Af hverju alltaf á morgnana?

All nokkra síðustu vinnudaga mína í árslok taldi ég næstum tímana sem eftir voru vegna þess að ég var orðinn þreyttur og hlakkaði afar mikið til að vera sjálfur herra yfir mínum dögum framvegis. Svo byrjuðu þessir góðu dagar og eftir hádegi á mánudaginn var hringdi ég til hans Lars nágranna eldri og spurði hann hvort hann gæti komið aðeins við hjá okkur, okkur langaði aðeins að spjalla við hann. Jú, það var ekki spurningin að Lars vildi koma og hann sagðist koma á þriðjudagsmorguninn eftir gönguferðina. Úff, hugsaði ég, þá kemur hann býsna snemma.

Svo kom Lars og við spjölluðum um heima og geima og margt annað en erindið var. Konan hans var ekki heima og honum líkaði bara vel að vera á þessu nágrannarölti svona í ró og næði. Þegar hann var farinn var næsta mál á dagskrá og ég hringdi í hann Lennart smið sem hjálpaði okkur við innréttingar í fyrra. Ég spurði hann hvort hann væri til í að koma og spekúlega svolítið í smíðum með mér. Já, sagði Lennart, ég er til í það og ég kem þá bara eftir gönguferðina í fyrramálið. Æi, hann líka, hugsaði ég, þurfa allir að koma svona snemma. Svo kom hann eftir gönguferðina og við ræddum um smíðarnar og allt mögulegt annað. Bæði Lars og Lennart eru ellílífeyrisþegar.

Ég var nú farinn að hlakka til þess að vera í ró og næði morguninn eftir, það er að segja í morgun. Svo um miðjan dag í gær hringdi síminn og það var pípulangingamaðurinn okkar og hann spurði hvort við værum enn ákveðinn í að hann kæmi snögga ferð til að lagfæra smávegis hjá okkur. Ég vildi fá þetta gert en í augnablikinu datt mér íhug að segja "nei", hann mundi nefnilega koma snemma. Svo sagði ég já við spurningunni og þá sagði hann að maðurinn mundi verða hér hálf átta. Ég stundi við í huganum því að það þýddi að ég færi á fætur hálf sjö. Svo kom pípulangingamaðurinn hálf átta í morgun og hann var fljótur að ljúka lagfæringunni. Svo spjölluðum við saman um stund. Þegar hann fór kom Valdís fram og sagði að hann hefði verið málglaður þessi pípari. Alveg rétt, hann lék á alls oddi og við töluðum meðal annars um ólíka möguleika til upphitunar. Og nú vil ég bara segja það að ef þið ætlið að koma á morgun; þá alls ekki fyrir hádegi.

Annars er það fleira en að hitta fólk sem ég er að brasa við þessa dagana. Ég er að komast í gang við frágang innan húss sem slegið var á frest í byrjun september. Í fyrradag sótti ég upp á loft 65 metra af gereftum sem ég grunnmálaði seinni partinn í fyrrasumar. Þar hafa þau þornað og er nú vel tilbúin til uppsetningar. Í gær dreif ég mig í að slípa þessi gerefti og svo hélt ég að ég yrði viljugur og vinnuglaður í dag við að mála þau eina umferð í viðbót. Þegar ég svo ætlaði að byrja að mála eftir að pípulangingamaðurinn fór fannst mér sem ég mætti nú aðeins setjast í góðan stól og slappa af. Svo settist ég í góðan stól og steinsofnaði.

Seinni partinn í hádeginu byrjaði ég svo málningarvinnuna og málaði þessa 65 metra í áföngum en fannst sem ég hlyti mega taka nokkrar hvíldir. Það gerði ég og ekki síst þegar Valdís bauð upp á pönnukökur með eftirmiðdagskaffinu. Núna er þessari málnigarvinnu lokið og mér finnst sem ég hlakki til að byrja uppsetninguna á morgun. Þar með á ég von á að ég verði kominn í gang með það sem ég þarf að gera í fínsmíðum áður en vorið gengur í garð.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0