hann er örugglega ekki meðvitaður um að hann sé nú á heimleið, jafnvel þó að hann sé búinn að kveðja nágrannastúlkurnar Ölmu og Siw.


Þarna er Hannes búinn að kveðja ömmu og það er eins og það sé kominn tregi í svipinn þar sem hann horfir móti ömmu sinni og myndavélinni. Hálftíma seinna rúllaði lestin af stað í Kumla og ég veifaði honum og hann bara sat þar og horfði á mig og virtist ekki átta sig á að leiðir væru nú að skilja. Það var víst ekki fyrr en þau stigu út úr lestinni í Stokkhólmi og ég var ekki á lestarpallinum sem hann áttaði sig almennilega á því að leiðir hefðu skilið. Þá varð hann leiður fékk ég að vita.

En það sem stendur upp úr eftir þessa heimsókn eru stundir eins og þessi. Ég get ekki betur séð en Hannes sé þarna að syngja fyrir mömmu og pabba. Í annað skipti hvarf afi snögglega og hann fór að leita. Hvað var svo afi að gera? Hannes fann hann á fjórum fótum þar sem hann hafði falið sig á bakvið stól. Þvílíkur afi! En Hannesi fannst þetta ósköp gaman, hló mikið og beið eftir að afi fæli sig aftur. Við tókum upp á ýmsu.

Í dag hitti ég hjón í Fjugesta, hjón sem eru svolítið eldri en við Valdís og við töluðum um barnabörn. Þau eru afi og amma margra barna og einnar stúlku sem er bara aðeins eldri en Hannes Guðjón. Ég sagði sem svo að mér fyndist ég kannski fyrst núna vera orðinn nógu fullorðinn til að umgangast með skilningi þetta smáfólk. Ég held að ég hafi ekki verið nógu fullorðinn til að umgangast börnin okkar, alla vega ekki eftir að við byrjuðum að byggja einbýlishús í Hrísey talaði ég um. Maðurinn kinkaði strax kolli og alvarlegur var hann. Hann sagði að það væri mikið til í þessu. Konan var á sama máli. Ég þarf að muna eftir að útbúa veg með Hannesi næst þegar hann kemur og nota til þess mölina sem hann mokaði í hjólbörurnar fyrsta daginn sem hann var hjá okkur núna.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0