Dyggðin og öfundsýkin

Ég hlakkaði til að líta út í morgun og sjá hversu langt kraftaverkið græna væri komið eftir nóttina. Þegar ég leit út um þvottahúsgluggann sá ég tré sem er um það bil þriggja metra hátt og heitir Ornesbjörk, kennt við lítinn stað upp í Dölum. Við keyptum tvö svona tré fyrir einum fjórum eða fimm árum til að auka svolítið á trjáflóruna hjá okkur og það hefur ekkert gengið fyrir þeim. Ég spurði þann sem seldi okkur trén hvað væri hægt að gera og hann ráðlagði að kalka vel í kringum bjarkirnar. Ég gerði það og ekkert sérstakt skeði í fyrra. En í morgun þegar ég sá annað þessara trjáa á sjötíu metra færi inn í skóginum, þá vissi ég að nú væri alla vega annað þeirra komið í gang. Sólin náði þarna að skína á tréð gegnum einhverja glufu milli trjáa og gerði það áberandi. Að gleðjast yfir þessu er að geta glaðst yfir litlu.

Við hlustuðum og horfðum á sjónvarpsmessuna í morgun og Valdís söng með. Presturinn talaði við tvítuga konu sem les við Stokkhólmsháskóla. Þegar þær byrjuðu að tala um að verða fullorðinn og taka ábyrgð birtist mér mjög skýr mynd sem var upplifun í Iðnskólanum í Reykjavík fyrir nær 52 árum. Eitthvað þurfti ég að skrifa undir eða staðfesta en áður en ég skrifaði spurði kona hinu megin við afgreiðsluborð hvað ég væri gamall. Þegar ég svaraði því sagði hún að ég yrði að fá einhvern fullorðinn til að skrifa undir fyrir mig því að ég væri ekki orðinn nógu gamall til þess. Ég varð undrandi og mikið móðgaður og sagði að ég væri búinn að vera ábyrgur fyrir lífi mínu síðustu árin, búinn að fara gegnum gagnfræðaskóla, heimavistarskóla, og annast allan kostnað og allt sem til hefði þurft á eigin ábyrgð.

Þegar ég sagði þetta byrjaði miðaldra maður að skellihlæja við hliðina á mér en þó aðeins aftan við mig. Ég leit á hann, ekki mjög glaður, og ég held að ég mundi þekkja andlitið aftur í dag ef ég mætti honum á götu. Svo fastmótuð mynd af honum greyptist í huga mér. En sannleikurinn var sá að ég vann sjálfur fyrir Skógaskóla og átti alltaf afgang á vorin. Það var búmaður í mér, ég var mjög ábyrgur. En síðar í lífinu fölnaði bæði fjármálavit mitt og ábyrgð á eigin málum. Þegar þessi atburður átti sér stað í iðnskólanum var ég reyndar þegar farinn að gefa eftir sem ábyrgur maður. Ég var þá líka fyrir þó nokkru búinn að taka ákvörðun um að verða ekki læknir eins og mig hafði dreymt um í tíu ár, eða allt frá því er Esra Pétursson tók af mér hálfan litlafingurinn.

Í dag sé ég þessa þróun vel og skil orsökina. Orsökin kom ekki utan frá og ég get ekki gert nokkra lifandi manneskju ábyrga fyrir því hvernig fór. Ég er viss með að gera þessu skil síðar en í dag liggur mér ekkert á með að gera það. En aðeins frekar með lækninn. Vissir kennarar í Skógum sögðu mér að ég ætti að verða læknir því að ég hefði eiginleika sem læknum væru mikilvægir. Ég var tekinn á eintal til að segja mér þetta og mér fannst það svo makalaust mikilvæg staðfesting á því að að ég ætlaði að velja rétt og ég held að ég hafi ekki snert gólfið í næstu skrefum þar á eftir. En læknisdraumurinn varð aldrei að veruleika og afar oft síðar á lífsleiðinni þótti mér það mikið miður.

Já, það var mikið sem þessi messa rótaði upp í hugskoti mínu, jafnvel þó að það væri sjónvarpsmessa. Stundum blogga ég af alvöru, stundum af mikilli alvöru og stundum líka um smá hlægilega hluti. Þetta blogg verður nú blanda af hvoru tveggja. Ég las á feisbókinni í dag vísdómsorð um öfund, að sakna ekki þess sem maður ekki á, og vera glaður yfir því sem maður hefur. Ég held hreinlega að ég sé blessunarlega laus við öfund en það hef ég ekki verið alla ævi. Spurningin er bara hvort ég á að segja nokkuð meira um þetta. Það er kannski ástauðulaust að ég klæði mig alveg nakinn á blogginu mínu -eða hvað? En ég held áfram.

Það var 1972 sem þrjár fjölskyldur byrjuðu að byggja við Sólvallagötuna í Hrísey. Það vorum við Valdís og næsta hús neðar í götunni byggðu Rósa og Ásgeir en hinu megin við götuna byggðu Dísa og Ottó. Allar þessar fjölskyldur fluttu inn ári síðar, sumarið 1973, og voru húsin þá nokkuð misjafnlega tilbúin. Einhvern tíma sumarið 1973 þegar ég kom heim eftir vinnu sagði Valdís mér að Ottó og Dísa væru búin að kaupa bíl, Landróver jeppa. Jahá! Það var naumast! Síðar um kvöldið stakk Valdís upp á því að við gengjum yfir til Dísu og Ottós og svo gerðum við. Þetta var á þeim árum þegar fólk gekk gjarnan yfir til nágrannans, bankaði upp á og opnaði sjálft og spurði hvort það væri til kaffi.

Svo gerðum við Valdís þetta kvöld. Þegar við vorum setst inn og byrjuð að spjalla saman spurði Valdís eitthvað út í nýja bílinn þeirra. Öfundin út af þessum bílakaupum gerjaði í mér eins og ígerð í graftarkýli og þegar Valdís byrjaði að tala um bílinn þeirra sagði ég hátt og greinilega: Komum við hingað til að tala um bíla? Ekki man ég hvernig viðbrögðin voru, en þegar við komum heim spurði Valdís mig undrandi hvers vegna ég hefði brugðist svona undarlega við. Ég er viss um að ég sagði Valdísi ekki sannleikann um það mál, en ég gerði mér vel grein fyrir því að vinur minn Ottó ávaxtaði sitt pund betur en mér tókst að gera á þeim árum. Ég þekki til öfundarinnar. Þetta er smá hlægilegt í dag og ég nota þetta í vissa fyrirlestra mína um það sem alkohólistarnir þurfa að venja sig af. Þeir þekkja sig mjög vel í þessu og bresta í hlátur.

Þar með er ég aftur kominn að því sem ég talaði um áður, að vera fullorðinn maður, ábyrgur og velja veg dyggðarinnar. Þegar ég hélt að ég hefði valið auðveldari veginn valdi ég veg erfiðleikanna. Það tók mörg ár fyrir mig að átta mig á því og mörg önnur ár að vinna mig til baka. Hann sagði hann Sveinn í Kálfskinni þegar hann heimsótti okkur eitt sinn í Örebro, að hann bæri virðingu fyrir fólki sem áttaði sig og veldi að taka aftur ábyrgð á lífi sínu. Velja veg dyggðarinnar. Þá var komið fram á nótt og við Sveinn sátum tveir við matborðið heima og töluðum saman í hálfum hljóðum þar sem aðrir voru sofnaðir.

Já, stundum segi ég meira en ég hef nokkra ástæðu til að gera.

Gæt þessa dags
því að hann er lífið
lífið sjálft

og í honum býr
allur veruleikinn
og sannleikur tilverunnar
unaður vaxtar og grósku
dýrð hinna skapandi verka
ljómi máttarins.

Því að gærdagurinn er draumur
og morgundagurinn hugboð
en þessi dagur í dag
sé honum vel varið
umbreytir hverjum gærdegi
í verðmæta minningu
og hverjum morgundegi
í vonarbjarma.

Gæt þú því vel
þessa dags.

(Úr Sanskrít)

Ornesbjörk

 

Blöð Ornesbjarkarinnar



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0