Lífið heldur áfram

Sá tími sem ég tapaði í inflúensueymdina var tími fyrstu vorverkanna. Svo þegar næstum heill mánuður lá í valnum þá var eins og ég væri hálf áttaviltur og óskipulagður. En ég fékk hjálp við að komast á sporið. Það var fyrst þegar ég vaknaði að morgni 13. apríl sem ég fékk það á tilfinninguna að eymdartímabilinu væri loksins lokið. Svo þann 16. apríl komu nokkrir vinnufélagar mínir í heimsókn og þeir fengu mér verkefni upp í hendurnar. Þeir komu með fjögur tré til að gróðursetja.

Við stilltum trjánum upp eins og þau komu í pokunum og næstu daga færðum við þau til og frá, gengum um og spekúleruðum, færðum aðeins og spekúleruðum aftur. Þannig héldum við áfram í um það bil viku og svo tók ég mér spaðann í hönd, skóflu með löngu skafti, járnkall og haka. Það er nefnilega þannig á Sólvöllum að hart pressuð möl og grjót sem hefur legið óhreyfð í allt að tíu þúsund ár er býsna erfið viðureignar. Skógur þrífst vel á þessu svæði en það er alls ekki víst að eplatré eða brómbersrunnar gerið það. Því er bara að grafa 70 sm breiða holu og meira en hálfs meters djúpa og blanda síðan miklu af frjósamri mold í mölina. Eitthvað lætur þetta kunnuglega í minningunum frá Hrísey þar sem sami háttur var hafður á og ég geri ráð fyrir að svo sé enn.


Fyrra eplatréð er frágengið, afgangsmöl og grjót burtflutt og búið að jafna frjósamri mold kringum tréð, nokkuð hærra en jarðvegurinn í kring, en ég geri ráð fyrir að moldin í holunni eigi eftir að síga umtalsvert. Þetta eplatré er frá Vingåker, heitir Sävstaholmsepli (Sevstahólmsepli), og er talin einhver allra besta eplategund í Svíþjóð. Í framtíðinni þegar fólk kemur heim til Sólvalla að hausti til verður hægt að grípa epli af þessu tré og hafa með sér heim að húsinu. Borðinn sem hangir við tréð var settur á það í Vingåker til að láta það líta út sem virkilega afmælisgjöf. Smekkfólk vinnufélagar mínir.

Til vinstri er síðara tréð frá vinnufélögunum komið í jörð. Til hægri er aftur á móti japanskt kirsuberjatré sem ekki ber neinn ávöxt en það blómstrar hins vegar með afbrigðum fallega. Þegar ég varð 65 ára fékk ég þetta tré að gjöf frá tveimur fjölskyldum í Örebro. Önnur sú fjölskylda er nú flutt til Akureyrar. Svo völdum við Valdís stað fyrir tréð og sá staður var vonlaus. Það er hins vegar búið að dragast í fimm ár að kippa því í liðinn og nú eru byggingarframkvæmdir ekki lengur nein fyrirstaða.

Ég var farinn að skammast mín fyrir þetta en nú er sú skömm lögð til hliðar. Við lögðum mikla alúð í að velja nýjan stað og ganga vel frá þessu tré. Það var á leiðinni að blómstra þegar við stungum það upp og skemmdum auðvitað rætur. Þetta hefði þurft að ske mánuði fyrr. Hvort blómgunin getur orðið eftir þessa færslu er eftir að sjá. Það tekur sjálfsagt tvö ár fyrir það að endurheimta sig vel, en þá trúi ég að það launi alúðina. Næsta hús sem við sjáum þarna er sumarbústaður sem hjón frá Örebro eiga. Þau eru hætt að vinna og eru álíka mikið í þessu húsi og í íbúðinni sinni í Örebro. Í þar næsta húsi býr fjögurra manna barnafjölskylda.


Þessa holu gróf ég í dag og verðandi íbúar holunnar, tvær klifurrósir, liggja þarna aðeins til hægri á myndinni og láta enn sem komið er lítið yfir sér, mjög lítið. Þarna er uppfylling í lóðinni frá því fyrir tveimur árum, góð mold. Þessa góðu mold ætlum við samt að bæta með því sem er þarna í pokunum. Steinninn hinu megin við holuna var það stór að ég, ellilífeyrisþeginn, þurfti að spýta í lófana áður en ég hafði hann upp á bakkann. Hann Kristinn dóttursonur okkar tók marga steina og fjarlægði þegar hann var hér um árið. Væri hann hér núna mundi hann kippa steininum léttilega upp, leggja hann á mjöðmina og ganga með hann út í skóg. Svo mundi ég heyra hann kalla: Má ég ekki setja hann í holuna hérna afi. Þá mundi ég segja já og svo mundi Kristinn láta steinn falla.


Hér eiga brómberjarunnarnir að búa. Það var eftir milkar spekúleringar sem þeim var ákveðinn staður og í dag gróf ég og verður ekki aftur tekið. Svo þegar búið er að flytja grjótið í burtu og raða upp verkfærunum lítur þetta svo ljómandi vel út. Einhvern tíma á morgun ætla ég að ganga frá þessu og gróðursetja. Þessir runnar láta ekki mikið yfir sér þar sem þeir standa hinu meginn við gróðrarmoldarpokana, en þeir verða hins vegar talsvert fyrirferðmiklir eftir því sem ég hef lesið mig til um.


Valdís tekur flestar myndir nú til dags. Það er af sem áður var að ég gangi um með flókna myndavél og telji mig einan um að taka góðar myndir. Svo urðu þær alls ekki allar góðar. Þetta var á því dellutímabili mínu sem kallast myndadellutímabilið. Hægra megin í glugganum sést í grastorfu sem liggur við holuna þar sem rósirnar eiga að koma. Valdís valdi þennan stað vegna þess að hún vill geta séð rósirnar sínar út um gluggann þegar hún situr við handavinnuna sína. Svona rósir voru við suðausturhorn Sólvallahússins þegar við keyptum það. Svo greri hún kolföst við vegginn. Nú er draumur Valdísar að renna upp; að fá samskonar rós sem fær sinn eigin vegg til að festa sig við.

Ég tók þessa mynd úr auglýsingu. Klifurrósin verður bókstaflega alþakinn þessum fallegu rósum og þetta er rósin umtalaða.

Valdís gengur nú gegnum ítarlega læknisrannsókn til að ganga úr skugga um hvort nokkuð alvarlegt sé á ferðinni. Hún er ótrúleg hetja og segir að nú sé um að gera að lifa lífinu eins og ekkert hafi í skorist. Hún er harðari af sér en ég þessi kona. Hins vegar er heilsufar hennar á uppleið. Hún fékk vont kvef og hefur nú að miklu leyti sigrast á því. Það er ekkert smá mál að sigrast á vondu kvefi. Ef Valdís hefði ekki tekið þessa afstöðu hefði ég líklega ekki skrifað þetta blogg og þá alla vega á allt annan hátt. Svo hlökkum við til vors og vaxandi hlýinda þar sem lífið streymir fram í blómum og grænum litum.



Kommentarer
Þórlaug

Það er gott að heyra að Valdís verður rannsökuð vel. Vonandi kemur ekkert nema gott út úr þeirri rannsókn.



Bestu kveðjur til ykkar beggja,



Þórlaug.

2012-04-27 @ 17:12:45


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0