Vorskýrsla

Lengi vel sögðu veðurfræðingarnir að það væri ekki svo langt síðan eða ekki svo óalgengt að apríl væri eins og hann hefur verið í ár. Svo breyttist nú þetta eftir því sem apríldagarnir urðu fleiri og þeir fóru að tala um að apríl væri orðinn kaldur. Eftir smá snatt hér heima í héraði í dag og gróðursetningu á Sólvallalóðinni fór ég einn hring á landinu okkar til að rannsaka vorið.


Eina 80 metra út í skógi heimsótti ég álm sem ég sótti í gamla túnið vestan við okkur síðsumarið 2010 eftir að hann Arnold hafði slegið það. Ég stakk þarna upp þrjá álma og flutti heim. Það var erfitt að ímynda sér að þeir gætu lifað af svona ómeðferð, fyrst að vera slegnir niður með stórri sláttuvél og svo að vera stungnir upp á vondum tíma, en þeir gerðu það allir þrír. Þau eru svo sem ekki burðug ennþá laufblöðin á minnstu álmplöntunni sem er hér á myndinni en þau gefa til kynna að álmurinn er á lífi og það tiltölulega snemma. Þetta er sem sagt sú minnsta af þessum þremur plöntum en hún var líka best laufguð í dag. Á jörðinni liggur mikið af laufi sem er á góðri leið að verða næring fyrir skóginn. Hringrás lífsins er í gangi.


Hér eru svo laufblöðin á einum heggnum. Hann er kominn vel af stað og blómgast fljótlega og klæðist þá hvítri skikkju. Um það bil viku eftir að heggurinn blómgast blómgast sírenan. Fólk kallaði þessa viku vikuna milli heggs og sírenu og svo gerir fólk enn í dag, en kannski meira til að nota gamla málið til að segja eitthvað sem lætur vel. Áður töluðu Íslendingar líka um þorra og góu en í dag talar fólk meira um janúar, febrúar og mars. Undir heggnum má sjá skógarsóleyjarnar (vitsippor) sem blómgast nú óðum og eiga eftir að gera skógarbotninn næstum hvítan.

Hlynurinn byrjar á að blómgast áður en hann laufgast og hér er hann á góðri leið. Áður en langt um líður verður hann kominn með laufblöð sem eru lófastór og svo verða þau ennþá stærri. Þá er gaman að standa undir krónunni og horfa til himins. Hlynurinn er einhvern veginn hlýlegt og fallegt tré.


Nú höfum við verið á leið utan úr skógi og heim að húsi. Þessi björk stendur framan við húsið út við götu. Þau verða mörg miljón fræin af þessu birkitré og kannski er það svo sem 5 % laufgað. Það er mikil starfsemi í gangi og bjarkirnar draga mikið vatn upp úr jörðinni og skila út í himingeiminn sem síðan rignir niður einhvern staðar langt í burtu. Þær taka líka mikið af útöndun okkar og breyta í súrefni og hreinsa útblásturinn frá bílunum. Já, þátttaka lauftrjánna er stórkostleg í lífríkinu. Hvað værum við án blaðgrænu?

Valdís sýslar við sitt og hér eru lavendlarnir hennar út á stétt framan við útidyrnar. Hún gerði vel við þá og það verður ekki svo langt þangað til bláa blómahafið þeirra veltur út fyrir barmana á pottunum. Ég var búinn að lofa henni múrsteinum undir körfurnar og þegar ég ætlaði í dagslok að sækja þá, þá voru einar 20 gamlar gangstéttarhellur ofan á þeim. Það var rigningarhraglandi og golukaldi og ég ákvað að láta múrsteinana bíða til morguns og fór inn til að fara í þurr föt og borða kvöldmat með Valdísi. Ég svík hana ekki um þetta. Hún fékk líka rósirnar sínar gróðursettar í dag og þær verða fljótlega að fá eitthvað til að klifra eftir því að þær vaxa hratt. Brómberin eru líka kominn í hörð og það er mikið sem fer að vaxa hér á Sólvöllum.

Það er búin að vera golukaldi í dag og rigningarhraglandi eins og fyrr sagði. Tíu daga spáin gerir ráð fyrir 12 til 18 stiga dagshita og mesta vindi 5 m/sek. Þetta lítur mjög þokkalega út. Beykið sem auðvitað fékk líka athygli mína í skógargöngunni með myndavélina er komið með mjög stór og þrútin brum sem hljóta að gefa eftir mjög fljótlega. Fyrir mér er það alltaf áfangi þegar beykið laufgast. Ég talaði um myndadellutímabilið í blogginu í gær og dellutímabilin mín hafa verið mörg og tekið við hvert af öðru. En ein dellan sem ég hef eiginlega haft alla mína ævi er skógardellan og hana hef ég haft með öllum hinum. Það er holl og góð della.


Kommentarer
litla mákona..

Fallegur er skógurinn.Eistakt þegar allt er að lifna og blómgast.Sakna ykkar.

2012-04-28 @ 00:11:14


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0