Öðru vísi þögn 7. apríl 2012

Nýr dagur er byrjaður, klukkan er að ganga tíu að morgni og sólin er hátt á lofti í suðaustri. Hún skín milli trjákrónanna sem innan tíðar verða laufkrónur þar sem náttúran mun enn einu sinni hafa sinn gang eins og hún hefur haft í milljarða ára eða svo, það er að segja að vor tekur við af vetri. Að vor taki við af vetri er kannski að bera i bakkafullan lækinn núna eftir viku af apríl, en sannleikurinn er þó sá að lóðin og skógarbotninn utan við gluggann minn eru alþakin snjó og hitamælirinn er eitthvað undir 0 stigum. Áður en við verðum almennilega búin að ljúka morgunverði má gera ráð fyrir að hitinn verði yfir 0 stigunum og að snjórinn fari þá að drjúpa hratt af snævi þöktum trjágreinunum.

Svona leit það út séð gegnum svefnherbergisgluggann okkar um níu leytið. Fyrir miðju og reyndar líka allra lengst til vinstri sjáum við eikur sem við frelsuðum undan þéttvöxnum reyniviði og greni árið eftir að við keyptum Sólvelli. Þær hafa launað frelsið ríkulega þessar eikur og eftir 50 ár verða þær afar tignarlegar. Við Valdís munum þá sjá þær á annan hátt en við gerum i dag, þá sem hvíthærðir 120 ára englar með mjúkliðað hárið vaxið niður á axlir og við komum til að líta eftir hvernig okkur hafi tekist til við að leggja náttúrunni lið. Það verður nú víðar sem við komum við á ferðum okkar þá. Hrísey mun ekki komast undan þessum létt svífandi ósýnilegu verum og sveitin undir fjöllunum austur undir Skeiðarársandi verður nærverunnar aðnjótandi líka.

Nú er tími fyrir síðbúinn morgunverð og svo þurfum við Valdís að semja dagskrá þessa laugardags.

*

Eiginlega var nú búið að semja dagskrá þessa laugardags þegar í gær. Við ætluðum inn í Marieberg, höfuðstöðvar Mammons í Örebro, og erinda þar lítillega og við vorum líka ákveðin í því að fá okkur kaffi og eitthvað gott með því. Það var akkúrat þetta sem við gerðum líka um hádegi í dag. En fyrst fengum við heimsókn. Sænsk börn fara á stjá laugardaginn fyrir páska, máluð og gjarnan í einhverjum búningum sem ekki tilheyra daglegum klæðnaði. Þá kalla þau sig páskakerlingar. Svo afhenda þau páskakort sem þau hafa gert sjálf og svo bíða þau eftir að fá eitthvað í staðinn.

Systkinin Olle og Emma komu fyrst og bönkuðu upp á. Þegar ég var búinn að taka við páskakortinu þeirra spurði ég hvort þau vildu ekki hafragraut, en þau horfðu á mig í mikill undrun. Þá kom Valdís með skálina sem var þá þegar tilbúin hér heima og þau fengu sælgæti en engan hafragrautinn. Valdís tók eftir nokkru þegar þau bönkuðu. Við heyrðum ekki til þeirra, en þar sem Valdís var búin að taka eftir þeim bjargaðist þetta. Í framhaldi af þessu keyptum við dyrabjölu sem er nú þegar komin á sinn stað. Svo komu fjögur börn í viðbót eftir að við komum heim úr verslunarferðinni og allt páskasælgæti er nú búið að þessum bæ. En í staðinn erum við orðin svo nútímaleg að það er komin dyrabjalla á Sólvelli. Munið bara eftir því ef ykkur ber að garði. Sólvallahúsið er vel einangrað.

Í dag komst hitinn í tvö til þrjú stig og það var sól. Snjórinn hvarf því næstum alveg og á miðvikudag er spáð tólf stiga hita og búið að spá því í tvo daga. Eftir það verður nú erfitt að hugsa sér hret. Það fer að styttast í þéttar ferðir mínar út í skóg til að huga að vexti bruma og laufgun. Ég veit hvaða unglauf vekur mesta aðdáun mína og það hef ég oft talað um. Það er beykilaufið. Það er alveg sérstakt að sjá þessi ungu líf, hrokkin, litfögur og glansandi, þegar þau opna sig móti þessum heimi.

Ég er búinn að fara nokkra hringi í skóginum í dag þó að ég hafi ekki verið að fylgjast með brumum. Síðustu ferðina fór ég eftir að dimma tók og sú ferð var auðvitað öðru vísi. Það var jú farið að dimma svo mikið að ég þurfti að fara varlega. En það var annað sem fangaði athygli mína. Það var hljóðið í skóginum. Ég veit varla hvort ég get sagt það að þögnin var öðru vísi en ég segi það nú samt. Ég hef áður komið út í skóginn eftir dimmumótin, en ég man ekki svo áþreifanlega eftir þessu áður. En það var alla vega góð reynsla og skemmtileg.

Ef ég les vísdómsorð dagsins í bókinni Kyrrð dagsins þá stendur þar:

"Mér þykir gott að vera einn.
Ég hef aldrei fundið félaga sem veitti mér
jafngóðan félagsskap og einveran."

Þetta er sagt af manni að nafni Henry David Thoreau (1817-1862)

Mér finnst kannski tekið dálítið djúpt í árinni hér. Mikið finnst mér jú oft gott að vera einn, en ég vil nú samt hafa félagsskap fólks líka. En ef ég þori ekki að vera einn á ég eitthvað óuppgert við sjálfan mig og því er ég mjög ánægður með það hvað mér líður oft vel einum og í mikilli kyrrð. Öðru vísi kyrrðin í skóginum í kvöld var líka góð. Henry þessi hefur vitað hvað hann var að segja. Hann var meðal annars fyrirlesari og mikilvirkur rithöfundur sem ásamt fleiru skrifaði um einfalt líf í náttúrulegu umhverfi. Hann er þekktur fyrir þá bók.

Svo er það mikilvægasta eftir. Valdís er búin að hrista af sér kvefið og það veitir mér mikinn létti. Ég sem var með næstum 40 stiga hita í þrjá daga og finnst ég ennþá vera ónógur mér hálfum mánuði seinna, ég er bæði feginn og hissa. Gott hjá minni kerlingu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0