Óli gaf engin grið eftir ballið

Það var afar óvenjulegt sem ég aðhafðist í gær, alla vega ef ég miða við síðustu 20 árin. Ég fór á ball. Ja hérnana hér. Fyrir mér var þetta reyndar frábær söngkonsert, en að fara á ball og dansa ekki, bara sitja og vera hlustandi, þá er ég svolítið öðruvísi en flestir hinna, ég segi flestir. Ég einmitt hugsaði þarna í gær að það er mikil gjöf sem svo margir hafa fengið að geta bara allt í einu risið úr sæti, gengið fram, gripið hljóðfæri og verið þátttakandi. Það eru mjög margir Svíar sem geta gert þetta og það sást mjög vel þegar ég fór á söngskemmtanir hjá kórnum þar sem Valdís var þátttakandi í Örebro áður. Svo þetta að syngja. Ég reyndi oft þegar ég var búinn að fá mér of mikið neðan í því og meira að segja þá fannst mér alltaf sem ég syngi einhvers staðar við hliðina á hinum. Valdís þjáist sko ekki af þessu.

Og að dansa. Ég var alltaf stirður í dansi svo lengi sem ég reyndi og ég reyndar held að ég hafi orðið svolítið liprari þegar ég var búinn að fá mér í tána, það hafi ekki verið ímyndun. Ja hérna, og þá hef ég ekkert eftir. Leik ekki á hljóðfæri, syng ekki og dansa ekki. Úff, aumingja ég. En í mínum hugleiðingum um þetta undir kórsöngnum í gær var ég líka meðvitaður um að ég hef fengið mínar gjafir. Fyrir mér er þögnin oft upplifun, þögning sem sumir eru hræddir við. Fyrir mér er greinarendi úti í skógi sem ég er búinn að fylgjast með dögum saman hreina hamingjan þegar ég sé að hann er byrjaður að vaxa. Þessar gjafir hef ég útaf fyrir mig. En þegar ég hef fyrirlestur um mál sem fjöldinn getur ekki talað um og ég sé að ég hef áheyrendurna á mínu valdi, þá deili ég með öðrum eins og söngvarinn eða hljóðfæraleikarinn gerir. Trúlega enginn í kórnum eða hljómsveitinni kemst í fótsporin mín í sumu sem ég tek mér fyrir hendur. Svo hef ég mjög gaman af að hlusta á kórsönginn. Gjafirnar sem ég hef fengið eru líka góðar.


Valdís er þarna í miðröð nokkuð til hægri. Hún sá þegar ég tók myndina og ég held að það hafi truflað hana. Hávaxinn maður með gleraugu í öftustu röð hægra megin við Valdísi heitir líka Valdis. Hann er ættaður frá Eistlandi. Valdís mín segir að söngur sé lækning og gott lyf. Það segir kannski Valdis frá Eistlandi líka. Þessar tvær myndir eru ekki góðar enda þarf afburða góða myndavél til að geta tekið myndir af heilum kór með alls konar truflandi ljós í bakgrunninum.

Hugmyndina að Hafðu það gott kórunum hafði hvíthærði maðurinn sem er hægra meginn á myndinni og leikur á hljómborð. Anders heitir hann. Hann var tónlistarkennari sem átti við mikil veikindi að stríða um tíma. Hann hætti sem tónlistarkennari en þegar hann kom til betri heilsu stofnsetti hann tvo eða þrjá Hafðu það gott kóra, stendur fyrir kór í stóru fangelsi í Kumla sem er hér skammt frá og alla vega einn kór til viðbótar hefur hann með að gera. Duglegur maður Anders og hann sækir lækningu í sönginn og tónlistina, ekki við að hlusta, heldur með því að vera þátttakandi.

Meira um lækningamátt þess að vera þátttakandi í tónlist. Fremst fyrir miðri myndinni sjáum við mann á hvítri skyrtu þar sem hann er að syngja einsöng. Hann er vel yfir meðallagi hár, herðabreiður og all gildur um mittið. Hann hlýtur að hafa verið mjög sterkur á sínum bestu árum. Hann kallast Tobbe og er nokkuð á níræðis aldri og ég get lofað að ég mundi ekki vilja að hællinn á honum lenti ofan á ristinni á mér þegar hann stígur til jarðar. En þegar kórinn syngur lög með góðri sveiflu og Tobbe hefur lyft sér upp á tærnar og hálf svífur í dansi, þá virðist hann ekki vera svo mörg kíló. Ég hef líka séð hann taka í hendina á manni við hliðina á sér þegar kórinn syngur eitthvað sérstaklega hjartnæmt. Já, er þetta ekki frábært?


*


Þegar við komum heim var kyrrlátt, dimm nóttin lögst yfir en útiljósin loguðu á Sólvöllum og lamparnir í förstofugluggunum sem snúa að götunni buðu okkur velkomin heim. Vítt og breitt til allra átta nema austurs lifðu útiljós á bæjum, en að öðru leyti var allt á huldu um það hvað bjó í nóttinni. Minnið segir að allt sé eins og það var í dagsbirtunni í dag og alla aðra daga, en nóttin leggur samt sinn leyndardómsflulla dökka feld yfir allt og gefur hugmyndafluginu endalausa möguleika. Valdís lagði sig fljótt eftir heimkomuna en ég reyndi að byrja að skrifa. Óli lokbrá var næstum uppáþrengjandi og gerði kröfu um hvíld og svo ásækinn var hann að það var ekkert um annað að gera en vera húsbóndahollur og leita á náðir hans án nokkurra skilyrða. Geysparnir voru orðnir gríðarlega stórir og tárin þrengdust fram og það var næstum eins og það væri sandur í augunum -þangað til á koddann var komið. En hvað það var friðsælt að finna ullarfeldinn leggjast að líkamanum. Klukkan var að verða eitt og Óli tók völdin.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0