Að velta fyrir sér vísdómsorðum

Ég sat hérna fram í dagstofu og horfði á mynd af Kálfafelli, mynd sem Mats Wibe Lund tók 1987. Það var hljótt á Sólvöllum. Valdís sat við tölvuna og kíkti á Fb og svo spilaði hún Bubbels. Við vorum bæði að búa okkur undir að bursta og þetta venjulega sem fólk gerir á kvöldin fyrir svefninn. Eiginlega sá ég ekki myndina. Svo datt mér allt í einu í hug Kyrrð dagsins þar sem ég hafði ekki lítið í þá bók síðustu dagana. Ég teygði mig eftir bókinni og byrjaði að lesa daginn í dag, síðan í gær og svo koll af kolli þangað til ég var kominn þangað sem ég hafði lesið síðast.

Ég var svo sem ekki beinlínis yfir mig hrifinn af öllum vísdómsorðunum, en ég las þau þó rólega og gaf þeim öllum möguleika á að hrífa mig. Svo datt mér í hug einn morgunfundur starfsfólks í Vornesi fyrir einum sex árum. Þá er alltaf lesinn texti í byrjun fundar og þennan dag var textinn um það hversu mikið við manneskjurnar eigum að þroskast af öllu mótlæti. Sérstaklega einn þátttakenda á þessum morgunfundi vegsamaði þessi orð en ég fann bara hvernig seig í mig, bæði við að hlusta á textann og svo ekki minna þegar fólk byrjaði að vegsama hann með háfleygu orðalagi. Ég vissi vel þennan morgun að það er erfitt í mörgum tilfellum að setja þetta í samhengi; mótlæti og þroska.

Daginn áður hafði nefnilega hún Valgerður dóttir mín hringt til mín og sagt mér frá því að bróðursonur minn hafði lent í grimmu umferðarslysi og lamast fyrir neðan mitti. Því var textinn þennan morgun með sínum útspekúleruðu vísdómsorðum hreina tuggan. Þegar röðin kom að mér sagði ég með töluverðum þunga að það væri oft erfitt að finna þetta samband milli mótlætis og þroska. Stundum væri þetta bara orð á blaði. Nú sex árum eftir slysið er bróðursonur minn jafn mikið lamaður og hann var eftir slysið fyrir sex árum.

En mörg vísdómsorð eru svo góð að þau lýsa upp sálina, alla vega ef ég staldra við og íhuga þau, og þann 23. apríl voru vísdómsorðin í Kyrrð dagsins á þessa leið:

Gæti ég aðeins orðið
traustari, látlausari-
stilltri, alúðlegri.

Svo mælti Dag Hammarskjöld sem lifði frá 1905 til 1961. Það er nú bara ómögulegt annað fyrir mig en að vera jákvæður þegar ég les hin mörgu vísdómsorð þessa manns. Ég á heila bók með miklu af vísdómi hans. Ég hef ekki lesið nema brot af þeirri bók, enda verður hún ekki lesin nema setningu fyrir setningu með hvíldum á milli. Ég veit ekki hvort svar er að finna við því sem hann er að meina með þessum orðum, en mig rennir grun í meiningu þeirra. Ég fór aftur að horfa á myndina frá Kálfafelli án þess að sjá hana og velti því fyrir mér hver ég gæti orðið ef mér tækist að þroska með mér þessa eiginleika. Hafi Dag Hammarskjöld verið í þörf fyrir að þroska þetta betur með sér -þá þarf ég.

Þetta var góð hugleiðing áður en ég byrjaði að bursta tennurnar.

Svo að lokum eru hér orð dagsins í dag, 25. apríl:

Aldrei hefur jörðin verið svo fögur
eða sólin skinið jafn skært og í dag....

Ættarhöfðingi nokkur að nafni Nikinapi á að hafa sagt þetta. Ég gef mér ekki tíma til að lesa mig til um hann að þessu sinni. En sannleikurinn er sá að við Valdís höfum talað um fegurð dagsins í dag. Við gerðum það á leiðinni heim eftir veru í Örebro og eins eftir að við komum heim og litum á skóginn að baki húsinu okkar.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0