Hindesmessumarkaðurinn í Örebro

Fimmtudagur í dag og þá var það að vanda söngæfing hjá Hafðu það gott kórnum. Morgunverðurinn heldur með styttra móti og svo bara að drífa rusladallana út í bíl og halda af stað. Þannig er það á fimmtudögum og það er komin regla á það og það er gott að hafa reglur á vissum hlutum. Svo skil ég Valdísi eftir við sóknarhúsið í Fjugesta og fer sjálfur í endurvinnsluna með þessa þar til gerðu ruslakassa sem við keyptum í IKEA. Plast í einum, pappi í öðrum, dagblöð í þeim þriðja og gler og blikkbaukar í þeim fjórða. Svo er ég svo skrýtinn að ég hef gaman af að sotera og liggur ekkert á. Eiginlega er þetta ekki sortering þar sem við erum búin að sortera í dallana. Eftir sorteringuna lýk ég öðrum erindum í Fjugesta og læt tímann líða þangað til kóræfingunni lýkur.

Í dag héldum við frá Fjugesta styttstu leið til Örebro til að sýna okkur á hinum árlega markaði sem kallast Hindesmessumarkaðurinn. Þessi markaður byrjaði á 14. öld og þá var það í fyrsta lagi járn sem var til sölu þar. Í dag selst ekkert járn en vissulega ýmsir hlutir gerðir úr járni. Um 80 000 manns heimsækja þennan markað árlega, en hann er staðsettur á Storatorginu í Örebro og teygir sig út í nærliggjandi götur. Fólk kemur frá flestum landshlutum til að selja vörur sínar. Þar gefur að heyra mállýskur frá norðlægum héruðum Svíþjóðar, frá Vermlandi, Skáni, auðvitað úr Dölunum og fleiri héruðum. Venjulega hittir Hindesmessan á köldustu daga ársins og það er engin tilviljun, það er bara sá árstími.

Hindersmässan i Örebro

Í fyrsta skipti sem við fórum á Hindesmessumarkaðinn var 17 stiga frost og þá vorum við að ganga frá eftir flutninginn til Örebro. Rósa dóttir okkar var þá með okkur og við keyptum tröppu til að geta sett upp ljós og gert annað það sem búferlaflutningum tilheyrir. Næst þegar við Valdís fórum á markaðinn var líka mikið frost og þegar við gengum fram hjá einu sölutjaldinu sat þar kona með mikið af ullarvörum fyrir framan sig, prjóna í höndum og drakk kóka kóla úr plastflösku.

Þá sagði ég við Valdísi að hún hlyti að vera eitthvað biluð þessi að drekka kók kóla úti í hörku frosti. Svo hélt ég göngunni áfram. Skömmu síðar tók ég eftir því að ég var orðinn einn á ferð. Ég sneri við og fann Valdísi á tali við kóka kóla konuna. Hún var þá íslensk þessi kona og við nánari kynni reyndist hún alls ekki biluð. Hún er árlegur gestur á Hindesmessumarkaðinum og kemur 200 km leið til að selja prjónaskapinn sinn. Í dag var önnur kona í sölubásnum hennar en sjálf skyldi hún koma á morgun.

Þegar Valgerður varð 40 ára keyptum við afmælisgjöfina hennar á þessum markaði. Þá var yfir 20 stiga frost og eins gott að láta ekki fötin rifa mikið í hálsmálinu. Ferð okkar á markaðinn í dag var í fyrsta lagi farin til að sýna okkur og sjá aðra og til að kaupa pylsur og bjúgu frá smáframleiðendum langt í burtu. Valdís keypti nokkurra kílóa poka af vermlendskum bjúgum og ég ætlaði að kaupa hreindýrabjúgu langt, langt norðan að. Svo þegar heim kom voru hreindýrabjúgum ættuð vestan úr Vermlandi. Þannig fór nú það en þau reyndust alla vega góð ofan á brauðið með síðdegiskaffinu á Sólvöllum.

Nú er ég búinn að tala heil mikið um kulda. Meðan ég beið eftir Valdísi í Fjugesta í morgun kom ég við á verkstæðinu hjá rafvirkjanum okkar. Þá var kaffitími hjá þeim. Við töluðum um mikinn kulda, þar sem frostið fer niður fyrir 40 stig eins og það gerir langt norður í landi. Þeir sögðu að þegar frostið fer niður fyrir ákveðið mark, sem ég man ekki hvað er, þá frjósi bunan á leiðinni niður ef pissað er úti. Þá nota strákar sér tækifærið og pissa upp byggingum og listaverkum með því að stjórna bununni af norðlenskri strákasnilld. Það var nú um það og getur vel verið satt. Ég veit ekki hvort ég mundi þora að gera tilraun.

Ps. Þetta um kóka kóla konuna segir jú að ég er ekki alveg fordómalus.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0