Ég vaknaði upp af einhverjum rugluðum draumi

Ég vaknaði upp af einhverjum rugluðum draumi í nótt og fór þá á snyrtinguna og svo fékk ég mér vatn að drakka. Þar með fann ég að ég mundi ekki sofna alveg i bráð. Ég lagði mig undir ullarfeldinn og lét fara vel um mig og lét hugann reika. Fyrstu árin var ekki um það að tala að fara á klósettið til að pissa á nóttunni því að það var ekkert klósett. Ég fór þá í stígvél númer 46 því að það var svo auðvelt að renna fótunum niður í þau og svo fór ég út í skóg. Valdís fór hins vegar á kamarinn. Jafnvel þó að það væru hlýjar og hálf bjartar sumarnætur var þetta ekki svo notalegt.

Eitt sinn þegar ég stóð á stóru stígvélunum og pissaði út í skógarjaðrinum gelti dádýr mjög snögglega stutt frá mér, hvellt og hátt eins og venjuleg dádýr gera. Mér varð svo illt við að ég næstum skildi stóru stígvélin eftir á jörðinni þegar ég hoppaði, eða þá að ég hreinlega kom niður i þau aftur þegar ég kom til baka frá hoppinu. Svo heyrði ég hljóðin hverfa langt út í skóginn. Svo fór ég að skellihlægja. Í annað skipti byrjaði dádýr að gelta gríðarlega angistarfullu hljóði. Svo virtist þetta hljóð berast hratt fram og til baka og virtist aldrei ætla að taka enda. Það hljóðnaði þó að lokum. Nú fannst mér þetta ekkert hlægilegt.

Ég sá fyrir mér hvernig dádýrsmamman reyndi að bjarga kiði sínu, en án vígtanna og klóa átti hún engan möguleika móti tveimur refum. Geltandi horfði hún á dauðastríðið en þegar refirnir byrjuðu að draga dádýrskiðið í átt að greni sínu gafst hún endanlega upp og hljóðnaði. Yrðlinganarnir komu hlaupandi móti foreldrunum og svo hófst máltíð, máltíð sem ég hefði ekki viljað horfa á. Dádýrsmamma færði sig sorgmædd fjær, stóð kyrr svolitla stund og hjartslátturinn hægði smám saman á sér. Síðan lagðist hún niður, örugg, því refir svæðisins höfðu fengið það sem þeir þurftu. Afkvæmið hafði orðið hlífð mömmunnar og skjöldur. Hlutverkin höfðu snúist upp í andstæðu sína.

Hungraðir refirnir rifu og slitu volgt kjötið og seðjuðu hungur sitt. Kiðið var varla þekkjanlegt sem kið lengur og átveislan hægði á sér. Að lokum voru allir mettir. Refirnir drógu kiðið nær greniu sínu og svo lagði fjölskyldan sig þétt upp við hvert annað. Þau fundu ylinn frá hvert öðru og vornóttin var hlý og notaleg. Öll fjölskyldan fann hvernig volg næringin sem þau höfðu innbirt byrjaði að hafa áhrif. Þau fundu lifandi lífið streyma út í kroppana, niður í hverja tá og upp í höfuðin. Lífið var eins dásamlegt og dýr skógarins best geta óskað sér. Einstaka fluga kom of nærri og eyra kipptist við eða skott sveiflaðist. Eins og í sælli ölvunarvímu sofnaði heil refafjölskylda. Lífið hafði bæði tapað og unnið.

Spölkorn í burtu hafði dádýrsmamma lagt höfuðið niður á lyngþúfu og enn var hún nokkuð vör um sig. Eðlishvötin og lífsreynslan sáu um þá hvöt að vera á varðbergi á sem flestum augnablikum. Kiðið hennar var horfið en hún lifði í þeirri óumbreytanlegu vissu að þó að hún hefði misst það sem henni var kærast, þá var hún á lífi og hennar hlutverk var að viðhalda stofninum, halda áfram að lifa. Það var hennar lögmál. Síðsumars mundi hún hitta dádýrsherra með spengileg horn og það mundi verða stutt rómantík. Síðan mundi hún finna að hún var í hlutverki á ný, hlutverkinu að halda við stofninum hvað sem á dyndi. Sú eðlislæga tilfinning mundi gera veturinn bærilegri. Að vori mundi svo fæðast dílóttur fallegur afkomandi á ný og ekkert, ekkert, ekkert mætti nokkru sinni verða þeirri lítlu lifveru að meini. Svo svaf hún svefni dádýrsmömmunnar sem er búin að ganga í gegnum þá mestu sorg sem hægt er að leggja á hana og nú þegar hafði hún sorgina að baki. Svo hélt líf hennar áfram.

Refafjölskyldan vaknaði eftir góðan svefn með magann fullan af því besta sem nokkur refur getur óskað sér. Einn yrðlingurinn reisti sig upp og horfði á hina og svo stökk hann á einn þeirra. Leikurinn var í gangi. Refurinn og tæfan tóku því með aðeins meiri ró, teygðu makindalega úr sér, göptu svolítið og geispuðu og svo voru þau vöknuð til nýs dags. Refafjölskyldan var sterkari en nokkru sinni fyrr og ánægjan var í algleymi. Það var enginn gærdagur, enginn uggur vegna morgundagsins, aðeins hvert augnablik var látið nægja vegna þess að það þurfti ekkert meira. Fjölskyldan var ekki einu sinni svöng ennþá og leifarnar af kiðinu gátu beðið fram eftir degi þar sem allir voru ánægðir með sitt.


*

Upp í skógi vöxnum heiðunum milli Svärdsjö og Svartness í Dölunum er hæð ein þar sem vegurinn gengur að mestu framhjá þessari hæð í mjúkri beygju. Brú er líka yfir skorning í beygjunni. Nákvæmlega í þessari beygju nutu þrír yrðlingar þess að fylgjast með umferðinni og njóta athygli vegfarenda sem gjarnan stoppuðu, skrúfuðu niður hliðarrúðu og horfðust í augu við þessi líflegu dýr. Allir líkamar þessara ungviða og sérstaklega brún augun vöktu aðdáun þeirra sem gáfu sér tíma til að stoppa og horfa niður til þeirra þar sem þau sátu í vegkantinum. Yrðlingarnir voru ótrúlega fallegir og glaðir þar sem þeir horfðu upp til vegfarenda og þeir hreinlega horfðust í augu við fólkið. Nú eru mörg ár síðan.

Þetta sumar kom mamma í heimsókn og var þá 85 ára. Hún var alin upp við að það var hörð samkeppni milli refa og manna um matarbitann. Ef refur tók eitt lamb frá þeirri 16 manna fjölskyldu sem mamma ólst upp í þar sem flestir voru börn, var það mikill skaði. Það gat boðað nokkra svanga daga síðar. Þess vegna var ekki frítt við að mamma sæi refinn sem óvin. Við fórum með hana upp í heiðarnar milli Svärdsjö og Svartness en það var enginn yrðlingur við veginn þá. Þegar við fórum til baka sátu þeir allir í vegkantinum mömmu meginn. Ég stoppaði þegar ég var viss um að yrðlingarnir væru beint undir hliðarglugganum hjá henni. Svo bað ég hana að vefa niður rúðuna sem hún og gerði.

Mamma horfði lengi niður á yrðlingana og þeir horfðu upp móti henni, beint í augu hennar eins og venjulega gerði ég ráð fyrir. Eftir dágóða stund hagræddi hún sér í sætinu og skrúfaði upp rúðuna. Svo sagði hún hæglátlega: Þeir eru afskaplega fallegir. Ég átti varla von á að hún mundi segja þetta um bræður sinna gömlu keppinauta um matarbitann. Nokkrum dögum síðar fór maður þarna um á bíl, maðir sem líklega hafði ekki svo mikinn áhuga á þessum fallegu ungviðum. Því fór hann ógætilega þarna í beygjunni og yrðlingarnir lentu allir undir bílnum. Ekkert kið þurfti lengur að láta lífið þeirra vegna.

Áður fyrr hugsaði ég alltaf um regnskóga þegar talað var um lögmál frumskógarins. Nú er þessi frumskógur nokkra metra að baki hússins okkar. Það þarf sem sagt ekki suður til regnskóganna til að nálgast þetta lögmál. Refurinn tekur eitt dádýr, kið, fugl eða héra og allir í fjölskyldunni verða hamingjusamir þangað til fæðan er búin í það skiptið. Svo er farið í veiðiferð á ný. Maðurinn skýtur lamb til að næra sig og drekkur vín og hefur alls kyns góðgæti með og verður ekki alltaf svo sérstaklega hamingjusamur. Þess vegna skýtur hann 1000 lömb í viðbót eða veiðir bátsfarm af fiski til að geta keypt jeppa og kostað ferð til Tælands. Hvar eru þá lögmál frumskógarins? Ég veit ekki. Ef einhver getur svarað vil ég gjarnan heyra svarið.


Kannski eru þetta þessi augnablik sem rómantíkin stendur yfir

 

Og kannski ver þetta ávöxturinn af því



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0