Föstudagurinn langi 2012

Í gær um hádegi fór ég út til að sinna vorverkum. Raunar var það gert meira af ásetningi en ljúfum vilja. Ég, og stundum við bæði, höfum tekið smá stundir við vorverkin undanfarna daga en nú var ég ákveðinn í að láta meira kveða að en undanfarið. Ég fékk mér heitt að drekka og setti svo upp vinnuveltingana. Valdís var farin að finna fyrir kvefi og ég vildi fyrir alla muni að hún færi varlega og svo gerði hún það, en þó með hálf slæma samvisku fannst mér. Það var kalt í gær, eins til þriggja stiga hiti eða svo og næðingur, og ég fann sultardropann leita fram á nefbroddinn. Svo drakk ég meira vatn og hélt áfram og var ákveðinn í að sigra. Valdís kom út öðru hvoru og fylgdist með en veðrið var þannig að það var ekki þægilegt að vera úti nema hafa eitthvað fyrir stafni.

Ég varð var við þegar Valdís tók matarpottinn sem stóð úti í skugga bakvið húsið, en svo velti ég því ekki meira fyrir mér. Þegar ég var búinn að hreinsa í kringum allar alparósirnar, bera á þær, bæta á þær plöntunarmold og svolítilli alparósarmold, þá rakaði ég saman grasrótarhnútum, rótum og öðru sem þurfti að hreinsa frá þeim og fór með í hjólbörum í lægð við skógarjaðarinn þar sem ég gekk frá því. Svo leit ég aðeins yfir verk mitt og var harla glaður. Nú þurfti ég að hafa svolítið hraðann á því að ég átti eftir að gera meira. Ég þurfti að jafna lágkúrulegri malarhrúgu kringum eitt af þakrennuniðurföllum. Þá eins og venjulega urðu nokkrir steinar eftir sem urðu að fara á sinn stað, einnig í lægð út við skógarjaðarinn sunnanverðan.

Gömlu hellurnar tíu sem voru í snyrtilegri stæðu vestan við húsið voru næstar á dagskrá. Þær hafði ég notað sem hjálpartæki við eitthvað af haustverkunum mínum og nú loksins kom ég því í verk að fara með þær á malarplanið bakvið viðargeymsluna. Þetta var nú meiri munurinn og bara gaman, gaman. Krossviðarrenningarnir tveir sem ég lagði á jörðina og notaði sem undirlag þegar ég var að sníða ákveðna steinplötu, einnig í fyrrahaust, voru nú orðnir ægilega áberandi. Ég þreif þær undir aðra hendina og gekk frá þeim skammt frá gömlu gangstéttarhellunum þarna á bakvið viðargeymsluna.

Þannig gekk þetta þangað Valdís kom í dyragættina og spurði hvort ég ætlaði ekki að fara að hætta. Maturinn væri orðinn heitur. Nú, hvað er þetta, er bara komið kvöld. Já, og svo var það, og ég orðinn glorhungraður. Svo var kvöldmatur á Sólvöllum. Sultardropinn á nefbroddinum var löngu horfinn og ég fann fyrir vinnugleði. Ef eitthvað skyggði á var það kvefið sem var farið að gera vart við sig hjá Valdísi. Ég var óánægður með það, það er bara að segja sannleikann í því máli.

Þetta lítur kannski út eins og ég sé að reyna að stíga upp úr djúpu þunglyndi en svo er þó ekki. Ef ég lít til baka, þá eru þeir ekki margir dagarnir þar sem bloggin mín bera sorgartón. Ég skrökva ekki í bloggunum mínum. Þetta var um daginn í gær.

*

Í morgun þegar ég vaknaði eftir minn átta tíma svefn tók ég upp bók sem liggur í náttborðsskúffunni minni. Hún er rauð og heitir Biblían. Núna undanfarna daga sem ég hef tekið lífinu með meiri ró en ég hef gert síðan ég var að ná mér eftir mjaðmaraðgerðina fyrir tveimur og hálfu ári, þá hef ég látið eftir mér að lesa í henni bæði kvölds og morgna. Fyrir all nokkrum vikum byrjaði ég að lesa Jóhannesarguðspjallið. Svo fyrir einum tveimur vikum hljóp ég yfir nokkra kapítula og það varð til þess að ég er núna að lesa nákvæmlega það sem dagurinn í dag gengur út á. Ég get ekki látið það vera að vera snortinn af þessum boðskap. "Í þessum vonda heimi getur ekki fundist neinn góður, æðri máttur sem stýrir því sem skeður". Þetta fæ ég oft að heyra. Nokkrum vikum seinna segja sömu raddir að það sé eitthvað til í þessu öllu saman. Ég skil ekki þessa hluti og get því ekki útskýrt þá heldur. Heppinn er ég þar. Jafnvel þó að ég skildi allt óréttlæti og allt réttlæti, þá mundi ég ekki geta stýrt heiminum. Því er best að skilja bara lítið.

Eftir þennan morgunlestur minn og síðar morgunverð horfðum við á sjónvarpsmessuna. Ég gerði mér engar væntingar þegar hún byrjaði en svo í lokin áttaði ég mig á því að ég hafði orðið fyrir áhrifum sem bara smugu inn í hjarta mitt og skildu eftir gott hugarfar. Þegar ungur presturinn lauk predikun sinni sagði Valdís: "Þetta var gott hjá honum."

Ég ákvað að fara hring í skóginum og það var annar hringur dagsins. Rétt áður en ég lagði af stað heyrði ég meistaraverk hljóma um húsið. Valdís hafði fundið í tölvunni flutning á verki Davíðs Stefánssonar

Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.

Svo lagði ég af stað út í skóg með þetta fallega tónverk algerlega fast í huga mér. Kannski var það þess vegna sem fegurð heimsins tók alveg yfir þegar út i skóginn kom. Það kemur kannski á óvart hvað það var sem heillaði mig svo mjög. Ég sneri við og sótti myndavélina.



Svona var fegurð heimsins í skóginum í dag. Ég vissi ekki almennilega hvaða mynd ég átti að velja til að sýna það sem mér fannst gera skóginn svo fallegan en þessi varð þó fyrir valinu. Hefði ég ekki verið búinn að hlusta á "Ég kveiki á kertum mínum" hefði ég ef til vill alls ekki séð neitt fallegt við þetta, heldur bara að það væri ógeðslega vetrarlegt. Ég hefði vissulega heldur viljað vera þarna í þrettán stiga hita og sjá brumhnappa sem voru í óða önn að springa út. En svo var það bara ekki og þá var best fyrir mig að sjá það næst besta. Ástæðan fyrir að þessi mynd varð fyrst fyrir valinu er sú að það sem lyftir snjónum á myndinni er bláberjalyngið sem var farið að teygja sig á móti sól undanfarinna daga.

Meðan ég rölti þarna um skóginn, tók myndir og heilsaði upp á kunningja mína, og var undir áhrifum þess sem ég hafði upplifað í dag, þá datt mér í hug páskaljóðið hans Björns Jóhannssonar vinar míns frá því í Skógaskóla fyrir 53 árum. Ég sá það á Facebook í dag. Já, hugsaði ég, ég sendi honum Birni orðsendingu og spyr hvort ég megi birta þetta páskaljóð hans í blogginu mínu. Og svo gerði ég og hér er þetta fallega páskaljóð.

Fyrir tvöþúsund árum tóku þeir mann
töldu hann sekan og andsnúinn sér
sökin var ástin, og trúin á þann
sem allt hefur skapað í heiminum hér
illskan og hatrið á honum ei vann
enn tendrar hann neista í hjartanu á þér.

Já Björn, þakka þér fyrir þetta. Hefði hann ekki tendrað neista í hjarta mínu í dag hefði ég upplifað allt annan dag en ég þó gerði. Þetta blogg hefði litið allt öðru vísi út eða aldrei orðið til. Dagurinn í dag er enginn stór gleðidagur í lífi mínu, en mér finnst hann samt vera verðmætur dagur sem hefur gefið mér innsýn í margt. Þetta blogg hefur verið flakk á milli sorgar og trega, umhugsunar og þakklætis, efasemda og undrunar og inn á milli gefandi vissar gleðistundir.



Ungu mennirnir Björn Jóhannsson og Guðjón Björnsson sem fyrir 53 árum sáu lífið sem nánast óendanlegt. Í dag virðumst við báðir hafa verið undir áhrifum föstudagsins langa ef litið er á páskaljóðið hans Björns og föstudagsins langa bloggið mitt.

Meðan ég var að skrifa þetta las ég frásögn Davíðs Stefánssonar um tilurð þessa sálms "Ég kveiki á kertum mínum". Ég hef bæði heyrt og lesið þá frásögn áður en skal viðurkenna að ég var alveg búinn að gleyma þessu. Við lesturinn varð ég ennþá meira hugfanginn. Ég læt slóðina á þessa frásögn fylgja hér með. Það verður enginn verri af að lesa það.

Litla telpan var svo bækluð að hún gat ekki gengið

*

Hér eru svo nokkrar fleiri myndir frá deginum í dag.




Þegar við stækkuðum húsið 2006 vöppuðum við kringum þessi tré og veltum fyrir okkur hvort við ættum að gera þau að byggingarefni. Að lokum þyrmdum við þeim og sjáum ekki eftir því. Nú eru þau lang stærstu grenitré Sólvallaskógarins og hljóta að vera að nálgast 30 metrana. Þau hafa vaxið svo hratt eftir að ljósið fékk greiðari aðgang að þeim að þau eru kannski ekki svo gott byggingarefni lengur.



Miðað við trén fyrir ofan eru þessi bara unglingar en páskasnjórinn gaf þeim svo heillandi útlit að þau urðu bara að vera með.



Það eru ekki mörg ár síðan fræin að þessu tré féllu til jarðar. Ég man þá tíð að hafa grafið stórar holur til að gróðursetja í grenitré og önnur tré, svo ég tali ekki um skítinn og alúð í hugarfari. Svo gat tekist misjafnlega vel með þessi tré og sjaldnast uxu þau mikið fyrstu árin. Nú vaxa þau sjálfkrafa í Sólvallaskóginum og sums staðar þétt sem gras. En þau eru afar laus og það er auðvelt að fækka þeim ef manni sýnist svo. Ég veit ekki hvað verður um þetta litla tré.



Þessi slóð er árangurinn af fótsporum mínum og stundum Valdísar líka. Þau fótspor eru aðallega stigin að degi til. Á kvöldin og nóttunni koma hins vegar fjórfætlingarnir og hjálpa til við þessa stígagerð. Það er hin besta samvinna. Þessi slóð er út undir skógarmörkunum til nágrannaskógarins.


Hér er svo nágrannaskógurinn. Það er allt annar skógur, nytjaskógur, en ef hann yrði allt í einu felldur yrði Sólvallaskógurinn eins og eyðieyja. Þess vegna mundum við svo gjarnan vilja eiga þennan skóg. En það má telja öruggt að þessi skógur verði aldrei felldur án þess að tala um það við okkur.

Ég kveiki á kertum mínum
Trackback
RSS 2.0